þriðjudagur, 14. júní 2011

Staða biskups

Hvað á maður að halda um þjóðkirkjuna? Margir ríghalda í trúna og vilja stunda kirkjuna sína og þykir undurvænt um siðina. Við höldum jól og sækjum brúðkaup og jarðsyngjum hvert annað í faðmi kirkjunnar. Börnin okkar flestra eru fermd og skírð í kirkju og tónlistarlíf væri fátækara ef ekki hefðum við haft kirkjukórana.

Og við höfum prestana. Þeir eru af holdi og blóði eins og við og verða varla háheilagir þó þeir ljúki embættisprófi og fái brauð. Það er þannig að við heyrum mun meira af því sem miður fer og svoleiðis er það klárlega með kirkjuna því innan kirkjunnar er auðvitað unnið frábært starf.

En ef við viljum meta gæði hlutanna er best að byrja á slæmu dögunum. Kirkjan er að ganga í gegnum slæma daga hin síðustu ár þegar hvert hneykslismálið virðist reka annað. En það eru viðbrögðin við sögunni og þeim mistökum sem hún hefur að geyma sem gera íllt verra.

Karl Sigurbjörnsson virðist ætla að taka einkahagsmuni sína fram yfir kirkjunnar og vei kirkjunni ef honum tekst það. Rannsóknarskýrsla kirkjunnar á glæpum Ólafs Skúlasonar fer þeim höndum um Karl að hann á engan kost annan en stíga til hliðar. Þannig og aðeins þannig á hann einhvern möguleika á fyrirgefningu.

Kannski upplifir biskup sig sem fórnarlamb tíðarandans á einhvern hátt. Við horfðum á Ólaf Skúlason tala um áskanir sem á hann voru bornar og kærðum okkur kollótt flest og héldum áfram með okkar verk. En við vissum ekki það sem sumir aðrir vissu...

Karl Sigurbjörnsson gerir ekki tilraun til að andæfa niðurstöðu skýrsluhöfunda en reynir að segja okkur hvers vegna hann gat ekki breytt rétt. Ég hef þá skoðun að þær skýringar séu til heimabrúks og geri ekkert gagn fyrir kirkjuna.

Staðreyndin er sú að upp er komin staða sem Karl kemst ekki frá nema segja sig frá starfi. Hann þarf að hugsa stórt og af auðmýkt og hann þarf að hugsa um hag kirkjunnar fyrst og fremst.

Það gerir hann með því að stíga til hliðar. Þannig axlar hann ábyrgð og reynir að læra af misökum sínum.

Einungis þannig....

Röggi

Magnús Orri til varnar landsdómi

Auðvitað hlaut að koma að því að einhver úr stjórnarliðinu snérist til varnar þeirri fáránlegu ákvörðun að senda Geir Haarde fyrir landsdóm og það var þá Magnús Orri Schram sem hafði sig í það.

Magnús Orri er um margt áheyrilegur maður í tali og skrifum og bregst ekki hér frekar en fyrr en innihaldið er rýrt. Lög er lög segir þingmaðurinn og sér hvergi pólitísku skítalyktina af málinusem þó leggur hátt til himins. Leitun er að fólki sem skilur af hverju Geir er einn á sakamannabekk og er ég þá einungis að tala um þá sem skilja hugmyndina um pólitísk réttarhöld yfirhöfuð....

Væri ég eins innréttaður og Magnús Orri og teldi eðlilegt að senda stjórnmálamenn fyrir lögfræðingasveit sem kveður upp úr um það hvað er góð pólitík og hver vond væri kannski mögulegt að komast að sömu niðurstöðu, kannski.

En ég er bara í prinsippinu á móti svona æfingum og útfærslan á þessu leikriti fáránleikans er til skammar Magnúsi Orra og hans fólki. Ég veit svo sem ekki hvort mér hefði liðið eitthvað betur hefði Magnús Orri haft pólitískt heilsufar til þess að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu líka en af því hefði þó verið einhver mannsbragur í allri lágkúrunni.

En lög er lög segir Magnús Orri og ef hann ræður einhverju verður líklega að fastráða fólk til landsdóms því tilefnin eru ærin og verða ærin þegar kemur að því að refsa stjórnmálamönnum fyrir að vera stjórnmálamenn.

Röggi

mánudagur, 13. júní 2011

Enn fellur jonas.is á barnaskólaprófinu

Það er að verða viðtekin venja hjá jonas.is að falla á prófinu þegar kemur að verndun einkalífs fólks. jonas.is telur það tilraun til þöggunar að vilja eiga sér einkalíf. Allar upplýsingar um alla eiga alltaf erindi til almennings ef jonas.is fær að ráða.

Þetta viðhorf hans er þvílík dómsdagsfirra að engu tali tekur enda er ég ekkert viss um að hann vildi finna sig í þeirri stöðu sjálfur að t.d. þeir tölvupóstar sem hann sendir mönnum séu til lesturs fyrir hvern sem er.

Að þessu sinni skilur jonas.is ekki af hverju Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ vill skoða réttarstöðu sína vegna birtingu tölvupósta sem gengur milli hans og Ögmundar Jónassonar. Nú er það bara þannig að um svona samskipti gilda lög og þau eru ekki sett til þess að fólk með gægjuþörf fái ekki svalað þörfinni.

Friðhelgi einkalífs er grundvallaratriði en ekki sérviska. Og tilraunir til þess að krefjast þessara réttinda er ekki tilraun til að fela glæpi.

Skoðanir forseta ASÍ á málum eru opninberar og öllum ljósar og forseti ASÍ hefur að því er ég best veit ekki reynt að halda þeim leyndum fyrir jonas.is né öðrum.

Það sem stýrir jonas.is í þessu máli eins og öðrum er andúð hans á skoðunum forseta ASÍ og í því samhengi finnst honum eðlilegt að kasta grundvallarréttindum eins og friðhelgi einkalífs út um glugga.

En þetta kemur auðvitað ekki á óvart þannig séð. jonas.is var eini maðurinn í Íslandi sem taldi það þjóðhagslega nauðsynlegt að við fengjum nafn piltsins sem myrti unnustu sína birt korteri eftir atburðinn.

jonas.is þekkir ekki mörkin nema þegar það hentar skoðunum hans. Dýpra ristir þetta því miður ekki....

Röggi

fimmtudagur, 9. júní 2011

Egill Helgason og Baugssagan

Egill Helgason reynir í færslu í dag á eyjunni að snúa mannkynssögunni á haus. Tilefnið er bók Björns Bjarnasonar um Baugsmálið. Egill getur reynt að bæta evrópu og heimsmet í hártogunum og útúrsnúningum en sagan liggur fyrir.

Egill Helgason var einn þeirra sem gékk í lið með Jóni Ásgeir þegar honum tókst að selja þá útgáfu að Baugsmálið væri pólitík og slagurinn fór að snúast um það hvort menn héldu með Davíð eða hinum.

Vel má vera að Björn Bjarnason sé svo tengdur Davíð að auðvelt verði fyrir menn eins og Egil að telja einhverjum trú um að Björn sé ekki nógu hlutlaus til þess að mark sé á hans söguskýringum takandi.

En fyrir venjulegt hugsandi fólk þarf ekki neina bók til þess að sjá hver kostnaður okkar er af þeirri vígstöðu sem tekin var með Baugi gegn öllum mögulegum og ómögulegum mönnum sem reyndu að koma einhverjum lögum yfir þá mafíu.

Menn geta talað um kommunistaveiðara og heilkenni og hvað eina og reynt að gera persónur þeirra sem tala að aðalvörn sinni á flóttanum undan eigin fyrri skoðunum. Sú aðferð var ofnotuð af Baugsmönnum og eftir sitja margir góðir menn og margar góðar konur sem gerðu ekkert annað en að vinna vinnuna sína en máttu þola svívirðilegar persónulegar árásir árum saman í fjölmiðlum sem vel að merkja mafían á ennþá. Hver ber ábyrgð á því?

Þeir eru margir sem brugðust og enn bregðast menn og munu líklega alltaf gera og nú vilja menn uppgjör og sumir fagna landsdómi. Egill Helgason vill bara fá að tala og tala en ekki bera neina ábyrgð og kannast svo ekki við skoðanir sínar þegar þær reynast ekki hagstæðar seinna meir.

Röggi

miðvikudagur, 8. júní 2011

Af kjarabaráttu flugvirkja og leikskólakennara

Hver vill ekki fá hærri laun? Ég þekki varla nokkurn mann sem ekki myndi treysta sér til þess að fá meira útborgað. Sumir hafa eðlilega meiri laun en aðrir og þannig á það að vera. Samningar milli vinnuveitanda og launþega eru viðkvæmt mál og erfitt þegar ekki næst lending þó samningsaðilar finni í flestum tilfellum út úr því hvað er eðlilegt og gerlegt.

Þeir sem starfa hjá flugfélögum virðast þó sífellt mæta órétti og tómlæti þegar kemur að launakröfum. Flugumferðastjórar eru í þeirri stöðu líka að þurfa sífellt að stunda skærur gagnvart vinnuveitendum sínum til að fá þá til að mæta eðlilegum kröfum sínum. Þetta þekkjum við öll því fætingurinn bitnar á okkur öllum með allskonar óþægindum og aukakostnaði jafnvel.

Ég veit ekkert hvað eru sanngjörn laun fyrir flugumsjón eða flugvirkjun og sjálfsagt eru þeir sem þessi vanþakklátu störf vinna ekki of góðir launa sinna. Ég veit þó að laun fyrir þessi störf eru mun betri en margra annarra þó samanburður sé erfiður en ég skil ekki af hverju er ekki hægt að semja við þessar stéttir án átaka.

Nú ætla leikskólakennarar að greiða atkvæði um boðun verkfalls í ágúst ef ekki semst. Hvað er að hjá þjóð sem metur störf leikskólakennara einskís en borgar fólki stórfé fyrir að hafa eftirlit með vélum? Ég geri alls ekki lítið úr flugvirkjum og þeirra störfum en þurfum við ekki að gera mikið úr störfum þeirra sem hafa umsjón með börnum okkar fyrstu árin?

Þegar flugvirkjar hafa náð að kreista eðlilegar launahækkanir út úr vinnuveitendum sínum legg ég til að þeir boði til samúðarveikinda og leggist í yfirvinnubönn til stuðnings kjarabaráttu leikskólakennara enda er ég viss um að flugvirkjar eiga sumir börn á leikskóla eins og aðrir og hafa því hagsmuna að gæta í málinu.

Ég velti því stundum fyrir mér hvað knýr fólk sem vinnur á leikskólum því ekki eru það launin fyrir erfiða vinnu. Af hverju er það fólk ekki stanslaust í skærum og leiðindum í baráttunni? Það myndi svo sannarlega koma við marga og setja þrýsting.

Ég er nú bara að velta þessu fyrir mér......

Röggi

laugardagur, 4. júní 2011

Landsdómshneykslið að hefjast

Pólitík er merkileg tík. Fólk skipar sér í sveitir og réttlætir það sem þeirra fólk gerir og bölvar hinum. Þetta á að einhverju leiti við um okkur öll. Þeir sem eru pólitískt meðvitaðir og upplýstir byggja skoðanir sínar á grundvallarsjónarmiðum sem rýma við þá almennu skynsemi sem hverjum manni er úthlutað.

Og svo tökumst við á um málin og erum oft svo hjartanlega ósammála. Sjálfsagt er hægt að deila endalaust um það hvað er rétt og rangt í pólitík en við getum þó flest verið sammála um að stjórnmál snúast um það að fólk fylgi sannfæringu sinni og í þeim leik megum við vera sammála um að vera ósammála.

Stjórnmálamenn taka ákvarðanir sem byggðar eru á upplýsingum og pólitísku mati hverju sinni. Stundum leikur sagan þessar ákvarðanir illa eins og og við þekkjum en reglur leiksins eru þær að enginn getur ákveðið fyrir alla hvað eru góðar upplýsingar og rétt pólitískt mat og á endanum er hinn eini dómur sem skiptir máli dómur kjósenda á kjördegi.

Þetta er þessi hugsun sem lýðræðisríki nútímans hafa samið sig að. Meirihlutinn má hafa pólitískar skoðanir og breyta samkvæmt þeim þó sagan leiki þær stundum illa.

Við höfum í dag sitjandi ríkisstjórn sem gerir það að karríer að taka afleitar ákvarðanir um pólitísk málefni hvort sem það hefur snert Icasave eða efnahagsmál svo eitthvað sé týnt til. Ég hef engan efa um að sagan mun fara afar hörðum orðum um þessar embættisfærslur og bind vonir við að sú saga verði öll sögð á næsta kjördegi. Þannig virkar systemið...

Einhver mesta svívirða og niðurlæging þessara ríkisstjórnar er nú að fara í gang með pólitískum réttarhöldum yfir Geir Haarde. Ekki er einungis gengið gegn grundvallarsjónarmiðum vestrænna gilda þegar Geir er ákærður fyrir það að vera stjórnmálamaður heldur er haldið þannig á málinu frá fyrstu stundu að fólki ætti að ofbjóða. Nýjasta klúðrið í þeim efnum er að saksóknari ætlar sér að reka sína hlið málsins á netinu á kostnað skattborgaranna. Getur þú sett þig í þau spor að þurfa að þola svona málsmeðferð fyrir dómstólum?? Hvaða hugarfar þarf maður að hafa til að bera til þessa að fá svona hugmynd?

Ævarandi skömm þeirra einstaklinga sem splæstu atkvæðinu á þessa niðurstöðu er tryggð og öruggur sess í Íslandssögunni. Sumir hafa nefnt það í fullri alvöru að draga beri Steingrím og Jóhönnu fyrir samskonar skrípadómstól eins og Geir þarf að mæta.

Kannski væri einhverjum hugarró og huggun í slíku en því mun ég aldrei greiða mitt atkvæði. Við erum komin lengra en þetta og Guð forði okkur frá því að lögmenn dubbaðir upp í saksóknaragalla verði fengnir til þess í framtíðinni að ákveða hvað var góð pólitík og hver vond.

það er nákvæmlega það sem hér er að gerast og þeir sem eru því samþykkir ættu að sleppa því í framtíðinni að hneykslast á þeim þjóðum vanþróuðum sem slíkt stunda.

Á svona dögum þurfum við að hafa okkur upp úr gömlu hjólförunum þar sem við höldum með okkar liði og þolum ekki hitt því ekki mun líða á löngu áður en tækifæri geta komið til að draga fleiri fyrir dómstól af þessu tagi samþykkjum við þessa aðferð.

Þetta er ótrúlegt dæmi um fullkomið og hreinræktað dómgreindarleysi þingmanna sem skilja ekki grundvallaratriði lífsins og gátu ekki neitað sér um að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga í stundargleði sigursins.

Flóknari hugsun var nú ekki að baki þessum herfilega afleik því miður....

Röggi

miðvikudagur, 1. júní 2011

Blogg um forræðishyggju

Ég ætla að nýta mér rétt minn til að blogga um forræðishyggju ríkisstjórnarflokkanna. Þennan rétt hef ég sem betur fer óskertan ennþá en hver veit nema rétthendum mönnum á fimmtugsaldri sem halda með Val og dæma körfubolta og eiga lögheimili í Hafnarfirði verði fljótlega bannað að blogga um forræðishyggju með valdboði.

Hvar endar þessi endemis árátta vinstri manna? Reyndar kemur það ekki sérstaklega flatt upp á mig að VG vilji banna borgurunum allt nema nema það sem þeir sjálfir telja sig hafa umboð til að ákveða fyrir okkur.

Í þessum efnum rís vinstri stjórnin vissulega undir mínum "væntingum" því miður og gott betur. Það er bara pólitísk lífsskoðun vinstri manna að pólitíkusar og embættismenn séu best til þess fallnir að ákveða allt fyrir okkur.

Og eftir þeirri sannfæringu er unnið og stöðugt bætt í og ég hef lúmskt gaman að þeim sem aðhyllast stefnu þessara flokka en eru nú að bölsóttast út í þessar aðferðir. Frelsi er og verður alltaf skammaryrði í bókum VG og eldri kynslóðar Samfylkingarmanna. Þetta er prinsipp en ekki mannvonska.

Þegar heimurinn hrundi yfir okkur tókst þessu fólki að komast til valda og seldi mörgum það að frelsi, einka og hagnaðarvon væri vondir hlutir. Það er í því umboði sem verið er að svipta okkur sjálfsákvörðunarréttium.

Ný viðmið eru sett í forræðishyggju dag hvern og hugmyndaauðgi valdhafanna eru lítil takmörk sett þegar kemur að finna leiðir til að minnka kaupmátt okkar og takmarka rétt okkar til sjálfsákvörðunar um eigin mál í stóru sem smáu.

Af hverju eru sumir hissa á þessu?

Röggi