þriðjudagur, 5. janúar 2010

Ný og betri staða

Ólafur Ragnar er ólíkindatól. Ég hafði spáð því að líkur væri á að hann synjaði lögunum undirskrift enda gaf ég mér að honum væri í einhverju annt um mannorð sitt og einnig það að það sem er til vinsælda fallið hefur alltaf heillað Ólaf Ragnar.

Ég er andvígur því að forsetinn sé að skipta sér af störfum alþingis með þessum hætti. Ég er það í prinsippinu enda ber ég mikla virðingu fyrir þingræðinu. En Ólafur Ragnar var búinn að koma sér í þessa klipu og hélt haus þegar á reyndi gagnvart fyrri ákvörðunum. Fyrir vikið er hann að breyta eðli embættisins og að líkindum munum við þurfa að horfa upp á misafdankaða stjórnmálamenn sækjast eftir því það sem eftir er.

Ég er ekki sannfærður um að þessi lög eigi erindi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Enda finnst mér líklegast að þau verði dregin til baka þó snautlegt sé fyrir ríkisstjórnina að þurfa í tvígang að gera það. Þjóðaratkvæðagreiðsla í raun óþörf því alveg er gefið að málið kolfellur fyrir þjóðinni.

Viðsemjendur okkar geta með engum hætti sakast við ríkisstjórnina og farið að hamast á okkur sem þjóð eftir atburði morgunsins. Ríkisstjórnin gerði allt fyrir þessa aðila sem hægt var en hún hefur ekki vald yfir forsetanum og meira að segja þessir óbilgjörnu viðsemjendur hljóta að skilja slíkt grundvallaratriði i stjórnskipan lýðræðisríkis.

Nú hlýtur verkefnið að vera að reyna að setja saman samninganefnd sem getur staðið í lappir en ekki bara endurómað það sem hagstæðast og best er fyrir þá sem sitja andspænis okkur við samningaborð. Nefnd sem gerir ekki málsstað viðsemjenda að okkar. Nú er komin upp ný samningsstaða og til muna sterkari en áður.

Við munum borga en ekki á hvaða kjörum sem er...

Röggi

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Undarleg er íhaldshirðin. Þið eruð á móti málskotsrétti forsetans. En eruð samt ánægðir með ákvörðun hans því þá er hann samkvæmur sjálfum sér. En ykkur er á sama tíma alveg skítsléttsama um hvort þið sjálfir séuð samkvæmir sjálfum ykkur.

Nafnlaus sagði...

Sjálfstæðismenn hafa sýnt það undafarin ár að veruleikaskyn er ekki þeirra sterkasta hlið, annars værum við ekki í þessu rugli. Sterkari samingastað "my ass", þegar við gefum heiminum þá yfirlýsingu við séum vanskilamenn og orðbrjótar, sem skilja ekki einu sinni hugtakið um að taka ábyrgð á gjörðum sínum, og þar með að "víkingarnir" okkar séu raunsannir fulltrúar Íslendinga.

ekkinn

Nafnlaus sagði...

Ný og betri staða: "Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur lækkað lánshæfismat íslenska ríkisins niður í ruslflokk með neikvæðum horfum."

Nafnlaus sagði...

Bægslagangur Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna í ICESAVE málinu hefur aðeins haft einn tilgang. Hann er sá að koma ríkisstjórninni frá. Þeir vilja sjálfir geta stjórnað "uppgjörinu" við Davíðstímann.

Sigmundur Guðmundsson stærðfræðingur

Nafnlaus sagði...

Sæll
Vinsamlegast gerðu bloggið þitt betra með því að læsa úti Sigmund Guðmundsson stærðfræðing. Hann er að spamma sama svarinu á a.m.k. 4 blogg núna. Þetta gerir hann alltaf.
Kv.
Sveinbjörn