fimmtudagur, 1. mars 2012

Andersen og FME

Því er eins farið með mig og marga aðra að ég er ekki alveg með það á hreinu hvað gengur á hjá
Gunnari Andersen og FME. Það er eitthvað ósagt í málinu og Gunnar rær á þær öldur að stjórn FME hafi óhreint mjöl í poka gagnvart sér.

Ég sjálfur skil illa hvaða hagsmuni stjórn stofnunarinnar gæti haft í því að vikja forstjóranum úr starfi aðra en að viðhalda trúverðugleika hennar.

Gunnar hefur reynt að koma málinu í þann farveg að vondir menn sem hann hafi verið að skoða standi á bak við allt saman. Þetta virkar kannski ekki ósennilegt við fyrstu sýn séu menn þannig innstilltir en þetta er þó ekki stutt rökum.

Gunnari hefur tekist að fá stuðning þeirra sem vilja þessa tengingu og svo líka hinna sem sjá pólitík í málinu. Margir taka svo afstöðu með eða á móti forstjóranum fyrrverandi eftir því hvernig hin pólitíska mælistika liggur.

Lögmaður Gunnars ber sig illa eðlilega og fær enda borgað fyrir það. Hann kvartar undan því að sinn maður viti ekki hvers vegna honum er sagt upp störfum og þjóðin dansar með og dundar sér við að næra sitt helsta tómstundargaman sem er að smíða samsæriskenningar.

Auðvitað veit lögmaðurinn um hvað málið snýst enda breytti hann skyndilega um takt og fór að berjast fyrir því að ekki hafi verið löglega að málinu staðið. Þá var ekki verið að rökræða málsatvikin.

Þjóðin heimtar að fá að vita í smáatriðum hvað hér er um að vera. Hversu sanngjarnt er það? Er víst að stjórn FME geti rekið málið í fjölmiðlum eins og forstjórinn hefur gert?

Ég er að hugsa um að hinkra eftir málsmeðferðinni og láta ekki eftir mér að hafa hentuga skoðun á málinu.

Ég vona að allir séu að vinna vinnuna og áskil mér rétt til þess að vera óánægður sé svo ekki. Þangað til allt verður uppi á borðum í málinu er best að anda rólega.

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Myndin er farin að skýrast.
Ef menn skoða tengslin, Ástráður stjórnarformaður FME, VG maður, tengist flokkseigendafélaginu mjög sterkum böndum, Steingrímur J og síðast en ekki síst, DV, flokksmiðill VG.

Steingrímur og Ástráður funduðu um það hvernig þeir geta farið að því að losna við Gunnar. Framhaldið varð pólitískt klúður og fyrirsjáanleg afsögn Ástráðs og stjórnar FME, auk þeirra pólitísku niðurlægingar sem Steingrímur þyrfti að þola.

Upp er sett plott. DV er látið birta ómerkilegar upplýsingar um Guðlaug Þór Þórðarson, Sjálfstæðismann, og nokkrum dögum síðar, er Gunnar rekinn fyrir að "ná í ólöglegar upplýsingar" frá Landsbankanum.

Steingrímur J og fasistarnir í VG hafa náð nýjum botni í mafíustarfseminni, og skirrast einskis. Pútín er fermingardrengur við hliðina á þessari mafíu.