þriðjudagur, 5. október 2010

Ólína og töfralausnirnar

Ég er nefnilega aldrei þessu vant algerlega sammála Ólínu Þorvarðadóttur sem hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu til neinar töfralausnir handa skuldugri þjóð. Pólitíkin sem forsætisráðherrann hennar er að spila núna eru sjónhverfingar.

Vinstri stjórnin sem nú situr skilur ekkert af hverju staðan er orðin eins og hún er. Kannski trúðu vinstri flokkarnir þvi að hægt væri að leysa þjóðina úr snörunni með einhverjum sértækum aðgerðum stjórnmálamanna. Þar er vinstri mönnum reyndar rétt lýst. Þeir trúa allra helst á mátt stjórnmálamanna.

Núna hefur þessi stjórn eytt tveimur árum í að rífast innbyrðis og meðfram því komið í veg fyrir að atvinnulíf geti blómstrað með fjölmörgum hamlandi aðgerðum. Heilt ár fór í að fá Steingrím ofan af því að gefa Bretum og Holendingum stóran hluta af óinnheimtu skattfé barnanna hans.

Vandann átti að leysa með því að gera allt ríkis eitthvað og skattleggja svo allan pakkann fyrir skuldunum. Þetta var og er gersamlega vonlaus aðferðafræði og nú er svo komið að meira að segja Indriði getur varla fundið nýja skattstofna og því fátt annað eftir en að draga úr útgjöldum.

Ef haldið hefði verið öðruvísi á málum en gert var gagnvart atvinnulífinu væri kannski að skapast jarðvegur fyrir fólk og fyrirtæki til sköpunar og frumkvæðis og þá væri kannski einhver möguleiki á rísandi kaupmætti og minna atvinnuleysi.

Það fólk sem situr í ríkisstjórn er svo sannarlega ekki verra fólk en ég eða hver annar. Það bara trúir á mátt stjórnmálamanna og ríkisins. Og vegna þess að bankakerfi heimsins hrundi hefur því tekist að koma óorði á einkaframtak og frelsi. Og afleiðingarnar eru að koma í ljós.

Stjórnmálamennirnir ráða ekki við neitt og þeir bara skilja ekki af hverju öll þeirra góðu ráð og allar þeirra góðu aðgerðir virka ekki. Hvernig stendur á því að við sem höfum skattlagt allt nema hugsanir fólks og fyrirtækja eigum ekki fyrir skuldum?

Kúrsinn sem var tekinn var rangur alveg eins og kúrsinn sem fyrri ríkisstjórnir tóku í góðærinu var líka rangur. Skattaæðið hefði hentað vel í góðæri en drepur allt niður í hallæri. Þarna liggur meinið meðal annars og því fyrr sem við hverfum frá þessari stefnu því betra.

Það er engin alsherjar töfralausn að lækka skatta og ýta þannig undir framkvæmdir atvinnulífs og einstaklinga. En það er örugglega alrangt að standa í veginum eins og VG og Samfylking hafa komið sér saman um að gera.

Hættum að reikna með því að Jóhanna Sigurðardóttir eða einhver annar forsætisráðherra birtist okkur einn daginn og segist hafa reddað málinu. Það mun ekki gerast. Stjórnmálamenn eru ekki töframenn. Þeir geta sett okkur reglur og lög og þeir marka stefnuna. Það erum við, þjóðin sem vinnum okkur út úr vandanum en þá þurfum við ríkisstjórn sem rambar á rétta leið handa okkur.

Það hefur þessi stjórn ekki gert og Ólína hittir naglann á höfuðið. Þau eru ráðþrota og þau eru líklega verr stödd en ég hélt ef þau halda að hægt sé að draga kanínu úr hattinum núna til lausnar á skuldavanda heimila og fyrirtækja.

Við þurfum öðruvísi stjórn með aðra stefnu.

Röggi

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér fynnst það ágætis töfrabragð að láta 2.6 milljarða skuld hverfa hjá útvegsfyrirtæki.

Og það er ekki eina töfrabragðið sem hefur farið framm nýlega.

Það eru greinilega víst til töfrabrögð.

Unnur Kr sagði...

Viltu semsagt fá Sjálfstæðisflokkin og þæga meðreiða sveina í ríkisstjórn á ný?
Hvaða flokkar skyldu vera svo vitlausir að láta leiða sig í þann sjálfsmorðsleiðangur?

Nafnlaus sagði...

Ólína Þorvarðardóttir sameinar allt það sem verst er við íslensku stjórnmálastéttina, hrokann, óheilindin, sjálfbirgingsháttinn, spunann, þvaðrið og lygina.

Þetta á við um ALLA íslenska flokka.

Við þetta óhæfa fólk, þennan hryllilega skríl þarf þjóðin að losna.

Vonandi finna Ólína og vinir hennar í hinum spillingarflokkunum að tími þeirra er liðinn.

Nafnlaus sagði...

Hvar er töfrapenninn og kanínan sem skrifaði neyðarlögin haustið 2008?

Sú ágæta kanína bjargaði innistæðum langt umfram tyggingar og setti þjóðina á svartan lista yfir þjóðir sem mismuna eftir þjóðerni. Gerði Breta og Hollendinga brjálaða.

Var það töframaður innistæðu og fjármagnseigenda sem töfraði þann penna og kanínuna burtu?

Flott hjá þér að vera sammála undanbröðgum og fyrirslætti elítu mafíunnar.

Nafnlaus sagði...

Hefði Jóhanna staðið við loforð sitt, frjálsar handfæraveiðar,
hefðu orðið til þúsundir starfa.

Nafnlaus sagði...

EF einhver getur beitt göldrum, þá er það Ólína Þorvarðardóttir. Hún er með doktorspróf í göldrum. Reyndar ekkert mjög gott doktorspróf, en doktorspróf engu að síður. Hún þarf engar kanínur og engar dúfur. Getur bara beitt sömu trixunum og þegar hún lét sig hverfa af vettvangi vestfirskra mennta og fræða hér um árið. Það var ágætis trix.

Nafnlaus sagði...

Nafnalaus kl. 18.00
Engin mismunun eftir þjóðerni.
Íslendingar urðu að nota íslenska banka.
Áttu ekki aðra kosti.
Englendingar og Hollendingar gátu valið um trúverðuga vexti í eigin bönkum eða spilað fjárhættuspil.

SjálfgræðgisFLokkurinn er krabbamein