fimmtudagur, 2. október 2008

Í fréttum er þetta helst.

Ég hef oft bölvað því að ekki eru til reglur hér um eignarhald á fjölmiðlum. Ítalir hafa ekki heldur slíka löggjöf enda sjá allir hvurslags afleiðingar það hefur. Maðurinn með aurana ræður algerlega hvað er til umræðu. það gæti hugsanlega sloppið ef viðkomandi eru sæmilega siðferðilega innréttaðir. Í hvorugu landinu er um slíka heppni að ræða.

Fréttastofa stöðvar 2 heldur áfram að boða fagnaðarerindi eiganda síns kvöld eftir kvöld. Sigurður G. fær það pláss sem hann telur sig þurfa til að segja okkur að það sé seðlabankanum að kenna að bankinn hefði farið til fjandans 15. október vegna auraleysis. Mér vitanlega hefur enginn starfsmanna eiganda Glitnis gert minnstu tilraun til að reyna að sjá hina hlið málsins. Veit fréttastjórinn kannski ekki að það eru til fleiri hliðar á þessu máli en hlið hluthafa í Glitni?

Dettur engum á fréttastofunni í hug að efast? Er það óttinn við að missa vinnuna þegar spilaborg eigandans hrynur sem rekur fólk áfram? Er öllum sem þarna starfa fyrirmunað að sýna snefil af fagmennsku? Ég efast stórlega um að gömlu flokksblöðin sem voru þó klárlega ekki í felubúningi hefðu getað verið jafn einhliða í fréttaflutningi og stöð 2 er í dag.

Mér virðist sem fréttastjórinn hafi bara hætt að reyna að vera fagmaður. Hann flytur ekki fréttir. Fólk sem hefur gríðarlegra persónulegra hagsmuna að gæta birtist nú dag eftir dag með samsæriskenningar órökstuddar og þetta er flutt gagnrýnislaust eins og um hlutlausa sérfæðinga sé að ræða.

Hvenær ætlar einhver þarna að þora að spyrja skussana sem klúðruðu hlutafé þeirra sem eiga bankann eðlilegra spurninga? Af hverju var bankinn í þessari stöðu? Af hverju fór bankastjóri Glitnis til Seðlabankans til að biðja okkur skattgreiðendur um fleiri þúsund milljónir án þess að hafa fullnægjandi tryggingar ef þær reynast svo vera fyrir hendi? Voru innlánssjóðir Glitnis að fjárfesta stórlega í fyrirtækjum sem tilheyra stærsta hluthafa bankans? Og ef svo er, er víst að það þjóni hagsmunum hinna hluthafanna? Hvernig stendur á því að reiðin beinist að þeim sem tóku á móti Glitni gjaldþrota og leystu eigendurna undan þeirri skömm að þurfa að loka bankanum með miklu verri afleiðingum en við horfum á núna?

Af hverju er málflutningur þess sem keyrði fyrirtækið í gjaldþrot og leitaði til seðlabankans trúverðugri en þeirra sem stýra seðlabankanum og hafa alls engra hagsmuna að gæta? Ekki hagnast bankastjórar seðlabankans persónulega og engu hafa þeir að tapa öfugt við suma.

Fullkomlega er rökrétt að spyrja þessa menn að því hvernig þeim tókst að koma því þannig fyrir að banki sem þeir segja alveg skotheldan að öllu leyti komst í þá stöðu að vera auralaus með stóran gjalddaga eftir hálfan mánuð. Enginn bað þá um að fara á hausinn. Enginn bað þá um að fara til seðlabankans.

Svörin við þessum spurningum eru reyndar öllum kunn. Davíð Oddsson er glæpamaður! það er bara þannig jafnvel þó alls ekki hafi verið sýnt fram á hver glæpurinn er annar en að tryggja að þeir sem áttu bankann taka þátt í tapinu frekar en þeir sem áttu inni hjá bankanum.

Fréttastofa Jóns Ásgeirs mun aldrei spyrja þessara spurninga. Kannski breytist þetta allt saman þegar nýjir eigendur koma að rekstrinum. Það gæti orðið fyrr en seinna og vonandi ekki þannig um samþjöppun verði að ræða.

Svo þurfum við að koma okkur saman um að setja okkur reglur um eignarhald á fjölmiðlum svo við þurfum ekki að horfa upp á jafnvel fínasta fagfólk taka jafn herfilega niður um sig faglega eins og blasir við daglega á stöð 2.

Röggi.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála þér, þetta er búið að vera átakanlegt síðustu daga. Ég held að það hafi bara engin byrjað jafn illa sem fréttastjóri frá upphafi og Óskar.

Vona að þeir fari að taka sig saman í andlitinu. Þeir eru að skíta upp á bak og rúmlega það.

Nafnlaus sagði...

Ég man eftir afsökunnarbeiðni frá Óskari Hrafni sem þá var fréttastjóri visi.is þegar hann fjallaði um ferðamáta Jóns Ásgeirs og birti mynd af einkaþotu.

Óskar fór á hnéin og baðst afsökunnar....

Palo.

Nafnlaus sagði...

Sorrí, þú ert auli.

Sorrí með það.

Nafnlaus sagði...

Sæll meistari.
Fréttaflutningur af þessu máli er til skammar að mínu mati.
Verst finnst mér þó að blessað Ríkið (rúv) er litlu skárra.
Bottom line... þú leitar aðstoðar þiggur hana og þá ætti niðurstaðan að vera = Betra að eiga 25% af litlu en 100% af engu.
Hugsa að krullukarlinn í Svörtuloftum hafi ekki ógnað þeim með vopni.