þriðjudagur, 31. ágúst 2010

Baugsfjölskyldan og bankarnir

Auðvitað er geggjað að þurfa að borga Jóhannesi Jónssyni til að "gefa" bónuskeðjuna eftir. Hann og hans fólk hefur "gefið" okkur öllum meira af skuldum en nokkurt annað fólk sögunnar.

Jóhannes og sonur hans hafa klifað á blankheitum sínum eftir að "þeir" þ.e. þjóðin tók þá niður svo vitnað sé í soninn. Samt hefur fjölskyldan nurlað saman ófáum þúsundum milljóna til að kaupa sér fjölmiðla, skútur, flugvélar, milljarða íbúðir og eitt og annað smálegt sem þau hefur langað í.

Og nú dúkkar pabbinn upp með vel á annað þúsund milljónir og handvelur sér fyrirtæki í góðu samstarfi við Arion banka og lofar að reyna að kaupa allt dótið aftur við fyrsta hentugleika, væntanlega staðgreitt. Þetta er gullfallegt ævintýri fyrir alla nema okkur hin sem borgum afskriftir og niðurfellingar fyrir þetta fólk.

Samt verð ég að segja að þessar litlu 90 millur sem Arion banki ákveður að millifæra á gamla manninn er vel varið, þannig séð. En hugmyndafræðin á bak við þetta allt er í raun brandari fyrir okkur almúgan sem sitjum eftir og skiljum hvorki upp né niður í því hvernig skuldugasta fólk sögunnar valsar út og inn í bönkunum og ákveður að því er virðist sjálft hvaða skuldir það borgar og hverjar ekki.

Og velur sér svo einn og einn mola úr safninu...staðgreitt.

Við erum höfð að fíflum...

Röggi

Engin ummæli: