mánudagur, 2. júní 2008

Fúll með mína menn.

Þá vitum við það. Sjálfstæðisflokkurinn í borginni er í ferlegum málum. Skoðanakannanir segja það. Gísli Marteinn telur að nú verði menn að bretta upp ermar og sýna kjósendum fram á að meirihlutinn vinni vel og að góðum málum. Minnti mig óneitanlega á málflutning framsóknarmanna. Þeir telja sig ekki heldur njóta sannmælis. það er einföldun.

Allavega í tilfelli sjálfstæðismanna í borginni. Þeir lögðu í það að ná stjórn borgarinnar aftur til baka. það gerðu þeir eins og alltaf er gert þegar einn meirihluti hættir og nýr tekur við. Tóku saman við einn óánægjugemling úr gamla meirihlutanum,

þetta gerist mánaðarlega um land allt en þótti stórmál í höfuðborginni. Boðaföllin gengu yfir flokkinn úr öllum áttum. Fjölmiðlar sem ekki höfðu séð neitt að því að Dagur tæki höndum saman við spilltasta stjórnmálamann sögunnar, svo notuð séu hans eigin orð um Björn Inga, tóku nú að hamast á sjálfstæðisflokknum fyrir nákvæmlega það sama. Það er önnur saga..

Við erum svo sem ekki óvanir því að standa í stafni með vindinn blýstífann í smettið. það fylgir því að vera í forsvari. Menn með djúpa sannfæringu og málstað ættu að fara langt með að standa élið af sér. En það eitt dugir ekki. Ekki ef forystumennirnir ráða ekki við sitt.

Kjósendur eru nefnilegu stundum furðu naskir og þefvísir á pólitískan rolugang. Forysta flokksins hefur verið helaum alveg, grútmáttlaus. Mér er til efs að sá góði maður Vilhjálmur gæti varið nokkurn málsstað sama hversu pottþéttur hann væri. Samt virðist augljós ákvörðunin um að skipta um andlit flokksins standa í forystunni.

Ég fullyrði að lúsaleit er að þeim manni sem veit ekki að Hanna Birna verður næsti borgarstjóri. Almenn sátt virðist ríkja um það utan borgarstjórnarflokksins sem er eins eins og stjórnlaust rekald að sjá. Af hveru Gísli Marteinn og hinir vonlausu vonbiðlarnir taka ekki af skarið og styðja hana opinberlega er furðulegt og skaðlegt fyrir flokkinn.

Og ekki veit ég hvað þarf til að vekja Geir og Þorgerði. Hvað þarf að ganga á til þess að þau bretti upp ermar og sýni í eitt skipti fyrir öll að þau séu með pólitískt bein í nefinu.

Hvað er það sem veldur því að ekki er hægt að lina þjáningar okkar sjálfstæðismanna og ákveða að nú verði ekki lengur unað við að stjórnmálamenn sem eru komnir yfir síðasta neysludag fari fyrir?

Það er bara ekki öllum gefið að leiða og hafa forystu, jafnvel þó um öndvegis fólk sé að ræða eins og hér er tvímælalaust. Frá mínum bæjardyrum séð er þar enginn undanskilinn.....

Röggi.

2 ummæli:

Ágúst Borgþór sagði...

Mikið er ég sammála þér. Núna þarf ég ekki að skrifa færsluna sem ég ætlaði að skrifa um þetta. Það stendur allt hér.

Nafnlaus sagði...

Það var nú Sigurður Kári sem sagði að það væri "leitun að spilltari stjórnmálamanni" en Binga, ekki Dagur. Meirihlutaskiptin í Bolungarvík og á Akranesi olli talsverðu fjaðrafoki og var mikið fjallað um það í fjölmiðlum, en þú hlýtur að geta fallist á að meirihlutaskipti í höfuðborginni eru meira fréttamál en í litlum sveitarfélögum.