mánudagur, 12. september 2011

Sagan af afglöpunum tveimur

Ólafur Ragnar gat auðvitað ekki annað en brugðist við því írafári sem verð í kjölfar ummæla hans um ríkisstjórnina og Icesave. Því þótt forsetinn hafi farið duglega út fyrir það valdsvið sem ég hef alltaf haldið að hann hefði þá er ekki hægt að neita því að hann fer ekki með fleipur þegar hann ryfjar upp söguna.

Það er í raun algerlega fáránlegt fyrir okkur að Steingrímur Sigfússon sé að tjá sig um Icesave eins hatrammlega og hann barðist gegn þeirri lausn sem nú virðist vera að fást í málið. Steingrímur var grjótharðasti stuðningsmaður hagsmuna viðsemjenda okkar hér á landi og þó víðar væri leitað og lyppaðist niður gegn þeim sem vildu ganga milli bols og höfuðs á okkur.

Gagnrýnendur forseta nú eru langflestir ótrúverðugir enda stutt hann og hvatt áður þegar honum hentaði að beita embættinu í pólitískum tilgangi gegn máli sem hafði farið í gegnum þingið. Á því fólki er að sjálfsögðu ekkert mark takandi af augljósum ástæðum og hjákátlegt að sjá gömlu kommana keppast við að bera á hvorn annan vitleysuna.

Mig minnir að ekki hafi allir ráðherrar skilað sér á kjörstað þegar þjóðin flykktist þangað til að samsinna meirihluta þings sem kom í veg fyrir vilja Steingríms Sigfússonar og Indriða að ógleymdum Svavari Gestssyni sem enn þumbast við að skrifa greinar í blöð til þess að reyna að selja einhverjum að hann hafi í raun gert góða hluti. Og allt rökstutt af leiðtoga hagfræðideildar HÍ takið þið eftir...

Þetta eru nefnilega tvær sögur. Önnur er af ömurlegri framgöngu núverandi fjármálaráðherra sem reynir að endurskrifa söguna og vonar að allir hafi gleymt og hin af forseta sem þessi sami ráðherra kenndi að nota embættið eins og hann gerir.

Hægt en örugglega hefur sígið á ógæfuhliðina hjá Ólafi Ragnari í embætti og nú er svo komið að hann situr að mínu viti umboðslaus. Hann var ekki kosinn til þess að vera stjórnmálamaður á Bessastöðum. Það er vald sem hann hefur tekið sér. Einn daginn ofsavinsæll en hinn úthrópaður. Hver vildi þannig forseta? Forseta sem hagar seglum eftir vinsældavindinum....

En það gefur Steingrími Sigfússyni ekkert umboð til þess að gefa þingi og þjóð fingurinn í hroka sínum eins og hann klárlega reynir að gera þegar Isesave framvindan öll er til umræðu. Vel má vera að Steingrímur hafi ekki bitið úr nálinni hvað hans þátt í þeirri sögu áhrærir.

Ég vona bara að þjóðin gleymi sér ekki þegar þessir menn sækja sér umboð á ný.

Röggi

Engin ummæli: