mánudagur, 5. október 2009

Jóhanna átti ekkert val.

Er hægt að ætlast til þess að forsætisráðherra sé með ráðherra í ríkisstjórn sem ekki vill vinna í takt við það sem ákveðið hefur verið? Ég svara hér fyrir mig og segi nei. það er ekki nokkur leið og hvorki sanngjarnt eða eðlilegt. Þetta er grundvallaratriði sem við kunnum ekki að umgangast af því að við erum óvön því að menn standi og falli með prinsippum.

Hvað er eðlilegt við að Jón Bjarnason sitji í ríkisstjórn hafandi lýst því yfir að hann styðji ekki eitt helsta mál stjórnarinnar? Ístöðuleysi þess manns og prinsippleysi er sennilega heimsmet þó honum sé hampað sem sterkum einstaklingi sem gefur ekki sitt eftir. Hann tekur ráðherrastólinn fram yfir skoðanir sínar og það er engin reisn yfir slíku.

Allt ber þetta að sama brunni. Við verðum að aðskilja löggjafar og framkvæmdavald. Og þá dugir alls ekki að vera með æfingar í þinginu og reyna að búa til brunaveggi. það þarf að kjósa í tvennu lagi og koma framkvæmdavaldinu út úr þinginu. Hringlandahátturinn og vesenið sem við horfum upp á núna er fyrir neðan allar hellur.

Þingið er lamað og ónýtt vegna þess að framkvæmdavaldið virkar ekki. Af því fyrst og fremst að þetta er sama fólkið. Mér finnst þetta vera kennslubókardæmi um að þetta kerfi okkar er ekki nógu gott.

Ekkert er óeðlilegt í því að Jóhanna geti ekki verið með ráðherra sen ekki rær í sömu átt og ákveðið er að róa. Við fáum fréttir af svona löguðu daglega erlendis frá og ráðherrar fjúka af minna tilefni en því að geta ekki fylgt stefnu stjórnar sem þeir sitja í!

Ögmundur er kosinn til að fylgja sannfæringu sinni eftir og það má hann gera af festu og styrk. Og þá sem löggjafi en ekki framkvæmdavald. Ríkisstjórnir eru rekstraraðili fyrirtækis sem lýtur lögum sem þingmenn setja. Hér er þessu öllu blandað saman og útkoman fullkomið kaos þar sem menn móðgast fyrir misskilning og framkvæmdavaldið situr og vélar um löggjöf framhjá þinginu seint og snemma og heimtar trúnað í leiðinni bæði fyrir þjóð og þingi.

Ef allt væri eðilegt væri réttkjörinn forsætisráðherra með fólk í kringum sig sem vill vinna saman að stefnu sem hefði hlotið brautargengi í kosningum. Löggjafinn er svo valinn til að setja leikreglur.

Hjá okkur er þetta ekki þannig. Hér er valið í ríkisstjórn eftir allskonar furðuleiðum innan flokka og þar geta klíkur þurft að fá sinn fulltrúa svo ekki springi allt í loft. Svo fara menn í það síðar að ganga úr skugga um hvort viðkomandi passi inn í starfið og stefnuna.

Þetta er ónýtt og mér finnst Jóhanna hafa gert það eina rétta í stöðunni og við eigum að læra af þessu. Framkvæmdavald og löggjafarvald eiga ekki samleið og því fyrr sem við sjáum það því betra.

Röggi

Engin ummæli: