mánudagur, 6. október 2008

Arfleifð götustrákanna.

Þá er það skollið á óveðrið. Af fullum þunga og við finnum öll fyrir þunganum þó hann sé kannski ekki farinn að snerta okkur beint, ennþá. Nú er allt bara stopp. Tíminn hreyfist ekki og mig langar eiginlega ekkert í sundlaugina sem ég heimsæki á eftir. Fer samt...

Enda heldur lífið áfram. Glamúr og glæsilífið hjá Jóni Ásgeir og félögum sem hafa tekið þúsundir milljóna bæði úr bönkum og öðrum fyrirtækjum sem þeir hafa keypt og vélað með árum saman heldur væntanlega áfram líka eins og ekkert hafi í skorist.

Vonandi eru æ fleiri að kveikja á perunni. það að gagnrýna að þessir menn hafa farið eins og stormsveipur um allt þjóðfélagið og skuldsett okkur og bankana eins og þeir gerðu snérist aldrei um pólitík. Kannski kemur að því Jónína Ben fái uppreisn æru. Vonandi eru véfréttir um sjóði Glitnis alrangar þó ég bindi engar vonir við það.

Hrun Glitnis setti allt á annan endann endanlega. Hvenær kemur að því að menn hætta að hampa þessu liði og kenna Davíð um allt sem þessir aðilar hafa gert miður fallegt í sínum viðskiptum? Var ekki of miklu til fórnað?

Ef að líkum lætur mun fréttastofa stöðvar 2 tala um fleiri bankarán og þjóðin dansar bara með eins og undanfarin ár. Ruddaskapur stærsta eigandans í því máli verður aldrei toppuð. Ekki dettur mér í hug að eigendur Landsbankans munu haga sér þannig gangvart hluthöfum síns banka ef jafn illa fer fyrir þeim.

Hvar er nú fólkið sem vildi bara lána 48 000 milljónir til Glitnis með veðum í bílalánum? Hættum að hengja bakara fyrir smið og opnum augun. Þegar það tekst munu menn ekki sjá geðveikan seðlabankastjóra og spillta stjórnmálamenn.

Þá munu menn sjá hóp af mönnum sem gömbluðu með okkur öll. Sópuðu til sín peningum sem við þurfum síðan að borga fyrir þá. Þó er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af þeirra velferð. Þær þúsundir milljóna sem höfðust upp úr krafsinu duga til að setja dropa á þotuna og fljúga á burt. Við hin sitjum eftir í skuldasúpunni og reynum að moka flórinn.

Röggi.

Líkræða?

Ég vill hvorki né get dregið úr alvarleika þeirrar stöðu sem upp kom í dag og leiddi til þess að ríkisstjórnin þarf að taka bankana til sín meira og minna.

En mér fannst ræða Geirs áðan full dramatísk. Mér leið eins og um líkræðu væri að ræða. Fátt gefið upp og depurðin yfirgengileg. Núna þurfum við hreinskilni umfram allt og smá kraft.

Að okkur sé blásið í brjóst. Himnarnir eru ekki að hrynja yfir okkur. Geir átti að segja okkur að nú yrði tekið á málum af festu og öllu væri óhætt.

það gerði hann að nokkru leyti en fór svo að tala um að við ættum öll að halda utan um hvort annað og passa börnin okkar. Það var niðurdrepandi og erfitt að hlusta á Geir áðan en gat að vísu aldrei orðið skemmtiefni.

En það vantaði alla ástríðu og baráttu í kallinn. Það kemur dagur eftir þennan og nú er að bretta upp ermar. Veiða fisk og kannski virkja og byggja álver svo við getum haldið áfram að lesa bækur þegar betur árar.

Hann verður svo holur tónninn um að allt verði í lagi þegar boðskapurinn er fluttur eins og Geir flutti hann áðan.

Röggi.

fimmtudagur, 2. október 2008

Í fréttum er þetta helst.

Ég hef oft bölvað því að ekki eru til reglur hér um eignarhald á fjölmiðlum. Ítalir hafa ekki heldur slíka löggjöf enda sjá allir hvurslags afleiðingar það hefur. Maðurinn með aurana ræður algerlega hvað er til umræðu. það gæti hugsanlega sloppið ef viðkomandi eru sæmilega siðferðilega innréttaðir. Í hvorugu landinu er um slíka heppni að ræða.

Fréttastofa stöðvar 2 heldur áfram að boða fagnaðarerindi eiganda síns kvöld eftir kvöld. Sigurður G. fær það pláss sem hann telur sig þurfa til að segja okkur að það sé seðlabankanum að kenna að bankinn hefði farið til fjandans 15. október vegna auraleysis. Mér vitanlega hefur enginn starfsmanna eiganda Glitnis gert minnstu tilraun til að reyna að sjá hina hlið málsins. Veit fréttastjórinn kannski ekki að það eru til fleiri hliðar á þessu máli en hlið hluthafa í Glitni?

Dettur engum á fréttastofunni í hug að efast? Er það óttinn við að missa vinnuna þegar spilaborg eigandans hrynur sem rekur fólk áfram? Er öllum sem þarna starfa fyrirmunað að sýna snefil af fagmennsku? Ég efast stórlega um að gömlu flokksblöðin sem voru þó klárlega ekki í felubúningi hefðu getað verið jafn einhliða í fréttaflutningi og stöð 2 er í dag.

Mér virðist sem fréttastjórinn hafi bara hætt að reyna að vera fagmaður. Hann flytur ekki fréttir. Fólk sem hefur gríðarlegra persónulegra hagsmuna að gæta birtist nú dag eftir dag með samsæriskenningar órökstuddar og þetta er flutt gagnrýnislaust eins og um hlutlausa sérfæðinga sé að ræða.

Hvenær ætlar einhver þarna að þora að spyrja skussana sem klúðruðu hlutafé þeirra sem eiga bankann eðlilegra spurninga? Af hverju var bankinn í þessari stöðu? Af hverju fór bankastjóri Glitnis til Seðlabankans til að biðja okkur skattgreiðendur um fleiri þúsund milljónir án þess að hafa fullnægjandi tryggingar ef þær reynast svo vera fyrir hendi? Voru innlánssjóðir Glitnis að fjárfesta stórlega í fyrirtækjum sem tilheyra stærsta hluthafa bankans? Og ef svo er, er víst að það þjóni hagsmunum hinna hluthafanna? Hvernig stendur á því að reiðin beinist að þeim sem tóku á móti Glitni gjaldþrota og leystu eigendurna undan þeirri skömm að þurfa að loka bankanum með miklu verri afleiðingum en við horfum á núna?

Af hverju er málflutningur þess sem keyrði fyrirtækið í gjaldþrot og leitaði til seðlabankans trúverðugri en þeirra sem stýra seðlabankanum og hafa alls engra hagsmuna að gæta? Ekki hagnast bankastjórar seðlabankans persónulega og engu hafa þeir að tapa öfugt við suma.

Fullkomlega er rökrétt að spyrja þessa menn að því hvernig þeim tókst að koma því þannig fyrir að banki sem þeir segja alveg skotheldan að öllu leyti komst í þá stöðu að vera auralaus með stóran gjalddaga eftir hálfan mánuð. Enginn bað þá um að fara á hausinn. Enginn bað þá um að fara til seðlabankans.

Svörin við þessum spurningum eru reyndar öllum kunn. Davíð Oddsson er glæpamaður! það er bara þannig jafnvel þó alls ekki hafi verið sýnt fram á hver glæpurinn er annar en að tryggja að þeir sem áttu bankann taka þátt í tapinu frekar en þeir sem áttu inni hjá bankanum.

Fréttastofa Jóns Ásgeirs mun aldrei spyrja þessara spurninga. Kannski breytist þetta allt saman þegar nýjir eigendur koma að rekstrinum. Það gæti orðið fyrr en seinna og vonandi ekki þannig um samþjöppun verði að ræða.

Svo þurfum við að koma okkur saman um að setja okkur reglur um eignarhald á fjölmiðlum svo við þurfum ekki að horfa upp á jafnvel fínasta fagfólk taka jafn herfilega niður um sig faglega eins og blasir við daglega á stöð 2.

Röggi.

Rausið í Davíð.

Fréttablaðið fullyrðir að Davíð Oddsson vilji þjóðstjórn hér. Ef rétt er þá ætla ég að láta það fara í taugarnar á mér. Fyrir mér er Davíð seðlabankastjóri en ekki stjórnmálamaður.

Hann hefur að vísu alltaf haft horn í síðu þessarar ríkisstjórnar og þetta því kannski kjörið tækifæri til að leggja þetta til. Er ekki í aðstöðu til að leggja mat á það hvort hugmyndir er góðra gjalda verð sem slík en finnst hreint ekki eðlilegt að Davíð sé að tjá sig um þetta.

Akkúrat núna þurfum við sterka og samheldna ríkisstjórn sem nýtur trausts. Að rjúka núna til og strá efasemdum með þessum hætti finnst mér afleitt og vanhugsað. Enda vandséð hvað þeir flokkar sem utan ríkisstjórnar standa hefðu til málanna að leggja. Hagsmunasamtök á vinnumarkaði gætu aftur á móti komið að með gagnlegum hætti en það efast ég ekki um muni gerast við núverandi skipan ef Guðmundur Gunnarsson fær ekki að ráða.

Hitt er svo annað að hugsanlega væri fínt að fá einhvern með Sjálfstæðisflokknum í baráttuna við efnahagsmálin því Samfylkingin er stikkfrí þar. Ekki mér að kenna er sagt. Ef ég réði værum við í Evrópusambandinu og allt í gúddí.. Og málið útrætt og Samfylkingin með fjarvistarsönnun.

Kannski veitir bara ekkert af utanðkomandi aðstoð. En Davíð á ekkert að skipta sér af því.

Röggi.

miðvikudagur, 1. október 2008

"Fólkið á fréttastofunni"

Alveg magnað - akkúrat þegar ég hélt að botninum væri náð hjá fréttastofu stöðvar 2 með viðtali Sindra aðstoðarmanns við Jón Ásgeir þá datt ég inn í umræður í Íslandi í dag.

þar voru Agnes Bragadóttir og Sigurður G. Guðjónsson. Og svo drengur sem heitir Sölvi en hann er líklega titlaður stjórnandi þegar hér er komið. Eins og nærri má geta snérist allt um bankatburðina. Hvað annað, Agnes og Sigurður skelegg og kjaftfor eins og venjulega og skoðanasterk.

Þróunin á þessum þætti er enn eitt kennsluefnið í því hvernig hlutleysi og fagmennska er gersamlega svívirt. Blessaður fréttadrengurinn missti sig svo gersamlega í því að reyna að koma höggi á Agnesi að Sigurður þurfti um tíma að hafa talsvert fyrir því að komast að! Hann var með hlutina á hreinu, talaði um hvað "fólkið á götunni" væri að tala um og hugsa. Hann er væntanlega fulltrúi þess fólks. Ó ekki. Hann var þarna baráttuglaður fulltrúi þess manns sem borgar honum launin. Sýnist hann ruglast all hastarlega á því sem mætti kalla "fólkið á fréttastofunni" og hinu fólkinu í landinu. Ömurleg frammistaða sem ég held bara að erfitt verði að toppa, og þó...

Sigurður G er skemmtilegur tappi. Kallaði Agnesi málpípu Davíðs og gerði það að öllum líkindum til að gera málflutning hennar léttvægari frekar en af óunnum dónaskap. Gleymdi því þá alveg að hann er líklega bæði hægri og vinstri hönd Jóns Ásgeirs og gott ef ekki tengdur Glitni líka. Ekki að spyrja að því að hæstaréttarlögmaðurinn er málefnalegur. Og hlutleysi hans hafið yfir allan vafa...

Það kemur mér ekki á óvart að fréttastofa Óskars Hrafns skuli á svo undaraskömmum tíma ná botninum. Misheppnað myndmál um Davíð Oddsson í fréttatímanum hefði líklega varla þótt nógu fyndið og ósmekklegt að rata á síður DV en þarna læddist það inn.

Nei, fyrir fólkið á fréttastofunni skiptir engu máli hver borgar því laun. Skorturinn á fagmennskunni er þá einhverju öðru um að kenna...

Röggi.

Fjölmiðlafár

það er ekki nýtt að ég standi gapandi yfir fjölmiðlum. Kannski fatta ég ekki hvert hlutverkið er. Hef samt skoðun eins og fyrri daginn...

Almenna reglan virðist vera sú að þeir sem eru bornir sökum verði af öllum mætti að bera af sér sakargiftir. Öfug sönnunarbyrði í stíl við Mc Carty forðum. Látum þá neita því. Miklu minna lagt upp úr því að fá þá sem fara fram með ásakanir til að færa rök fyrir sínu. Þetta fullyrði ég að er nánast plagsiður hér.

Við horfum upp á klassík í þessu efni núna. Hluthafar Glitnis og í sumum tilfellum menn sem tóku þátt í því að reka bankann í þrot birtast ítrekað í viðtölum þar sem þeir fullyrða eitt og annað og bera alls konar ætlanir og hluti á fjarstadda menn og komast bara upp með það. Í gær var stjórnarformaður bankans í viðtali í kastljósi og ég gat ekki betur séð en að spyrjandinn í málinu kæmi fram við hann eins og algerlega hlutlausan mann en ekki fullkomlega vanhæfan eins og ég tel hann vera.

Þarna sat hann og fjallaði um eigin verk eins og sérfóður maður fenginn utan frá til að meta atburði. Fabúleraði út í eitt og virtist vera að mestu óáreittur. Hvers vegna ekki var þjarmað að honum eins og forsætisráðherra um daginn er mér hulin ráðgáta. Ég efast lítið um það að ef seðlabankastjóri kæmi og reyndi að svara fyrir sig yrði saumað að honum.

Kannski er meiri safi í þvi, ég bara veit það ekki. Fyrir mér eru þessi menn teknir algerum silkihönskum. Skýrasta dæmið og að mínu viti dæmi sem hlýtur hreinlega að verða kennsluefni í fjölmiðlafræði framtíðarinnar var á stöð 2 í gærkvöldi.

Þar sat fyrrum aðstoðarmaður Jóns Ásgeirs, Sindri Sindrason, og núverandi launamaður á sjónvarpsstöð sem áðurnefndur Jón á og las upp spurningar af blaði. Þátturinn var að sjálfsögðu ekki í beinni og hafði verið klipptur til eftir kúnstarinnar reglum. Þar kom enn einu sinni í ljós að alls engu máli skiptir hver á fjölmiðil. Visir.is í dag er einnig undirlagður enda nýji fréttastjórinn hlýðinn með afbrigðum. Drottningarviðtal allra drottningarviðtala. Veit ekki hver glæpur Sindra var en refsingin var grimmileg enda verður hans ætíð minnst fyrir þessi tilþrif.

Núna þegar við þurfum sérstaklega á vönduðum fréttaflutningi og umfjöllun að halda þá finnst mér vanta verulega upp á. Æsifréttir í öndvegi í staðinn fyrir yfirvegun og fagmennsku.

p.s. Af augljósum ástæðum er hér ekki minnst orði á DV....

Röggi.

Meira um bankablúsinn...

Alveg er kyngimagnað að fylgjast með eigendum Glitnis fara hamförum í fjölmiðlum. Nenni varla að eyða orðum í Jón Ásgeir en stenst ekki freistinguna. Þeir sem ekki sjá í gengum ruglið í honum núna er gersamlega blindir. Þessi maður er búinn að blóðmjólka hvert fyrirtækið á fætur öðru. Icelandair hreinlega í tætlum og nú keyrir hann bankann sinn í þrot. Hver man eftir FL group? Heimtar hámarksávöxtun á fé sitt og tekur til sín þegar vel gengur. Brjálast svo þegar á móti blæs og hann getur ekki fengið meira fé til að leika sér með.

Þeir sem efast um að önnur leið hafi verið fær en að tala við seðlabankann þrátt fyrir aðvaranir Jóns! eru á rangri leið. Hef ekki hitt einn einasta mann sem vildi lána þessum köppum 84 þúsund milljónir af peningum okkar skattgreiðenda. Stjórnmálaskoðanir skipta engu, loksins. Kannski er runninn upp sá tími að þjóðin fer að sjá i gegnum þessa menn. Ekkert hefur vantað upp á þeir hafi fengið sitt í gengdarlausu góðærinu. Nú gerum við kröfu um Jón Ásgeir haldi einhverri reisn og standi í lappirnar.

Ef banikinn er svona gríðarverðmætur af hverju var hann þá að niðurlotum kominn? Stjórnarformaðurinn var í kastljósi í gær og talaði um hagnað ríkisins af kaupunum. Gengið rauk upp! það eru góðar fréttir segi ég. Hann kannski trúir þvi blessaður að gengið hefði rokið upp ef seðlabankinn hefði sagt nei...

Vilhjálmur Bjarnason, sem ég ber mikla viðringu fyrir, birtist okkur líka og bullaði. Sagðist viss um tryggingar hefðu verið fullnægjandi en viðurkenndi þegar á hann var gengið að hann hefði ekki kynnt sér málið. Bankastjórinn hans hins vegar sagði sjálfur að seðlabankinn hefði orðið að sýna sveigjanleika þegar tryggingarnar yrðu metnar. I rest my case...

Hluthöfunum virðist í raun sama um allt nema hlutinn sinn. Hagsmunir heildarinnar og viðskiptavina bankans aukaatriði. kannski skiljanlegt en við hin höfum annað sjónarhorn. Menn tíunda vondar afleiðingar þess að bankinn fór í þrot. Lánshæfi ríkisins versnar og ég veit ekki hvað og hvað. Hér er látið eins og valdhafar hafi átt fjölmarga góða kosti úr að spila. Af mörgum vondum valkostum var þessi illskástur.

Ábyrgðin liggur hjáþeim sem ráku bankann og áttu. Þeim sem hafa notið þess í ríkulega í góðærinu að eiga hann. Engir aðrir komu að því að reka hann í þrot.

Hvað halda menn að gerist ef svo ótrúlega vildi nú til að hluthafar Glitnis fyndu nú allt einu eignir og aura og forðuðu þessu. Hver mun treysta þessum aðilum fyrir peningunum sínum í framtíðinni?

Allt væl og dylgjur um annarlegar hvatir þeirra sem leystu vandann við illann leik er í besta falli fáránlega ósmekklegt. Og enn og aftur legg ég til að fjölmiðlamenn reyni að spyrja þá sem bera ábyrgð á stöðu bankans af sömu einurð og festu eins og þeir spyrja stjórnmálamenn...

Röggi.