föstudagur, 9. desember 2011

Sóley og pólitíkin í Orkuveitunni

Mjög margir hafa misst trú á stjórnmálamönnum. Mælingar sýna að virðing fyrir alþingi er sorglega lítil. Venjulegt fólk talar um að sami rassinn sé undir þessi liði öllu og best sé að skipta öllum út og fá nýtt fólk. Veit reyndar ekkert hvaða fólk er nýtt fólk en það er önnur saga....

Samt er það þó þannig að enn er til fólk sem vill afhenda þessum sömu stjórnmálamönnum enn frekari völd. Þetta fólk talar líka gjarnan þannig að ef bara væru til betra fólk til að sinna stjórnmálum þá gætu þeir hinir sömu bjargað öllu. Svo er því bætt við að best sé að lækka launin hjá þessari mikilvægu starfstétt.

Sóley Tómasdóttir trúir því að stjórnmálamenn séu til allra hluta bestir. Hún vill hafa þá út um allt. Sóley telur að sagan segi okkur að afskipti stjórnmálamanna af Orkuveitunni réttlæti enn frekari afskipti þeirra af því fyrirtæki.

Orkuveita Reykjavíkur hefur að mínu viti ekki grætt á setu kjörinna fulltrúa í stjórn fyrirtækissins nema síður sé. Orkuveitan er komin á heljarþröm og þar getur enginn flokkur fríað sig ábyrgð þó þeir geri það nú samt og komist upp með það meira og minna.

Ég tek ofan fyrir Besta flokknum að hafa reynt að taka þar til og fagna því ef afskipti kjörinna fúlltrúa af fyrirtækjarekstri borgarinnar eru á undanhaldi.

Þarna verðum við Sóley aldrei sammála. Ég velti því fyrir mér hvað Sóley telur að þeir sem sitja í borgarstjórn hafa fram af færa umfram fagmenn sem ekki eru nestaðir allskonar pólitískum hagsmunum. Fagmenn sem standa og falla með árangri í starfi og axla ábyrgð gagnvart eigendum.

Stjórnmálamenn standa nefnilega bara en falla ekki alveg óháð því hvernig þeir standa sig. Það segir sagan af Orkuveitunni okkur. Og reyndar svo miklu miklu fleiri sögur.

Samt vilja margir afhenda stjórnmálamönnum meiri völd......

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

OR er dæmi um spillingu sem R listinn skyldi eftir sig.