föstudagur, 22. janúar 2010

Handbolti

Handbolti er stórmál fyrir þessa þjóð hvort sem mér líkar það betur eða verr og ég fylgist með og hef gaman að. Núna er EM í gangi og væntingar stórar sem eðlilegt er. Við erum með fantagott lið sem hefur sýnt og sannað getu sína.

Liðið okkar hefur nú í tvígang misst niður sigur á lokamínutum gegn mótherjum sem við "eigum" að vinna á eðlilegum degi. Þar kemur að mínu viti margt til.

Við höfum að vissu leyti horft framhjá eða yfir bæði Serba og Austurríkismenn. Menn hafa talað um Dani og hversu mörg stig við tækjum með okkur í milliriðil. Þannig tal getur verið hættulegt.

Guðmundur þjálfari er auðvitað frábær fagmaður en hann er ekki gallalaus og mér finnst gallar hans skipta máli hér. Í dag virðist hann hreinlega vera farinn á taugum og gamall draugur endurvakinn. Hann hreyfir liðið ekki neitt....

Guðmundur skiptir of lítið inn á. Hann velur Loga Geirsson í liðið þó öllum virðist ljóst að hann getur ekki kastað handbolta enda ekki gert það mánuðum saman. Ásgeir Hallgrímsson spilar ekkert jafnvel þó Ólafur Stefánsson líti út fyrir að þurfa hvíld á báðum endum vallarins. Aron Pálmarsson er til skrauts að ég tali nú ekki um nýliðann frábæra Ólaf sem getur ekki undir neinum kringumstæðum gert sér vonir um að fá að klæða sig þó Logi geti ekki spilað. Get haldið áfram....

Guðmundur þarf að sína meiri kjark og áræði enda eru þeir leikmenn sem í liðinu eru engir aukvisar sem eyðileggja neitt þó þeir fái að leysa burðarása af hvort sem þeir eru þreyttir eða með allt niður um sig. Þrautreyndir menn og góðir eru ekki undanskildir þegar kemur að þreytu eða álagi.

Við getum reynt að finna skýringar í lélegum dómurum eða bara einhverju öðru en staðreyndin er sú að sökin liggur hjá okkur einum. Nú má ekki leggjast í væl og ódýrar skýringar. það er besta leiðin til að gera endanlega í buxurnar.

Ég hef fulla trú á mínum mönnum og að við getum snúið blaðinu við. En þá þurfa menn að lyfta hökunni og Guðmundur að safna kjarki til að stjórna liðinu eins og hann gerði með góðum árangri í Peking.

Röggi

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Loksins talar þú um eitthvað sem þú hefur vit á. Nefnileg íþróttir. Orðinn svo þreyttur á pistlana þína um stjórnmál vegna þess að þeir eru líkt og Fox stöðin í Bandaríkjunum. Nema að þú heldur svo mikið með sjálfstæðisflokknum að hann gerir ekkert vitlaust.

Þetta er vandamálið hjá Guðmundi að hann notar sömu leikmenn of mikið og skiptir lítið inn á.

Nafnlaus sagði...

Sérstakt komment hjá "nafnlausum". En ég er um margt sammála þér. Ég velti líka fyrir mér í gær hvort það væri ekki rétt hjá Guðmundi að senda Óla Guðmunds heim og hóa í Heiðmar. Þar er reyndur leikmaður, hörkuvarnarmaður og góð örvhent skytta. Mér sýnist á öllu að það veiti ekki af að manna hægri vænginn betur.
Freyr