þriðjudagur, 16. mars 2010

Ólund Steingríms J

Það er ekki tekið út með sitjandi sældinni að vera Steingrímur J. Sigfússon. Karlinn er orðinn önugur á leiður og ríður um héröð forn í skapi og skammar allt og alla fyrir allt og ekkert. Engan skyldi undra....

Hann tók við þröngu búi og sagðist hafa lausnir til að bjargar en þær hefur hann að sjálfsögðu ekki eins og öllum er nú ljóst. Skjaldborgin um auðmennina er eina skjaldborgin sem hann hefur reyst með fulltingi Samfylkingar.

Hann hefur þurft að bera allan þunga af misheppnuðu starfi aðgerðaleysisríkisstjórnar sem hann veitir þó ekki forstöðu á meðan samstarfslokkurinn spilar sig frían með manni og mús.

Hann hefur með gríðarlegri fyrirhöfn lagt sitt pólitíska líf undir í ofboðsbaráttu fyrir Icesave samkomulagið ferlega. Maðurinn lagði nótt við dag og svínbeygði flokkinn sinn til hlýðni og um þau sár mun seint gróa. Tilraun hans til að bera vopn á klæðin með því að fórna Jóni Bjarnasyni fyrir Ögumund segir meira en mörg orð.

Samfylking og VG eru í raun ekki sammála um neitt annað en að vera ósammála og að vera áfram ríkisstjórn hvað sem tautar og raular. Steingrímur veit þó eins og aðrir að það verður hvorki Icesave né ESB umsókn sem verður þessari stjórn að aldurtila. Fjárlagagerð fyrir 2011 verður þeim um megn því ekki er hægt að hækka skatta meira en orðið er jafnvel þó vinstri menn eigi í hlut...

..nú tekur við niðurskurður og það mun þessi stjórn ekki geta komið sér saman um. Pirringurinn milli flokkanna er ótrúlega illa dulinn og hann er ekki persónulegur heldur rammpólitískur. það er nöturleg staðreynd og nægir eitt og sér til að pirra fjármálaráðherra.

Slagur við pólitíska andstæðinga er fyrirséður og eðlilegur og fáir menn sterkari á því svellinu en Steingrímur jafnvel þó hann hafi hörmungarmálsstað að verja eins og núna.

það er slagurinn við fólkið sem telst að vera hans eigið lið, baklandið, sem étur hann að innan. það sem hefur einkennt pólitík VG er bjagað hlutfall milli pólitísks raunsæis og hugsjóna. Steingrímur hefur í sinni ráðherratíð hent mörgum háheilögum hugsjónum VG fyrir raunsæið sem blasir við honum úr ráðherrastólnum og uppskeran er rýr.

þegar það spil svo gengur ekki upp eins og hlýtur að blasa við hverjum sanngjörnum manni er hann staddur á pólitískum berangri í eigin flokki. Hann getur endað einangraður í sínum eigin flokki með þessu áframhaldi. Þetta sér reynsluboltinn og veit...

.. og því er ekki að undra að af honum sé nú dregið. Menn hafa tapað gleðinni af minna tilefni.

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Steingrímur er búinn að átta sig á því að ríkisstjórnin hafi brugðist, sett allt í uppnám, verið ósamstíga og eigi að fara frá völdum. Og að fólk er óánægt með hugmyndir og útspil þeirra. Auðvitað fer það í skapið á manninum. Hver sem er í hans stöðu yrði pirraður...:) Samkvæmt skoðanakönnun fréttablaðsins, þegar spurt var um stuðning við ríkisstjórnina sögðust 38,9 prósent þeirra sem afstöðu tóku styðja stjórnina, en 61,1 prósent sagðist ekki styðja stjórnina!
Getur maður sagt að heil ríkisstjórn sé stödd á pólitískum berangri...?