miðvikudagur, 21. mars 2012

Afbrigðið

Það er ekki alltaf praktískt bannsett lýðræðið. Það getur verið svifaseint og þungt sér í lagi stjórnvöldum sem ekki mega vera að því að koma málum í gegnum afgreiðslustofnanir eins og alþingi.

Í dag gerðist það að ekki tókst að fá nægjanlegan stuðning við afbrigði á alþingi til þess að koma mjög mikilvægu máli, nefnilega stjórnarskrármálinu, áfram í gegnum þingið á styttri tíma en venjulega er ætlaður.

Það er einhver hroki í því að geta ekki þolað þinginu að vinna eftir þeim reglum sem löggjafinn kýs hverju sinni. Sumir þeirra sem hafa gagnrýnt þetta hástöfum telja sig alla jafna sérstaka boðbera aukins sjálfstæðis þings gagnvart framkvæmdavaldi og hafa talað um virðingu þings og hvatt til vandaðra vinnubragða.

Hvað varð um fagurgalann um að tryggja minnihlutanum rétt á löggjafarþinginu? Á það bara að vera stundum og þá kannski helst eftir pólitískum meginlínum?

Ég dett í ákveðnar stellingar þegar þingmeirihluti og eða stjórnvöld hafa ekki tíma til þess að bera virðingu fyrir lýðræðinu vegna þess að Fúsa liggur á að koma málum í gegn um löggjafann. Hvar stæðum við ef Steingrími og Birni Val hefði tekist að koma Icesave í gegnum þingið með flýtihnappnum?

Það er vissulega þreytandi þegar ekki tekst að fá það sem maður vill. Ekki síst ef maður hefur sterka tilfinningu fyrir mikilvægi þeirra mála sem barist er fyrir. En það er lítilsvirðing að hrakyrða þá sem ekki eru tilbúinir þegar hentar að vera á sama hraða og vilja nýta sér þann sjálfsagða rétt að fara fram á að þingið vinni eftir þeim meginreglum sem almennt gilda.

Við getum og megum vera ósammála um málin út og suður en helst ekki gleyma rétti kjörinna fulltrúa á löggjafarþinginu til þess að hafa skoðanir á vinnuferlinu.

Röggi

1 ummæli:

ossi sagði...

Hvað með að tryggja meirihlutanum rétt á Alþingi. Framganga minnihlutans í þinginu í liðinni viku var hreint ofbeldi.