miðvikudagur, 16. apríl 2008

Körfubolti er fyrir alla.

Bara ef ské kynni að einhver væri að missa af því þá bendi ég áhugafólki um hámenningu og skemmtun að úrslitakeppnin í körfubolta er að ná hámarki. Þeir sem héldu að ekki yrði betur gert en í fyrra höfðu sem betur fer alrangt fyrir sér. Kofarnir stútfullir og stemningin ólýsanleg. Gæði leikjanna í raun ótrúleg. Frábær umgjörð bragðbætir svo.

Ef við Íslendingar erum eins og allur meginþorri Evrópubúa þá styttist í körfubolti verði langstærsta inniíþrótt okkar. Á meðan handboltinn þjáist blómstrar karfan sem aldrei fyrr. Ef ekki væri fyrir það að við eigum heimsklassalandslið í handbolta sem fær aðgang að öllum stórmótum á háls árs fresti eftir að hafa unnið Makedoniu í tveimur leikjum væri handboltinn hér í alvarlegri útrýmingarhættu.

Hef ekki áhyggjur af því enda mómentið algerlega með körfunni. Og skyldi engan undra. Forysta KKÍ hefur hugsað langt og hægt en ekki stutt og hratt eins og algengt er hérlendis. Markviss uppbygging til lengri tíma er það sem skiptir máli og traustar undirstöður.

Mörgum fannst ekki takast nógu vel til að vinna úr NBA sprengjunni sem hér varð um árið. Það er misskilningur því við erum að sjá langtímaáhrif þeirra sprengju þessi misserin.

Við höfum verið lánsöm með forystumenn fyrr og nú. Ævintýramennska í fjármálum óþekkt og stundum hafa menn þurft að taka sársaukafullar ákvarðanir til þess að halda sjó í þeim efnum. Aldrei hefur staðið til að gleypa heiminn í einum bita. Þeir sem nú stýra skútunni eru akkaúrat réttir menn og konur á réttum stað.

Fjölmiðlar sífellt að verða betur og betur með á nótunum og enginn kemst hjá því að hrífast með. Mæli eindregið með því allir sem vettlingi geta valdið drífi sig á leik því ódýrari skemmtun og hollari er ekki að fá.

Við erum rétt að byrja.

Röggi.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll Röggi

Ég er handboltastelpa sjálf og elska þá íþrótt en er mikil körfuboltaáhugamanneskja og hef örugglega horft á jafnmarga körfuboltaleikji í gegnum tíðina og handboltaleiki. Ég vil veg veg körfunar sem mestan og einning handboltans. Orræða körfuboltamanna (og reyndar sumra handboltamanna) hefur í gegnum tíðina farið ótrúlega í taugarnar á mér. Þeir vilja veg körfunar sem mestan er er slétt sama um handboltann og jafnvel ganga svo langt að vonast til þess að handboltinn hér heima verði í sem mestum vandræðum, að sem fæstir komast. Við sem íþróttaáhugamenn eigum að vonast til þess að íþróttahús séu full sem oftast í sem flestum greinum. ´
Ég sakna þess að þessi sambönd vinni ekki samman læri hvort að öðru í stað þess að vera í endalausri samkeppni.
Kannski gætum við byrjað... ég og þú og okkar fólk í Val. Deildinnar gætu t.d. reynt að hafa handboltaleik og körfuboltaleik á sama degi, hjálpast að með umgjörð og auglýsingu á leikjunum, fá þá sem mæta venjulega á handboltan að koma líka á körfuna og svo öfugt.

Röggi sagði...

Sæl.

Þú hefur auðvitað rétt fyrir þér. Besta dæmið um þetta er frábær stuðningur sem við í körfunni fengum í vor í baráttunni fyrir úrvalsdeildarsæti. Þar var allt félagið að verki svo eftir var tekið.

Rembingur okkar körfuboltamanna hefur að mínu viti ekki snúist beint um að tala handboltann niður. Miklu frekar höfum við viljað að karfan fengi réttmætan sess og umfjöllun og þá hefur viðmiðið verið umfjöllun um handbolta. Þar hefur okkur lengi þótt halla á okkur þó nú megi mjög vel sjá breytingar þar á.

Hugmyndir þínar um samvinnu deilda eru mér mjög að skapi en ég þekki það af persónulegri reynslu að mjög erfitt er að hrinda þeim í framkvæmd.

Haltu samt ótrauð áfram að berjast. Þannig byrja góðir hlutir.

Röggi.