fimmtudagur, 29. september 2011

Kjarabaráttutaktíkin

Ég hef eins og margir samúð með lögreglumönnum í þeirra kjarabaráttu. Óhemjuerfitt starf og mikilvægt að vel takist til og að þeir sem líklegastir eru til þess að standa sig fáist til starfans. Einn mikilvægur þáttur í því eru kjörin.

Lögreglumenn hafa mikinn meðbyr núna og slagkraftur í baráttunni. Ekki ósvipað og var með leikskólakennara. Þetta finna þeir auðvitað og hyggjast hamra járnið meðan það er heitt. Hver myndi ekki gera það?

Hundruðum saman fara þeir einkennisklæddir í göngu og þeir ætla ekki að standa heiðursverði. Stórir hópar segja sig frá sérsveitum. Kvefpestir gætu stungið sér niður.....Reiðin er réttlát og þjóðin horfir á og kinkar kolli í velþóknun og skilningi.

Ég held að rétta taktíkin núna væri að draga úrsagnir til baka og mæta hnarreystir sem aldrei fyrr og standa sinn heiðursvörð. Svona hlutir geta nefnilega snúist upp í andhverfu sína á augabragði eins og skáldið sagði.

Þeir sem geta og mega semja um betri kjör til handa lögreglumönnum finna auðvitað að ekki er um annað að velja. Eindrægni og samstaða hópsins er afgerandi og stuðningur þjóðarinnar einnig.

Nú væri rétt að standa með þjóðinni og starfinu þegar allt bendir til þess að vel muni fara og standa heiðursvörð og tryggja öryggi allra við setningu þingsins.

Það drægi ekki úr slagkrafti baráttunnar, öðru nær....

Röggi

mánudagur, 26. september 2011

Björn Valur og rökræðan

Björn Valur Gíslason er magnaður kall. Honum skolaði til þings síðast þegar kosið var og kann að vekja athygli á sér. Það gerir hann að jafnaði með kjafthætti og stóryrðum og bætir sér að jafnaði upp málefnafátækt með þeim hætti.

Nú má ekki gera neitt án atbeina stjórnmálamanna. Allt skal ríkisrekið. Björn Valur telur þá best fallna til þess að taka yfir launin okkar og ákveða hvað eigi við þau. Þeir sem efast um slíkt eru bjánar að hans mati og gildir þá einu hvort menn rökstyðja sitt mál af styrk eður ei. Skynsamlegar og málefnalegur rökræður koma aldrei í staðinn fyfir almennilegann Íslenskan kjafthátt.

Björn Valur Gíslason afgreiðir flest mál þannig að úr því heimurinn fór á hliðina án þess að kommúnismi hafi verið þar einn að verki þá hljóti allt að lagast ef við bara tökum hann upp. Svo skammast hann út í allt sem er einka og gefur sér ekki tíma til að skilja að þjóðin er mest leið á stjórnmálamönnum eins og honum sem halda að þeir geri allt best.

Nú hafa tveir þingmenn leyft sér að hafa skoðun á verkefni sem stendur til að fara í og félagi Björn Valur getur ekki þolað þá gagnrýni þótt hún sé ágætlega rökstudd. Gagnrýnendur verksins hafa jafnvel efast um að fjármöngunin standist stjórnarskrá og reynt að koma þeirri hugsun skipulega frá sér.

En slíkt hentar Birni Val ekki og hann freistast til þess að telja það allt að því glæpsamlegt að "nota" stjórnaskránna með þessum hætti. Ég geri ekki þá kröfu til þingmannsins að hann átti sig á hvernig þessi hugsun hans lítur út fyrir okkur hin.

Það notar enginn stjórnarskránna til eins eða neins félagi Björn Valur. Hún er til og hún er ekki pólitískt stjórntæki til að leika sér með í koddaslag í þinginu. Og þegar menn hafa efasemdir um að farið sé á svig við hana ber að taka það alvarlega.

En þá kýs Björn Valur að blása til sóknar og opinbera virðingarleysi sitt fyrir slíkum plöggum. Ekkert er að því að menn greini á enn það er engum til gagns að taka þann pól í hæðina sem Björn Valur tekur þegar hann annað hvort má ekki vera að pólitískum rökræðum eða hreinlega ræður ekki við það.

Röggi

fimmtudagur, 22. september 2011

VG

Steingrímur VG formaður hefur dansað geggjaðann línudans allt þetta kjörtímabil. Þessi hrunadans hefur gengið út á það að reyna að halda VG saman. Að flokkurinn leysist ekki upp í frumeindir en það þyrfti VG einmitt að gera og mun líklega gera.

Öllu hefur verið til fórnað svo Steingrímur geti verið ráðherra. Lengi vel afneitaði formaðurinn helstu baráttumálum VG í gegnum sigursælt stjórnarandstöðutímbil flokksins við hávær mótmæli gömlu afturhaldskommanna sem nú hafa reyndar náð slíkum hreðjatökum að okkur sviður öllum sárt undan daglega.

Flokkurinn er klofinn en það varð nú samt niðurstaðan að hluti hans færi en hinn hluti þeirra sem þarf að fara er eftir og ræður öllu. Með þessum hætti lítur út fyrir að allt sé með felldu en svo er auðvitað ekki.

Vissulega eru Ögmundur , Jón og Svandís kát og reif enda halda þau um öll ráð ríkisstjórnar og böðlast við það hvern dag þrotlaust að færa okkur til fornaldar og kommúnisma. Samfylking og sá hluti VG sem ekki sótti sér lífsspekina í austur Evrópu fyrir miðja síðustu öld situr og stendur eins og þetta fólk vill og getur illa leynt vonbrigðunum.

Kostnaðurinn vegna þessa fellur á okkur öll. Kostnaður sem þjóðin greiðir fyrir það að VG fái haldið velli í núverandi mynd. Ein ríkisstjórn og heil þjóð eru á þessu spilaborði VG þar sem vinningar taldir til afturhaldsliðsins eru gefið stórtap til allra annarra.

Sá hluti VG sem nú stjórnar landinu þarf að kljúfa sig frá. Fyrst frá andstæðingum sínum innan flokks og svo frá þjóðinni líka. Fyrr verður enginn friður og ég segi fyrir mig að frekar vill ég allan ófrið en þann frið sem félagi Steingrímur fann þegar hann afhenti þessu fólki völdin til þess að geta haldið góðu veðri heima fyrir.

Röggi

fimmtudagur, 15. september 2011

Orðið á götunni

Nú er þeim skemmt. Þeim vinstra megin er vel skemmt vegna þess að Hanna Birna er að daðra við að bjóða sig fram gegn Bjarna Ben. Orðið á götunni á eyjunni upplýsir um taugatitring í þingliði flokksins og pirringi.

Ég veit ekkert um þann titring eða pirring þannig séð en eitthvað væri nú dauft yfir ef fólki í þingflokknum léti það svona mál ekki raska ró sinni. Ég þekki ekki einn einasta Sjálfstæðismann sem er ekki að reyna að koma sér upp skynsamlegri afstöðu komi til framboðs gegn Bjarna. Þó það nú væri og hvernig gæti það verið öðruvísi?

Það er dálítið gaman að því hvernig andstæðingar Sjálfstæðisflokksins líta á það að við höfum allavega tvo afar frambærilega og áhugasama aðila í þetta embætti. Samfylking hefur til að mynda engan og neyðist til að tefla fram forsætisráðherra sem veit hvorki hvort hún er að koma eða fara en langar þó alveg augljóslega að fara en kemst hvergi. Pirrandi.....

Sjálfstæðisflokkurinn er í góðri stöðu hvað þetta varðar þó auðvitað muni formannsslagur komi til hans verða helvíti mikill slagur. Og flokkurinn myndi að mínu mati enda með afar sterkan formann hvor sem ynni.

Ynni Hanna Birna yrði það gríðarlegur pólitískur og persónulegur sigur og ekki myndi það veikja stöðu Bjarna Ben að leggja svo sterkan frambjóðanda af velli sem Hanna Birna er. Þeir eru til sem telja það einmitt vera honum nauðsynlegt að fá endurnýjað og öflugt umboð.

Þeir sem sjá lengra en aðrir í pólitík vita nefnilega að verði þessi tveir í framboði til formanns er það win win staða fyrir flokkinn fram í tímann þó það valdi titringi um stundarsakir.

En það er kannski ekki orðið á götunni.......ennþá.

Röggi

Enn um Ólaf Ragnar

Ýmsir Sjálfstæðismenn og auðvitað fleiri eru giska kátir með þrasið sem nú stendur milli gömlu vinanna vinstra megin, forsetans og allra hinna sossanna. Mönnum sárnar og þykir sem Ólafur Ragnar hafi svívirt bræðralagið þegar hann gékk í lið með hinni óverðugu stjórnarandstöðu hægra megin í þingsalnum. Þannig gera menn bara ekki.

Þar held ég reyndar að sé um misskilning að ræða. Ólafur Ragnar eru ekki í neinu liði öðru en sínu eigin og lýtur fáum lögmálum sterkar en þeim hvernig vinsældir hans liggja hverju sinni. Snúist vindar til nýrrar áttar er allt eins víst að Ólafur finni skoðunum sínum nýjan og uppfærðan farveg.

Ég lýsi mig mótfallinn því hvernig hann umgengst ríkisstjórnina og þingið. Og ég hef til þess fullan rétt og góða samvisku. Af því að ég kaus hann ekki til þess að verða stjórnmálamann. Þeir sem kusu hann til að vera það stundum hafa minni rétt til þess að vera óánægðir. Þeir fengu það sem þá dreymdi um.

Hugmyndin um pólitískan forseta hugnast mér ekki endilega illa. En það er hluti af miklu stærri mynd og breytingum á stjórnskipan. Ég held að fáum hafi í reynd dottið í hug að einn maður gæti og ætti umboðslaus að taka sér þann rétt að breyta eðli embættisins eftir pólitískum eða persónulegum hentugleika.

Eitt er að nýta málskotsréttinn og þá ákvörðun hefur hann rökstutt af krafti en að nota Bessastaði til þess að skattyrðast við ríkisstjórn og þing eins og hann gerir núna fellur ekki að mínum smekk. Eru það kannski fríðindi sem fylgja málskotsréttinum?

Hér þarf að hugsa stærra og lengra og láta prinsippin ráða. Þeir sem vilja taka áhættuna og vona að Ólafur Ragnar taki "rétta" stöðu næst eru að mínu viti að veðja í lottói þar sem líkur á vinningi eru hverfandi til lengri eða skemmri tíma..

Röggi

miðvikudagur, 14. september 2011

Hefnd Bubba réttlæti þjóðar.

Hvað er hægt að segja um nýjustu færslu þjóðfélagsrýnissins Bubba Morthens? Þráhyggja dugar hvergi nærri til þessa að lýsa því hvað þarf til svo draga megi þær ályktanir sem Bubbi dregur þar.

Ég hef áður sagt að ég ætla rétt að vona að karlanginn fái greitt fyrir þessar skoðanir því öðrum kosti er freistandi að telja manninn af í vitsmunalegu opinberri umræðu. Bubbi virðist hreinlega hafa verið við veiðar í þrjú ár og ekki haft nokkur tök á að fylgjast með svo fjarstæðukenndur er málflutningurinn.

Þeir eru ekki margir sem hafa heilsufar til þess ennþá að reyna að finna Jón Ásgeir og Jóhannes sem fórnarlömb vondrar þjóðar sem skilur ekki að þeir voru að gera okkur greiða þegar þeir rændu okkur og komandi kynslóðir skipulega í gegnum óteljandi kennitölur og eignarhaldsfélög. Allt skuldsett og yfirveðsett aftur og aftur með hagnaði og allt í boði Bubba og barnanna hans sem bíður nú það verkefni að greiða gjaldþrotin á meðan Jón Ásgeir sötrar diet coke makindalega erlendis.

Bubbi sér hefnd í því að þeir fá ekki að halda þeim bitum sem þeim tókst ekki að setja á hausinn. Hefnd hverra? Þetta er í raun hlægilegt en Bubba virðist fúlasta alvara.

Hann talar um pólitík en eina pólitíkin sem kemur við Baugssöguna er pólitík þeirra sem tóku að sér að verja þá eðlilegum athugasemdum árum saman. En Bubbi hvorki man né skilur....

Bubbi kallar það sem þjóðin sér sem réttlæti hefnd og réttir öllum þeim sem töpuðu á svindli og svínaríi þessarra manna einn á lúðurinn.

Röggi

mánudagur, 12. september 2011

Sagan af afglöpunum tveimur

Ólafur Ragnar gat auðvitað ekki annað en brugðist við því írafári sem verð í kjölfar ummæla hans um ríkisstjórnina og Icesave. Því þótt forsetinn hafi farið duglega út fyrir það valdsvið sem ég hef alltaf haldið að hann hefði þá er ekki hægt að neita því að hann fer ekki með fleipur þegar hann ryfjar upp söguna.

Það er í raun algerlega fáránlegt fyrir okkur að Steingrímur Sigfússon sé að tjá sig um Icesave eins hatrammlega og hann barðist gegn þeirri lausn sem nú virðist vera að fást í málið. Steingrímur var grjótharðasti stuðningsmaður hagsmuna viðsemjenda okkar hér á landi og þó víðar væri leitað og lyppaðist niður gegn þeim sem vildu ganga milli bols og höfuðs á okkur.

Gagnrýnendur forseta nú eru langflestir ótrúverðugir enda stutt hann og hvatt áður þegar honum hentaði að beita embættinu í pólitískum tilgangi gegn máli sem hafði farið í gegnum þingið. Á því fólki er að sjálfsögðu ekkert mark takandi af augljósum ástæðum og hjákátlegt að sjá gömlu kommana keppast við að bera á hvorn annan vitleysuna.

Mig minnir að ekki hafi allir ráðherrar skilað sér á kjörstað þegar þjóðin flykktist þangað til að samsinna meirihluta þings sem kom í veg fyrir vilja Steingríms Sigfússonar og Indriða að ógleymdum Svavari Gestssyni sem enn þumbast við að skrifa greinar í blöð til þess að reyna að selja einhverjum að hann hafi í raun gert góða hluti. Og allt rökstutt af leiðtoga hagfræðideildar HÍ takið þið eftir...

Þetta eru nefnilega tvær sögur. Önnur er af ömurlegri framgöngu núverandi fjármálaráðherra sem reynir að endurskrifa söguna og vonar að allir hafi gleymt og hin af forseta sem þessi sami ráðherra kenndi að nota embættið eins og hann gerir.

Hægt en örugglega hefur sígið á ógæfuhliðina hjá Ólafi Ragnari í embætti og nú er svo komið að hann situr að mínu viti umboðslaus. Hann var ekki kosinn til þess að vera stjórnmálamaður á Bessastöðum. Það er vald sem hann hefur tekið sér. Einn daginn ofsavinsæll en hinn úthrópaður. Hver vildi þannig forseta? Forseta sem hagar seglum eftir vinsældavindinum....

En það gefur Steingrími Sigfússyni ekkert umboð til þess að gefa þingi og þjóð fingurinn í hroka sínum eins og hann klárlega reynir að gera þegar Isesave framvindan öll er til umræðu. Vel má vera að Steingrímur hafi ekki bitið úr nálinni hvað hans þátt í þeirri sögu áhrærir.

Ég vona bara að þjóðin gleymi sér ekki þegar þessir menn sækja sér umboð á ný.

Röggi

miðvikudagur, 7. september 2011

Spunameistarar

Nú þegar taugaveiklunarstigið í stjórnmálunum er að ná ótrúlegum hæðum fá spunameistarar aukinn tilgang. Spunameistarar eru merkilegur hópur skákhugsandi huldumanna sem halda sig til hlés í bakherbergjum að mestu þó vissulega séu til dæmi um stjórnmálamenn sem hafa gaman að spunasmíðum og bakherbergjaklækjum. Össur telur þetta sér til tekna grunar mig og stærir sig af því að "sjá" lengra en aðrir. Einmitt það...

Verkefnin geta verið af ýmsum toga. Suma daga þarf að hanna atburðarás eða koma í veg fyrir og auk þess að koma hentugum hugmyndum að fólki. Aðra kannski að fá fólk til þess að hætta að hugsa um sumt og snúa sér að öðru. Eftiráskýringasmíð er auk þes snar þáttur í starfi hvers spunakóngs.

Hér ræður ríkisstjórn sem er þannig samsett að annar flokkurinn er all eindreginn stjórnarflokkur en hinn afdráttarlaus og vinnufús stjórnandstöðuflokkur sem á að jafnaði samleið með þeim sem eru andvígir. Þetta hefur vitaskuld í för með sér þó nokkur óþægindi sem hefur verið frjóum spunameisturum verðugt verkefni að vinna með.

Ófáir yfirvinnutímarnir hafa farið í það að telja fólki trú um að allt sé þetta nú orðum aukið og stórbrotið hefur verið að fylgjast með mastersverkefninu að reyna að fá stórsigur út úr verkum þesarar ríkisstjórnar.

Þrautþjálfaðir löngu útskrifaðir spunasnillingar munu ekki megna að selja sanntrúuðum þann sannleik hvað þá hinum. Meira að segja hugmyndasterkir spunatrúðar af hinum kannti hafa ekki hugmyndaflug í sumt af því sem raunverulega hefur gerst á stjórnarheimilinu...

Nú þegar vond staða á því heimilinu versnar stöðugt og óttinn um að upp úr slitni er að fornum sið gripið til spuna 101 og reynt að láta umræðuna snúast um vanda á öðrum heimilum en sínu eigin.

Þetta er sniðugt bragð og sígillt og vel þess virði að reyna í knappri stöðu þar sem engin von er lengur um vinning heldur í besta falli einhvern varnarsigur. En ég held að enginn spuni muni taka því fram sem raunverulega er að gerast á stjórnarheimilinu og mun gerast.

Brestirnir eru að verða óviðráðanlegir og ekki spurning um hvort heldur hvenær. Þá verður verkefnið ekki lengur andstæðingarnir hinu megin. Og þá mun hver þurfa að bjarga sér sem betur getur á flóttanum.

Æfingarnar sem við erum vitni að dags daglega eru barnaleikur miðað við það þegar spunadeildir Samfylkingar og VG taka til við að reyna að bjarga flokkunum undan þessu ríkisstjórnarsamstarfi.

Þá verða sett ný viðmið.

Röggi

þriðjudagur, 6. september 2011

Ljótur sigur betra en fallegt tap

Ágætur sigur á Kýpur sem er víst langt fyrir ofan okkur á styrkleikalistanum góða. Engin glans yfir sigrinum en fyrir lið sem hefur ekki unnið lengi er ljótur sigur mun betri en gullfallegt tap.

Miklar mannabreytingar eru á liðinu frá einum leik til annars sem er almennt ekki talin góð latína en sumt af óviðráðanlegum ástæðum annað kannski skortur á sjálfstrausti þjálfara sem vinnur ekki leiki.

Slakasti maður vallarins og þó víðar væri leitað fyrirliðinn Eiður Smári lét eftir sér að kunna ekki að gleðjast eftir leik og mér finnst fyrirliðabandið fara illa á upphandlegg hans.

KSÍ tekur sig vera með svo mikla söluvöru í höndunum núna að betra sé að gefa ekki eftir af miðaverði og fá fleiri í stúkuna en færri. Það er skrýtinn bisness og kannski ekki í fyrsta sinn sem KSÍ er ekki að lesa salinn rétt.

Röggi

Roy eða Lars?

Roy Keane? Viljum við Roy þegar okkur stendur til boða Lars Lagarback? Kannski er Lars ekki eins sexý og Roy Keane og ólíklegri til þess að framleiða fyrirsagnir en hann er þrautreyndur maður með fínan árangur.

Auðvitað getur Roy Keane svínvirkað en þaðan sem ég sit er hinn valkosturinn betri ef ég þarf að velja milli þessara tveggja.

Íslenska landsliðið á ekki að vera æfingapúði fyrir mann sem hefur ekki náð árangri en er vissulega fyrrverandi frábær leikmaður og oft skemmtilega bilaður, úr öruggri fjarlægð, og auk þess heimsfrægur sem er alltaf dálítið gaman.

Lars Lagerback þarf ekkeret að æfa sig. Hann veit hvað hann er að gera og þekkir skandinavískan fótbolta eins og handarbakið á sér. Þeir eru vissulega til sem telja að við ættum ekkert að vera að spila fótbolta.....

...heldur snúist þetta mest um að æsa sig upp og berjast. Það er gamli tíminn og núna erum við að fá upp kynslóð af mjög efnilegum fótboltamönnum sem munu vonandi aldrei verða froðufellandi tæklarar alveg sama hversu mikið er um það beðið.

Ég vill miklu fremur setja þessa kynslóð í hendurnar á Lars Lagerback en Roy Keane.

Það er ef þetta eru einu valkostirnir.

Röggi

mánudagur, 5. september 2011

Biðlaun Þórunnar

Af hverju skyldi Þórunn Sveinbjarnardóttir ekki þiggja biðlaun? Eru þingmenn undanþegnir almennum réttindum á vinnumarkaði? Erum við kannski á þeirri skoðun að biðlaun séu óþörf? Er ekki bara rétt að stefna að því að gera starfið almennt enn verr launað og óaðlaðandi en nú er?

Mér finnst umræðan um biðlaun Þórunnar dapurleg. Þórunn er í raun fórnarlamb aðstæðna. Stór hluti þjóðarinnar telur þingmenn allt að því þroskaheft og illa meinandi fólk sem er ýmist að koma úr fríi eða í leiðinni í frí.

Dvínandi virðing fyrir alþingi er sérstakt umfjöllunarefni en ég verð þó aldrei þeirra skoðunar að með því að skerða réttindi þingmanna til kjara munum við styrkja stofnunina. Ég er einmitt og eindregið þeirrar skoðunar að við eigum að gera betur í þeim efnum til að laða okkar besta fólk að.

Þórunn er ekki að gera neitt annað en hennar réttur stendur til og mér finnst umræðan um þetta stundum lituð hræsni. Ég bið þá sem myndu afsala sér launum í uppsagnarfresti að rétta skriflega upp hönd.

Í mínum huga er alveg augljóst að fólki ber ekki að afsala sér þeim kjörum sem það á fullan rétt til. Sumir telja það sérstaka dáð að gera það og það er ágætt svo langt sem það nær.

En það er enginn glæpur að gera það ekki.

Röggi

Forsetinn hennar Álfheiðar Ingadóttur

Ég sé það í snöggri yfirferð minni að hver einasti skrifandi vinstri maður hefur látið það eftir sér að fjargviðrast út í forsetann sinn vegna ummæla hans um Icesave málið. Krampakennd viðbrögð og órökrétt sé litið til sögunnar.

Nú er það bara þannig alveg sama hvað Álfheiði Ingadóttur og félögum hennar kann að finnast að orð forsetans um Icesave deiluna eru dágóð greining á því sem gerðist. Reyndar er rétt að halda því skilmerkilega til haga að fulltrúar andstöðuhóps forsetans hafa ekki reynt að andæfa innihaldi þess sem forsetinn er að ræða og er þar um vissa framför að ræða....

Ég hef hreint enga samúð með Álfheiði Ingadóttur og hennar klíku sem réði sér ekki fyrir kæti þegar forsetinn gerðist stjórnmálamaðurinn á Bessastöðum. Það var þegar hann gékk erinda vinstri manna á alþingi til að koma í veg fyrir innleiðingu fjölmiðlalaganna hafi einhver gleymt því.

Það verk átti ekki lítinn þátt í því að eigendur bankanna sem voru fyrir undarlega tilviljun einnig eigendur fjölmiðlanna gátu stýrt almenningsálitinu á meðan þeir unnu sitt verk. Og það gerðu þeir og fulltrúar forsetans á þingi horfðu á með velþóknun og héldu að málið snérist um Davíð Oddsson.

Þessari atburðarás var miðstýrt frá Bessastöðum þar sem forsetinn hennar Álfheiðar sat makindalega og þótti vera að vinna þjóðþrifaverk okkur til heilla. Sagan hefur kennt þeim sem eitthvað geta séð að þar hefði betra verið heima setið en af stað farið.

Og sagan er enn að kenna þeim sem eitthvað geta lært. Sagan hefur nefnilega kennt okkur að ef ekki hefði komið til stjórnarandstaða á þingi og svo forsetinn hennnar Álfheiðar værum við pikkföst í skuldasúpunni sem Jóhanna og Steingrímur voru að sjóða með Gordon Brown og Hollenskum stjórnvöldum. Um þetta deilir enginn sem vill vera láta taka sig alvarlega...

Nú er full ástæða til þess að ræða hlutverk forseta Íslands til framtíðar og ekki síst hvernig við viljum sjá málskotsréttinum beitt. Þar verður hlutur Álfheiðar Ingadóttur enginn enda hefur hún sýnt það að hún getur ekki haft prinsippafstöðu til málsins.

Forsetinn hennar Álfheiðar er nefnilega bara forsetinn hennar þegar hann er að gera það sem Álheiður telur rétt og gott óháð grundvallarreglum. Slíkur er hennar styrkur...

Og svo mér sýnist að við Álfheiður verðum seint sammála um það hvenær hann er að gera gott mót og hvenær ekki.

Röggi

föstudagur, 2. september 2011

Límið

Við vitum að það er stundum erfitt að vera í ríkisstjórn og líklega aldrei eins ferlega og að sitja í þeirri sem nú ræður. Óhemjuvandi fyrir höndum og hver höndin upp á móti annarri. Að vísu ríkir þar afar merkilegt ógnarjafnvægi.

Annar flokkurinn fær að reyna allt hvað af tekur að koma okkur inn í ESB á meðan hinn er því algerlega mótafallinn. Hinn flokkurinn fær svo sjálfdæmi í efnahagsmálum á meðan og er smátt og smátt að breyta okkur í lítið sovét þar sem allt er bannað og þjóðin er ekki marktæk.

Ástandið á stjórnarheimilinu er orðið þannig að óþol Samfylkingar til VG er ekki lengur top secret heldur blasir við öllum sem vilja sjá og hinum líka.

Nú þegar fylgið fer að hrynja af VG naglfestir það flokkana endanlega saman á hræðslunni við dóm kjósenda. Þeir geta ekki unnið saman um nokkurn skapaðan hlut en geta af hápólitískum ástæðum ekki hætt. Þetta liðónýta "samstarf" heldur því líklega áfram þangað til leikreglurnar neyða flokkana til að mæta kjósendum sínum á kjördegi sem kemur alltof seint.

Við þessar fáránlegu aðstæður reyna svo flokkarnir að finna einhverja leið til þess að geta tekið sér frí frá því að úthúða hvor öðrum. Þá er oft sniðugt að benda á aðra og finna kröftum sínum loks sameiginlegan farveg

Og trixið í dag er að ráðast á stjórnarandstöðuna sem hefur það helst til saka unnið að vera á móti boðum, bönnum og skattaofbeldi ríkisstjórnar og lagðist svo af óskammfælni gegn Icesave sigri Steingríms Sigfússonar ofan á allt.

Úrræðaleysi og innanhússharmleikir ríkisstjórnar sem stefnir af festu og einurð gegn framförum og vexti atvinnulífs skrifast ekki á stjórnarandstöðuna.

Blindir menn eins og Björn Valur telja það afrek í sjálfu sér að ekki hefur tekist að knésetja allt hér og ég tek undir það með honum og öðrum að því ber að fagna og það sýnir okkur að sem betur fer þarf meira en eina afleita ríkisstjórn til að steypa öllu í glötun.

Í þröngri stöðu með tapað tafl er ekki úr vegi að reyna að grugga vatni og benda á stjórnarandstöðuna þegar bornar eru á ríkisstjórnina staðreyndirnar. Það kann að virka vel til heimabrúks en gerir ekkert gagn til lengri tíma.

VG veit að það er bara þessi eini séns næstu ótalin ár því ekki dettur nokkrum í hug að vinna með þeim á ný. Og Samfylking horfir fram að vera allt í einu ekki viss um að vera í næstu ríkisstjórn.

Þetta er límið gott fólk. Þetta heldur flokkunum saman og ekkert annað. Flokkarnir eru ekki sammála í neinum aðalatriðum og eru hættir að reyna að fela það. Nema um að vera ríkisstjórn sem ekki kann að vera til og getur ekki hætt.

Röggi








fimmtudagur, 1. september 2011

dv.is fellur á fjölmiðlafræðiprófi

Þær eru margar aðferðirnar við matreiðslu frétta. Oft er erfitt að sjá annað samhengi milli fyrirsagna og raunverulegs innihalds frétta en að reyna að afvegaleiða lesendur eða hreinlega vona að þeir láti sér fyrirsögina nægja.

Í dag skrifar dv.is frétt um afkomu Morgunblaðsins. Ekkert er athugavert við það en fyrirsögnin er að Mogginn tapar allt að 800 000 á dag. Það er grefilli mikið finnst mér og ég bíð í ofvæni eftir samsvarandi upplýsingum varðandi rekstrarafkomu DV.

En raunverulega fréttin í þessu er að Mogginn er að ná sér nokkuð vel á strik og er með verulega mikið betri afkomu en á síðasta ári. Tapar sem sagt mun minna en árið á undan. Það er það sem tölurnar sem dv.is hefur undir höndum sýna.

Þessi framsetning dv.is á "fréttinni" ætti að vera kennsluefni í fjölmiðlafræði 101 um það hvernig fagmennska við úrvinnsla upplýsinga víkur fyrir öðrum hagsmunum sem ég læt ykkur hvert og eitt um að meta hverjir gætu verið.

Röggi