fimmtudagur, 17. mars 2011

Auðvitað verður að refsa Ferguson

Ég tilheyri fámennum en afar öflugum hópi manna sem heldur með WBA í enska boltanum. Þetta er lítill og sætur klúbbur sem er trúlega rekinn fyrir lægri upphæð en minjagripasalan á Old Trafford.

Það breytir þó ekki því að þetta félag lýtur sömu lögmálum og öll hin og lekmenn meiðast þar líka án þess að framkvæmdastjórar væli undan og WBA fær líka dómara til að dæma leikina eins og stóru klúbbarnir.

Dómarar eru merkilegt fólk og það eru framkvæmdastjórar líka. Framkvæmdastjórar sumir virðast telja að þegar dómarar gera mistök hljóti það að vera vegna þess að þeir hafi á því sérstakan áhuga sem þá beinist helst gegn félaginu þeirra.

Ég ber ómælda virðingu fyrir Alex Ferguson eins og flestir hljóta að gera. Eini ljóðurinn á honum er áunnið rugl hans gagnvart dómurum. Þar tapar hann stundum allri heildarsýn og sanngirni og sér helst bara þegar hann telur sig óheppinn en missir alveg af því þegar hann er heppinn með ákvarðanir.

Hann hefur nú verið dæmdur í 5 leikja bann fyrir ummæli um dómara sem hann hikar þó ekki við að endurtaka eftir dómsuppkvaðningu. Ég held að Alex Ferguson og reyndar mun fleiri geri sér ekki grein fyrir því hversu alvarlegt er að gera fólki upp óheiðarleika í starfi.

Hvernig ætli Alex Ferguson tæki því ef fjölmiðlamenn héldu því fram þegar hann stilir upp óvenjulega liði að þarna væri hann viljandi að reyna að tapa leiknum? það er nefnilega þannig að dómarar eru fólk eins og hann sjálfur.

Fólk sem vill bara gera vel en því miður gengur það ekki alltaf upp þrátt fyrir mikla reynslu og þjálfun. Þannig gerast kaupin á eyrinni hvort sem þú heitir framkvæmdastóri eða dómari og því er ólíðandi að menn eins og Alex Ferguson tali um dómara sem svindlara. Dómarar geta verið slakir og átt áberandi slaka daga og um það má að sjálfsögðu fjalla.

En það þarf að gera af fagmensku og virðingu fyrir heiðri fólks. Þar flaskaði Alex Ferguson á og því eðlilegt að fyrir það sé honum refsað.

Röggi

1 ummæli:

Unknown sagði...

hvort skrifar þú pistilinn sem stuðningsmaður WBA eða sem dómari?