miðvikudagur, 1. október 2008

Fjölmiðlafár

það er ekki nýtt að ég standi gapandi yfir fjölmiðlum. Kannski fatta ég ekki hvert hlutverkið er. Hef samt skoðun eins og fyrri daginn...

Almenna reglan virðist vera sú að þeir sem eru bornir sökum verði af öllum mætti að bera af sér sakargiftir. Öfug sönnunarbyrði í stíl við Mc Carty forðum. Látum þá neita því. Miklu minna lagt upp úr því að fá þá sem fara fram með ásakanir til að færa rök fyrir sínu. Þetta fullyrði ég að er nánast plagsiður hér.

Við horfum upp á klassík í þessu efni núna. Hluthafar Glitnis og í sumum tilfellum menn sem tóku þátt í því að reka bankann í þrot birtast ítrekað í viðtölum þar sem þeir fullyrða eitt og annað og bera alls konar ætlanir og hluti á fjarstadda menn og komast bara upp með það. Í gær var stjórnarformaður bankans í viðtali í kastljósi og ég gat ekki betur séð en að spyrjandinn í málinu kæmi fram við hann eins og algerlega hlutlausan mann en ekki fullkomlega vanhæfan eins og ég tel hann vera.

Þarna sat hann og fjallaði um eigin verk eins og sérfóður maður fenginn utan frá til að meta atburði. Fabúleraði út í eitt og virtist vera að mestu óáreittur. Hvers vegna ekki var þjarmað að honum eins og forsætisráðherra um daginn er mér hulin ráðgáta. Ég efast lítið um það að ef seðlabankastjóri kæmi og reyndi að svara fyrir sig yrði saumað að honum.

Kannski er meiri safi í þvi, ég bara veit það ekki. Fyrir mér eru þessi menn teknir algerum silkihönskum. Skýrasta dæmið og að mínu viti dæmi sem hlýtur hreinlega að verða kennsluefni í fjölmiðlafræði framtíðarinnar var á stöð 2 í gærkvöldi.

Þar sat fyrrum aðstoðarmaður Jóns Ásgeirs, Sindri Sindrason, og núverandi launamaður á sjónvarpsstöð sem áðurnefndur Jón á og las upp spurningar af blaði. Þátturinn var að sjálfsögðu ekki í beinni og hafði verið klipptur til eftir kúnstarinnar reglum. Þar kom enn einu sinni í ljós að alls engu máli skiptir hver á fjölmiðil. Visir.is í dag er einnig undirlagður enda nýji fréttastjórinn hlýðinn með afbrigðum. Drottningarviðtal allra drottningarviðtala. Veit ekki hver glæpur Sindra var en refsingin var grimmileg enda verður hans ætíð minnst fyrir þessi tilþrif.

Núna þegar við þurfum sérstaklega á vönduðum fréttaflutningi og umfjöllun að halda þá finnst mér vanta verulega upp á. Æsifréttir í öndvegi í staðinn fyrir yfirvegun og fagmennsku.

p.s. Af augljósum ástæðum er hér ekki minnst orði á DV....

Röggi.

Engin ummæli: