miðvikudagur, 6. apríl 2011

Nei eða já?

Ég hef verið að reyna að koma mér upp heilsteyptri og rökréttri skoðun á Icesave og gengið misvel. Ég hef samúð með málsstað beggja fylkinga í þessu máli og finnst enginn hafa alveg rétt fyrir sér eða fullkomlega rangt.

Hræðsluáróður einkennir málflutning beggja og kannski er það engin furða því áhætta fylgir báðum ákvörðunum og óvissa. Margir nota afstöðu sína til ESB til að komast að niðurstöðu en það finnst mér liðónýt aðferð. Sumir vilja fella ríkisstjórnina með því að segja nei og það er í sjálfur sér göfugt markmið en má ekki móta afstöðuna til þessa máls að mínu viti.

Innst inni held ég að við séum öll nei fólk. Við myndum ekki taka það í mál að borga skuldir Actavis erlendis þó ríkisstjórn einhvers lands hefði ákveðið að gera það og senda okkur svo reikning fyrir. Í prinsippinu er það auðvitað galið og sífellt fækkar þeim sem nenna að reyna að halda því fram að til séu lög sem skylda okkur til þess...

..heldur heitir það að það sé skynsamlegt og hagstætt að gera það samt. Ég var í hópi þeirra sem börðust gegn "stórsigri" Svavars og Steingríms í upphafi Icesave sögunnar og það hefur kannski mótað mína afstöðu dálítið og ég kann illa að skipta um gír í málinu.

Steingrímur lagði allt sítt líf og kraft í að koma okkur til þess að borga 700 milljarða og lofaði okkur enda heimsins ef það gerðum við ekki. Steingrímur varð lítill inni í sér og sá allan heiminn fá okkur á heilann og ekki tala eða hugsa um annað. Það hefur auðvitað ekki gerst og nú tala fáir þannig um þetta mál lengur.

Þrátt fyrir allt þetta eru ýmsir sem ég ber mikla virðingu fyrir sem ætla að segja já. Og nota til þess margfrægt kalt hagsmunamat. Þetta fólk talar margt af skynsemi finnst mér og minnir á hversu mikilvægt getur verið að semja um hluti fremur en að stofna til stríðs sem enginn vinnur þegar upp er staðið. Engum sé beinlínis einum um að kenna að þessi vandi sé til staðar og því sé hollt og gott að semja og halda svo áfram.

Nei fólkið segir tölur um endurheimtur úr búi bankans ofmetnar en já fólkið vanmetnar og langmenntaðir menn í hagfræði draga fram tölur máli sínu til stuðnings og allt virðist þetta geta verið líklegt. Fyrir okkur sem viljum taka ákvörðun sem byggð er á öðru en pólitískri rétthugsun er úr verulega vöndu að ráða.

Hvað á ég að láta ráða minni afstöðu? Er það réttlætiskenndin kannski en henni er stórlega misboðið ítrekað bæði af Íslenskum yfirvöldum og erlendum. Er það áhættumat og þá spyr ég á hverjum er mark takandi? Er það prinsippið um að borga ekki skuldir einkafyrirtækja en það myndu ríkisstjórnir Hollands og Englands líklega aldrei gera?

Á ég að trúa því að allt fari til fjandans ef við ekki semjum núna og láta þá grundvallarsjónarmið víkja fyrir skynseminni?

þetta er ljóta ástandið og styttist mjög í kjördag og á bakvið nei afstöðu mína er ekki enn full sannfæring.....

Röggi

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góður pistill

Elfa Jóns

Nafnlaus sagði...

Dómstólaleiðin felur í sér minni áhættu:
http://www.advice.is/?p=825

Nafnlaus sagði...

Ég verð að segja að ég bara skil alls ekki þá sem ætla að segja já.
Sérstaklega ekki hægri fólk.
Bankafólk fær afskaplega góð laun. En þegar illa fer þykir samt eins og í lagi sé að senda reikningin á þig og mig.

Það þarf að berjast gegn því með öllum ráðum. Það er ekki til neitt sem heitir kalt hagsmunamat í þeim efnum.
Peningar fara ekki í fýlu eins og einhver góður sagði.
Vilji ekki Evrópski seðlabankin lána fé er hægt að fara svo margt annað.