fimmtudagur, 7. janúar 2010

Nú er best fyrir alla að vinna saman

Nú er komin upp áhugaverð staða í Íslenskri pólitík. Á meðan einstaka þingmenn og léttadrengir Samfylkingar hamast á forsetanum og stjórnarandstöðu er kannski að renna upp fyrir reynsluboltanum Steingrími Sigfússyni að stjórnin er í stöðu sem hún getur ekki unnið.

Hún getur vissulega sett undir sig hausinn og farið með lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu en ég get ekki séð hvernig stjórnin ætlar sér að fá vinningsstöðu út úr því vali. Verði lögin felld virðist einboðið að stjórnin fari frá og við vitum hversu vænt þeim þykir um stólana sína. það tel ég reyndar vera vinningsstöðu fyrir þjóðina en það er önnur saga...

Verði þau samþykkt er í mínum huga alveg tært að þá situr þessu vinstri stjórn uppi með skömm sem ekki tekst með nokkru móti að þvo af henni áratugum saman og verður banabiti hennar mun fyrr en seinna. þeim fer sífellt fækkandi sem trúa þvi í raun að fullreynt sé í baráttunni fyrir sanngjörnum samningi. Mín spá er að þeim muni fjölga hratt og það mun gerast þrátt fyrir að ríkisstjórn Íslands fá til fulltingis við sig ríkisstjórnir Bretlands og Hollands í áróðursstríðinu gegn Íslenskri þjóð.

Samfylkingin virðist alveg ákveðin í að stofna til ófriðar við þjóð sína. Reyndar trúa tindátarnir þvi að slagurinn sé við andstæðinga á þingi. Þarna bregst flokknum illilega stöðumatið eins og stundum áður.

Ingibjörg Sólrún hefur greinilega séð þetta og tekið réttan kúrs. þetta stríð á ekki að heyja við eigin þjóð eða þing. Þetta stríð eigum við að heyja saman við óbilgjarna andstæðinga. Margt vinnst með því fyrir ríkisstjórnina.

Þá er ábyrgðin sameiginleg auk þess sem styrkur okkar sameinuð er svo margfalt meiri en sundruð. það er enginn skömm eða ósigur fólginn í því að taka skynsamlegu tilboði um að vinna saman að málinu.

Vissulega þurfa menn að brjóta odd af oflæti sínu en það er hreint smámál samnborðið við efann sem aldrei mun hverfa úr vitund þjóðarinnar ef ekki verður reynt til þrautar.

Röggi

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Samfylkingin virðist alveg ákveðin í að stofna til ófriðar við þjóð sína."

Hvað áttu við?

Kallar þú "stofna til ófriðar" þegar stjórnvöld fylgja stjórnarskrá lýðveldisins?

Þótt ég sé mjög ósáttur og nett pirraður yfir ákvörðun forsetans, þá er þetta réttur sem hann hefur og lögum verður að fylgja.

Þótt núverandi stjórnvöld séu jafn óánægð með ákvörðun forseta og stjórn B og D. Þá eru þau ekki að hlaupast frá verkun sínum, eins þínu fólki er lagið.

Þeir einu sem hafa verið að stofna til ófriðar í þessum máli hafa verið þínir menn ásamt hækju sinni framsókn.

Komu að gerð fyrirvara í sumar og hlupu síðan frá því. Segjast svo núna að það hafi alltaf legið fyrir að íslendingar myndu standa við skuldbindingar sínar. Segðu mér hvenær hafa sjálfstæðismenn sagt það??????????? Ég hef allavega aldrei heyrt það frá þeim.

Hvernig væri að sjálfstæðisflokkurinn byrjaði að vinna fyrir þjóðina í stað þess að standa í einhverjum klækjaleikjum.

Kveðja
Magnús Bjarnason

Nafnlaus sagði...

Úff hvað maður er orðinn langþreyttur á þessari umræðu þar sem ásakanir ganga á víxl!! Og ég hef tekið eftir því að þar er stór hópur fólks sammála mér!! það eina sem sagt er af vita að þessu sinni eru síðustu sex setningarnar: "þetta stríð á ekki að heyja við eigin þjóð eða þing. Þetta stríð eigum við að heyja .......osfrv...." segir allt sem segja þarf. Og hvernig væri svo að fara að tala um eitthvað annað??? :)

Nafnlaus sagði...

,,Þrátt fyrir allt þrasið og fjasið stendur sú staðreynd óhagganleg, að Icesave – þetta tilræði við efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar – er runnið undan rifjum íslenskra manna og á ábyrgð Íslendinga, ýmist vegna aðgerða þeirra eða aðgerðaleysis. Íslensk stjórnvöld réðu yfir lagaheimildum og stjórnvaldsúrræðum, sem hefðu dugað til að forða þjóðinni frá Icesave-reikningnum. Þau brugðust. En í stað þess að viðurkenna mistök sín – svo að af þeim megi læra – reyna þau nú, úr stjórnarandstöðu, að skella skuldinni á alla aðra. Þannig reyna þeir, sem bera þyngsta ábyrgð á óförum okkar, að beina athyglinni frá sjálfum sér með því að kenna öðrum um. Rökin fyrir þessum fullyrðingum standa óhögguð, þrátt fyrir allt þrasið."

http://silfuregils.eyjan.is/2010/01/11/sos/