miðvikudagur, 12. maí 2010

Ég mótmæli ofbeldi gagnvart valdstjórninni

Sagan endurtekur sig í sífellu. Núna er héraðsdómur Reykjavíkur sneisafullur af fólki sem telur ofbeldi góða leið til tjáningar. Þar er verið að taka fyrir mál fólks sem ákært er fyrir brot gegn valdstjórninni ef ég skil þetta rétt. Mótmælendur svokallaðir en sú tegund fólks telur sig ekki þurfa að lúta öðrum lögum en sínum eigin.

Ég veit hreinlega ekki nákvæmlega hverju er verið að andæfa þarna núna. Er þessi hópur að verja málsstað mótmælanna í upphafi? Telur þetta fólk að verið sé að lögsækja fyrir skoðanir? Á hvað rétti er troðið? Hver er málsstaðurinn núna?

þetta er gamla sagan. Á Íslandi er öllum tryggður réttur til að halda skoðunum sínum hátt á lofti. Menn geta mótmælt af lífs og sálar kröftum án þess að nokkur valdstjórn reyni að koma í veg fyrir. Þetta er grunnurinn....

En á hinn bóginn er ÖLLUM bannað að fara á svig við lög hvort sem menn eru að mótmæla eða ekki. Þeir sem ekki telja sig hafa geta farið eftir þeim umgengisreglum sem gilda fyrir ALLA þegna þessa þjóðfélags hvort sem það er í eða við Alþingi eða annarsstaðar verða auðvitað að svara fyrir þá hegðun. Hvað annað??

Dómstólar og lögregla hafa ekki sérstaka skoðun á því hvort ofbeldis eða brotamenn eru með rauð augu eða blá. Hugmyndin um að allir seu jafnir fyrir lögunum er heilög og ófrávíkjanleg. Hún er grunnurinn sem við byggjum allt á.

Lögreglu og dómstólum ber hreinlega að sjá til þess að svo sé. það hefur ekkert með góðan málsstað þeirra sem detta af veginum þrönga að gera eða hvort það sé í stóru eða smáu.

Einmitt og akkúrat þessa dagana ættum við að hafa þessi merkilegu gildi í heiðri. Vegum ekki að grunnstoðunum núna þegar dómstólar eru að reyna að standa í lappirnar.

Jafnvel þó gott fólk með góðan málsstað eigi í hlut.

Röggi

7 ummæli:

Heiða B Heiðars sagði...

"Ég veit hreinlega ekki nákvæmlega hverju er verið að andæfa þarna núna. Er þessi hópur að verja málsstað mótmælanna í upphafi? Telur þetta fólk að verið sé að lögsækja fyrir skoðanir? Á hvað rétti er troðið? Hver er málsstaðurinn núna?"

Það er verið að sýna þeim stuðning OG mótmæla því að þau séu ákærð smkv 100 gr laga.
Núna veistu það. Líður þér betur?

Ace sagði...

Ég veit að margir eru að mótmæla því að mótmælendur séu komnir fyrir dóm áður en þeir sem eru ábyrgir fyrir hruninu hafa einusinni verið kærðir.

Einnig voru mótmæli í landinu á þessum tíma og þau voru kannski ekki alltaf mjög friðsöm á köflum, enda fólk reitt eftir að lífsskilyrði þeirra höfðu verið lögð í rúst vegna græðgi, vanhæfni og siðleysi.

Það verður fróðlegt að sjá hver útkoman verður og hver dómurinn verður, hámarksdómur eru 16 ár en lágmarkið 1 ár.

Shirokuma Brynjarsson sagði...

Ég mótmæli mannréttindabrotum valdstjórnarinnar.

Svo er valdstjórn ofboðslega ljótt orð. Það er svona eins og að segja: húsbygging, vélartæki, bifreiðarbíll. Svo hefur það líka svona fasískt yfirbragð.

Unknown sagði...

Hahahahaha, þvíklík endemis vitleysa þessi bloggfærsla - það finnst varla setning í henni sem 'meikar sens'!!

Pétur Gunnarsson sagði...

Við þetta er margt að athuga. Ef þú gefur manni á kjaftinn verður þú vonandi ekki ákærður fyrir manndráp. Þú dæmir ekki tæknivíti á tvígrip, vona ég, ekki nema þú haldir með öðru liðinu, en þá áttu auðvitað ekki að vera að dæma leikinn.
100 gr. hegningarlaga er það sem ákært er fyrir, þar er fólki gefið að sök að hafa stefnt sjálfræði Alþingis í hættu. Það sjá allir að það er fjarstæða í þessu tilviki, Röggi, fólk fór á þingpalla með hávaða og læti en sjálfræði þingsins var ekki stefnt í hættu í neinum skilningi, þarna voru engar ákvarðanir undir, þarna voru hversdagslegar umræður í gangi og ekki einu sinni bókað um truflun á þingstörfum í fundargerð.
Mótþrói við handtöku, brot gegn valdstjórninni? Tvímælalaust. Húsbrot? Það má ræða það. Fólk taki ábyrgð á því sem það gerði, greiði sektir eða viðurlög í samræmi við það og sinn fyrri ferli eins og lög gera ráð fyrir. En, árás sem tefldi sjálfræði alþingis í hættu og eins árs lágmarksfangelsi samkvæmt lögum? 100. gr a, b og c fjalla svo um hryðjuverk.
Þetta er svo fjarstæðukennt að það er eiginlega móðgandi að vera að ræða það. Svo fjarstæðukennt að ég held að bara pólitískar hvatir geta fengið menn til þess að samsinna svona beitingu ákæruvalds í nafni laga og réttar. Sorglegt að menn lýsi sig sammála þessu í nafni þess að þeir séu svo löghlýðnir. Einmitt þeir sem gefa sig út fyrir að vera stuðningsmenn löghlýðni og réttarríkis ættu að mótmæla þessu. Hitt er svo annað mál að í þessum hóp má örugglega finna alls konar vitleysinga og fólk sem hægt er að láta eftir sér að vera í nöp við af ýmsum ástæðum. En þetta snýst um það sem fólkið gerði á þessum stað og þessum tíma. Og það framdi bara ekki árás sem tefldi sjálfræði alþingis í hættu og á að varða að lágmarki eins árs fangelsi. No way. Það er álíka fjarstæðukennt að dæma þetta mál eingöngu út frá tilfinningaviðbrögðum við útliti og framgöngu nokkurra einstaklinga sem eru svona og hinsegin og það væri að draga ályktanir um viðskipti almennt út frá því hvernig Jón Ásgeir hefur staðið að rekstri sinna fyrirtækja. Þetta er stórmál.

Eyþór Gunnarsson sagði...

Stöngin inn Pétur!!!

Einar Jón sagði...

En ef lögin eru "barn síns tíma"? Má þá brjóta þau?