Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra ætlar að myndast við að tryggja þeim sem komu upp um svik og pretti í fjármálageiranum vernd. Afslátt af hugsanlegri eigin sök eða hreinlega sakaruppgjöf. Þessu fagna ég.
Árum saman hefur dómskerfið hér sent kolröng skilaboð frá sér í þessum efnum. Þeir sem hafa talað hafa fengið sömu refsingu og þeir sem þegja. Hver man ekki eftir líkfundamálinu kostulega. Höfuðpaurinn í málinu spann mögnuðustu lygaþvælu mannskynssögunnar og fékk að launum sömu refsingu og félagi hans fékk fyrir að upplýsa málið.
Frægasta dæmið hlýtur þó að vera þegar Jón Gerald reyndi af öllum mætti að segja bæði þjóð og dómstólum frá fáránlegum viðskiptum Baugsfeðga. Það gerði hann af mikilli þekkingu enda innsti koppur í búri í svindlinu.
Hvernig fokdýrum lögfræðingum tókst síðan að fá glæpamennina sýknaða er eitthvað sem sagnfræðingar framtíðarinnar verða að kryfja en að dómsvaldið skyldi svo láta hafa sig í að ákæra uppljóstrarann er og var alger skandall.
Þess vegna fagna ég því nú að loks skuli menn sjá að mjög mikilvægt er að vernda þá sem vilja hjálpa til við að koma upp um glæpi jafnvel þó viðkomandi hafi verið þátttakandi að einhverjum hluta.
Röggi.
þriðjudagur, 3. mars 2009
Verndun uppljóstrara.
ritaði Röggi kl 13:00
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli