föstudagur, 30. desember 2011

Ríkisstjórnarfarsinn

Hugtakið stjórnarkreppa fær nýja og allt að því óraunverulega merkingu þegar við fylgjumst með ráðþrota leiðtogum ríkisstjórnarinnar reyna eftir fremsta megni að halda lífi í ríkisstjórn sem enginn vill.

Stundum er sagt að styrkur manna felist í því að geta viðurkennt ósigur eða þekkt vitjunartímann. Vel getur verið að takist að splæsa saman nýrri ríkisstjórn á næstu klukkutímum en ég sé ekki betur en að Steingrími og Jóhönnu sé í raun alveg sama hvað það kostar.

Bakland beggja flokka skíðlogar og þeir logar eiga eingöngu eftir að magnast. Steingrímur hefur brennt síðustu brúna innan VG þegar hann fórnar Jóni Bjarnasyni á altari eigin framagirni. Ætli hann sér áframhaldandi formennsku eftir þetta verður hann að sætta sig við mikið mannfall. Seinni klofningur flokksins er nú með öllu óumflýjanlegur.

Gömlu kempurnar Össur og Jóhanna sem allir eru búnir að gleyma að sátu í síðustu ríkisstjórn neita að sleppa hendinni af flokknum. Frekar en að hleypa öðrum að skal ríghaldið og öllu til fórnað að halda í völdin bæði innanflokks og utan.

Ég heyrði fréttaman reyna að lesa í stöðuna í útvarpi áðan og kalt vatn rann milli skins og hörunds. Nú er með allskonar brellum reynt að sannfæra klíkur og gengi um að sniðugt sé að hinn og þessi fái hitt og þetta. Verkefni verði færð út og suður eftir smekk hvers og eins til að reyna að hafa alla góða.

Ekkert er verið að ræða um hugmyndafræði heldur eingöngu bitlinga og ráðherrabílstjóra. Reyndar minntist fréttamaðurinn á að einhver ráðherra VG fengi "úthlutun kvóta"á sitt borð. Mikið verður nú Ísland gott land þegar ráðherrar verða farnir að úthluta vinnu og verkefnum eftir smekk.

Ef að líkum lætur munu Steingrímur og Jóhanna birtast vígreif og bjartsýn eftir þennan farsa og reyna að telja þjóð sinni trú um að allt sé með felldu. Ég er reyndar hrifinn af því þegar menn festast ekki í ráðherrastólum sama hvað gengur á en hér sjá þeir sem vilja að hreyfingarnar núna eru eingöngu til þess að reyna að bjarga deginum en ekki styrkja innviði

Og langtíma tilkostnaður er látinn liggja á milli hluta hvort heldur átt er við þjóðina í heild eða flokkana sjálfa. Steingrímur hefur komið sér upp vonlausri stöðu innanflokks og hlýtur að vera búinn að afskrifa frekari þátttöku í stjórnmálum eftir kosningar.

Og Samfylkingin á eftir allt þetta eftir að fara í gegnum alblóðugu forystukreppu. Dettur einhverjum í hug að Árni Páll leggi niður skottið núna? Össur hefur opnað fyrir átök innan flokks þar sem gamla klíkan ætlar sér að ráða hvað sem hver segir.

Þeir tveir flokkar sem skipa ríkisstjórnina hafa í raun yfirgefið öll prinsipp sem lagt var upp með önnur en að vera ríkisstjórnarflokkar. Hreyfingin stóðst prófið þegar Saari sagði nei. Þar fengu þau sallafínt heilbrigðisvottorð og geta enn haldið því fram að þau hafi töfralausnina sem þau hafa þó alls ekki.

Allt er þetta í boði þeirra sem kusu yfir sig fyrstu og vonandi síðustu vinstri stjórn sögunnar. Þeir sem kjósa þannig aftur þurfa að koma sér upp afkastamikilli gleymsku og afneitun. Ekki einu sinni tal um vondar fyrri ríkisstjórnir dugar í þeim efnum.

Vegna þess að ekki er eingönu um að ræða persónuleg átök um stóla að þessu sinni. Hugmyndafræðin er ekki heldur að ganga upp hvorki á milli flokkanna né gagnvart þjóðinni.

Slíkir smámunir stöðva þó ekki Steingrím og Jóhönnu....

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Besta og versta ráðherranum hent út. Ætli það megi ekki kallast einhvers konar jafnaðarmennska, a.m.k. eins og hún er iðkuð hér á landi? Lengi getur vont versnað.

Eyjólfur