mánudagur, 27. júní 2011

Guðjón, rasismi og KSÍ

Sumt breytist seint og enn einu sinni virðist Guðjón þórðarson ekki geta unnið undir neikvæðri pressu. Af einhverjum ástæðum er hann nú þjálfari í næst efstu deild á Íslandi og gustar um kallinn sem hefur afrekað það á stuttum tíma sínum fyrir vestan að henda mönnum á dyr og nú síðast ýjar hann að rasisma hjá dómurum.

Guðjón er einn þeirra sem gleðst mjög á góðum degi og á þá ekkert nema vini en er þegar á móti blæs umkringdur vondu fólki. Ég veit ekki hvað þarf til þess að þjálfarar í Íslensku deildinni gangi fram af framkvæmdastjóra KSÍ en fyrir mig er svona tal allt að því óþolandi. Það er almennt viðurkennt meðal siðaðra manna í íþróttum að kynþáttafordómar eru síðasta sort. Og að saka menn um slíkt því grafalvarlegt mál jafnvel þó það komi frá Guðjóni Þórðarsyni.

Það er eitt að hafa þá skoðun að dómari sé slakur, hafi átt afleitan dag og þess háttar. Þjálfarar hafa að sjálfsögðu allan rétt á slíku mati. Framsetning þeirra á þessu faglega mati sínu skiptir þó alltaf máli. Það er ekkert faglegt við þessi ummæli Guðjóns og í alvöru deildum yrðu þessi ummæli Guðjóns litin alvarlegum augum og honum refsað í samræmi við það.

EF KSÍ gerir ekkert í þessu máli er varla hægt annað en að draga þá ályktun að þeir séu hreinlega sammála þessu mati þjálfarans. Knattspyrna er stór business og æskulýðsstarf og KSÍ þarf ekki á svona skemmdarstarfsemi á vörumerkinu að halda.

Ég sé að fyrstu viðbrögð KSÍ eru það að dómarastjóri segir viðkomandi dómara dreng góðan og þetta geti því ekki komið til. Einnig telur þessi maður að ummælin dæmi sig sjálf. Þessi viðbrögð KSÍ hljóta að vera þeirra framlag til áramótaskaupsins 2011......

Röggi

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guðjón Þórðarson missti allan trúverðugleika þegar ÍA skoraði markið umdeilda gegn Keflavík 2007, og í ljós kom að þessi háttsemi, að þrykkja svona boltanum að markinu eins og Bjarni gerði (hér, http://www.youtube.com/watch?v=LBAHyS8dMME, á mín 1:45), væri að undirlagi Guðjóns því þetta hefði gerst áður í liði sem hann hefði stýrt, KR, sem skoraði svona mark gegn Fram. Þetta var engin tilviljun!
Hann er heilum horfinn, Guðjón Þórðarson, og maður treystir engu sem hann segir eða gerir.

Nafnlaus sagði...

Er nú ekki rétt að þú rökstyðjir mál þitt aðeins, áður en þú kemur fram með slíka sleggjudóma um einn sigursælasta þjálfara Íslandssögunnar.

Nafnlaus sagði...

Guðjón er að ná árangri með BÍ.
Karlalandsliðið okkar hefur hins vegar ekki riðið feitum hesti frá sínum leikjum. Væri ekki nær að KSÍ bæði Guðjón um að taka við karlalansliðinu í stað þess að áminna hann fyrir að vera sár yfir því að missa mann í leikbann.

Röggi sagði...

Punkturinn í greininni eru ummæli Guðjóns og dylgjur um mögulegan rasisma dómara.

Slíkt tal er fyrir neðan allar hellur og gildir einu hvort þjálfarinn sem viðhefur þau er sigursæll eður ei.

Röggi

Halldór Halldórsson sagði...

Sífellt lélegri frammistaða íslenskra dómara er ástæða þess að ég hef ekki farið á völlinn í ein fommtán ár. Og allan þann tíma hefur ekki örlað á vilja til að bæta úr því, nema að KSÍ haldi að það sé til bóta að "lemja niður" hvern þann þjálfara sem talar illa um "hina hátignu"?

Röggi sagði...

Sæll Halldór,

Það er alþekkt í stórum deildum hvort heldur sem er í fótbolta eða körfu að reynt er að halda uppi lágmarks siðferði í opinberri umræðu um dómgæslu. það er ekki tilraun til þöggunar.

Framsetning gagnrýninnar skiptir máli enda eru dómarar starfstétt sem ekki getur svarað fyrir sig.

Nú veit ég ekkert hvernig KSÍ tekur á því þegar félög hafa gagnrýni fram að færa varðandi dómgæslu en auðvitað er fráleitt að hundsa málefnalega gagnrýni félaganna.

Finnst þér það tilraun til að "lemja niður" þjálfara að gera athugasemd við tal hans um rasisma heillar stéttar?

Ég fullyrði hér að hvergi myndu slík ummæli verða látin óátalin.....

Kristinn sagði...

Sæll Rögnvaldur.

Nú er það þannig allstaðar í hinum vestræna heimi að mönnum er mismunað eftir litarhafti. Blökkumenn eru líklegri til að vera stoppaðir á flugvelli eða í umferð og teknir í reglubundið tékk. Blökkumenn fá enn fremur hærri refsingar og eru líklegri til að vera dæmdir fyrir brot sín. Þetta eru blákaldar staðreyndir. Þessir kynþáttafordómar eru mestmegnis ómeðvitaðir. Eins og sakir standa er ekkert sem bendir til að íslenskir knattspyrnudómarar séu einu handhafar valdbeitinga á vesturlöndum sem séu yfir þessa ómeðvituðu fordóma hafnir. Ber því að taka athugasemdir Guðjóns alvarlega.

Nafnlaus sagði...

Knattspyrnudómarar verða að þola gagnrýni. Þeir sem fylgjast með knattspyrnu vita að dómarar hafa tilhneigingu til að dæma "með" ríkara liðinu og liðinu sem er ofar í töflunni, þetta hefur verið sannað með tölfræði.
Ég man eftir leik sem Ísland spilaði við Noreg fyrir nokkrum árum. Í norska liðinu var einn hörundsdökkur leikmaður. Dómarinn dæmdi öll vafaatriði Norðmönnum í vil nema þegar dökki maðurinn átti í hlut þá var dæmt á Noreg.