Af einhverjum undarlegum ástæðum sat ég fyrir framan kassann nú síðdegis og horfði á landsleik í handbolta. Við erum í einni af fjölmörgum forkeppnum fyrir eitt af fjölmörgum stórmótum í handbolta. Við spiuðum við Argentínu áðan. Þeir kunna ekki handbolta. Allir vita það og allir vissu að við myndum vinna leikinn.
Og sagan kennir okkur það að við þurfum ekki að tefla okkar bestu mönnum fram í nánast alla leiki. Hver mínúta sem lykilmenn fá í hvíld er þeim mikilvæg að ekki sé talað um mínúturnar sem hinir fá til að spila!Sagan hefur ítrekað reynt að kenna Guðmundi þjálfara að vera ekki að þreyta okkar bestu menn um of.
Guðmundur breytist sennilega aldrei með þetta. Innáskiptingar eru honum eitur í beinum. Leikmennirnir á bekknum eru menn sem gripið er til í neyð. Þeim er svo gjarnan hent inn á annað hvort þegar leikurinn er gjörtapaður eða gjörunninn. Hvað fá menn út úr því?
Hvað gæri hugsanlega gerst ef Ólafur eða Guðjón fengju að setjast niður í fyrri hálfleik til að dreifa álaginu og búa til breydd og auka á leikgleði allra? Er Einar Hólmgeirsson svona lélegur leikmaður? Getur verið að honum tækist að klúðra leik gegn Argentínu ef hann spilaði meira en 11 mínútur?
Guðmundur hefur brennt sig á því oftar en einu sinni að brenna okkar sterkustu menn upp í stórmótum. Brennt barn ætti að forðast eldinn en ekki gerist það hjá Guðmundi. Játa þó að ég bind nokkrar vonir við að Óskar Bjarni nái að hafa áhrif. Hann er algerlega hinu megin á kvarðanum. Vill skipta ört inn á. Þjálfari Dana líka. Þeir eru Evrópumeistarar.
það sem gætu hugsanlega bjargað okkur núna er að þessi forkeppni er bara þrír leikir. Það verður því að teljast frekar ólíklegt að Guðmundi takist hreinlega að þreyta liðið nógu mikið.
En hann er byrjaður að reyna...
Röggi.
föstudagur, 30. maí 2008
Guðmundur þreytir...
ritaði Röggi kl 17:34 2 comments
mánudagur, 26. maí 2008
Vændið.
Vændi hefur aukist. Atli Gíslason segir það og þetta veit hann af því að hann hefur talað við lögreglumenn. Mjög vísindalegt og stæðist örugglega fyrir dómi. Annars vill ég alls ekki að menn skilji mig þannig að mér finnist Atli slæmur maður eða illa úr garði gerður.
Mér finnst nefnilega allt annað en það. Augljóslega afburðagóður maður og vel gerður. Mannvinur og ekki síst kvennvinur. Lætur sig málefni kvenna í víðasta samhengi varða. Ekki veitir af. Feministi af Guðs náð og hefur ekkert fyrir því. Gott og blessað allt saman.
Hann er á móti vændi og var á móti því að það yrði lögleitt. Enn allt gott og blessað. Hann er VG og VG trúir á boð og bönn. Það sem er bannað er ekki til heimspekin. þar greinir okkur Atla á.
Vel má vera að fólki líði betur með það að banna hlutina. Þá finnst mörgum sem það hafi gert sitt til að uppræta syndina, í þessu tilfelli vændið. Í mínum huga vinnur bann ekki að hagsmunum þeirra sem það á að gera. Eftirspurn eftir vændi hefur alltaf verið til staðar og verður um ókomna tíð því miður. Og þar sem er eftirspurn verður framboð. Enginn vafi.
Þess vegna og aðeins þess vegna er óheppilegt að banna vændið. Það verður alltaf til en fer bara undir yfirborðið, hverfur sjónum okkar en hverfur alls ekki af yfirborði jarðar þó Atli og lögreglumennirnir sem hann talar við sjái það ekki.
Varla þjónar það hagsmunum stúlknanna að vinna undir yfirborðinu því þar þrífst oft allskyns óþverri eftirlitslaust. Mér finnst miklvægt að löggjöf ná markmiðum sínum. Ekki er nóg að hlutirnir líti vel út á pappír ef markmiðin nást ekki.
það að vændi sé núna sýnilegra er ekki til endilega marks um að það hafi aukist. kannski er það að koma upp á yfirborðið af því að það er ekki lengur bannað. Þá er tilgangnum náð er það ekki?
Þá getum við farið að vinna með raunverulega hluti. Hættum að banna fólki að stunda vændi eða að kaupa það. Það þjónar litlum tilgangi. Reynum ekki að sópa vandanum undir teppið. Það er skítaredding og kemur bara í bakið á okkur síðar.
Þó ég vilji ekki bera sama póker og vændi þá er notuð sama aðferðin á póker og vændi. Allir vita að bannið hefur engin áhrif, alls engin. Önnur en að ýta undir ólöglega glæpastarfsemi.
Viljum við það?
Röggi
ritaði Röggi kl 09:53 0 comments
Guðjón fríkar út.
Það væri synd að segja að þeir fari með friði Skagamennirninr allir þessa dagana. Auðvitað getur fokið í þann þjóðflokk eins og aðra. Varla er hægt að svipta menn skapgerð sinni eða skerða tjáningarfrelsið?
Guðjón Þórðarsson er af þeirri tegund manna sem gernýtir sér rétt sinn til skoðana. Hann er gjarnan alveg við jaðarinn og mörgum finnst það gaman og fréttamönnum finnst það reyndar æði. Þeir mæta stundum með olíu til að bæta í eldinn. Þá verður fjandinn laus.
Og eldurinn logaði í gærkvöldi, hann skíðlogaði. Ástæðan, jú samantekin ráð allra gegn honum. Hversu ótrúlegt er það að KSÍ hafi ákveðið að herja nú á Guðjón og hans menn. Stofna til herferðar gegn skaganum á leynifundum í bakherbergjum. Þeir sem fylgst hafa með fótbolta eftir að Guðjón kom heim úr víking hafa ekki getað komist hjá því að sjá að karlinn hefur ítrekað komist upp með ótrúlegt kjaftæði órefsað.
Hann hefur ekki hikað við að saka dómara um svindl og í gær gerði hann það aftur. Ég fullyrði að hvergi á byggðu bóli sæjum við þjálfara láta eins og hann lét eftir leikinn í gær. En ef svo ótrúlega vildi til er alveg víst að viðkomandi hlyti refsingu.
Getur verið að menn séu hreinlega orðnir vanir þessari framkomu hans? Kæmist hinn mjög svo dagfarsprúði þjálfari HK upp með svona framkomu? Er KSÍ batteríið í heili lagi skíthrætt við að taka á manninum? Við vitum að líklega mun ekki draga úr hávaðanum þó hann hljóti refsingu en þá er að endurtaka hana þangað til að maðurinn lærir almenna mannasiði.
Vel má vera að Guðjón hafi eitthvað til síns máls. En framsetning hans og nálgun er langt út fyrir það sem við ætlumst til af mönnum í hans stöðu. Þjálfarar eru andlit fótboltans. Þeir eru fyrirmyndirnar, eða ættu að vera það. Ef litið er yfir feril Guðjóns þá sést að honum er skítsama um þetta. Skapillska og annað hvort áunninn eða ómeðvitaður ruddaskapur hefur ítrekað verið opinberaður.
Þjálfarar eiga að hafa skoðanir á öllum þáttum leiksins. Þeir eru fagmenn þegar vel tekst til og þeim kemur flest við. Leikurinn er ekki gerður fyrir dómara eða KSÍ. Gagnrýni sú sem Guðjón hafði upp í gær á ekkert erindi í sjónvarp eins og hún var framsett. Í fullkomnu ójafnvægi eftir tapleik. Stóryrtur og ærumeiðandi.
KSÍ getur alls ekki sleppt honum við leikbann og sekt. Það yrði heimsmet í aulaskap. Handboltinn tók af myndarskap á svipuðu í vetur og ef tekin yrði inn í jöfnuna stighækkandi refsing væri meistari Guðjón í klípu. Undanfarin tímabil hafa aðrir þjálfarar fengið refsingu fyrir mun minna. Það vita allir en fáir skilja.
Nú verður KSÍ að hætta að skjálfa á beinum þegar Guðjón talar og hysja upp um sig. Jafnvel þó það kosti hávaða. Annars veður hann áfram uppi og mun skaða ímynd fótboltans og KSÍ.
Ímynd hans sjálfs virðist honum léttvæg. KSÍ getur ekki leyft sér slíkan munað.
Röggi.
ritaði Röggi kl 09:01 2 comments
fimmtudagur, 22. maí 2008
Afleiðingar hvalveiða.
Margir hafa áhyggjur af hvalveiðum okkar. Allskonar viðskiptalegar ástæður. Hvalaskoðun í uppnámi og ég veit ekki hvað. Útlendingar svefnvana og hættir að borða matinn okkar og ferðast hingað. Þetta hefur heyrst áður enda snýst jörðin um það hvað við erum að aðhafast.
Brúnaþungir menn hafa meira að segja bent á að þetta geti spillt verulega fyrir möguleikum okkar á að komast í öryggisráðið. Þetta hef ég heyrt. Og léttist þá nokkuð á mér brúnin.
Fátt er svo með öllu illt....
Röggi.
ritaði Röggi kl 16:24 0 comments
Árni og innflutta grænmetið.
Dagurinn hófst á því að hlusta á Árna Johnsen. Hann var í útvarpinu. Þar upplýsti hann okkur um að hann vissi 100% um það að menn væru að flytja hér inn grænmeti frá svæðum sem við vildum ekki versla við og merkja sem íslenskt og selja.
Þetta veit Árni og hann veit líka að þetta er svindl og svínarí og þar er ég honum sammála. Þeir aðilar og stofnanir sem um málið eiga að fjalla hljóta að vera með allar þessar upplýsingar frá Árna. Allt annað væri óeðlilegt enda Árni hluti af löggjafasamkomu þessa lands og liggur væntanlega ekki á upplýsingum sem þessum.
Frá mínum bæjardyrum séð er fullkomlega óeðlilegt að Árni komi nú og fullyrði þetta án þess að upplýsa í leiðinni um það hverjir eiga hér í hlut. Hlýtur að vera óþolandi fyrir þá sem starfa á þessum markaði að vera settir undir svona grun allir sem einn.
Menn eiga ekki að þurfa að bera af sér sakir. Þeir sem fara um með ásakanir verða að gera svo vel að bakka þær upp eða þegja. Nú eða koma upplýsingum til þeirra sem um málið eiga að fjalla. Ekki gengur að brennimerkja heila stétt manna með hálfkveðnum vísum.
Röggi.
ritaði Röggi kl 08:44 0 comments
miðvikudagur, 21. maí 2008
Kompás.
Kristinn Hrafnsson kompás maður átti í gær viðtal við eina af þeim konum sem voru misnotaðar af Guðmundi í byrginu. Kristinn hefur áður tekið viðtal við hana.
Skil ekki hver tilgangur Kristins er eiginlega í þetta skiptið. Ekkert nýtt er hér á ferðinni og fáum dylst að stúlkunni líður mjög illa fyrir framan vélina. Greinilega ráðvillt og úti á þekju. Mér finnst nánast eins og Kristinn sé að nýta sér fremur bágt ástand hennar til að búa til sjónvarp.
Er alls ekki að skattyrðast þó að málið sé ryfjað upp ef menn vilja. Væntanlega er einhver forvörn í því þó ég hafi stundum á tilfinningunni að menn velti sér full mikið upp úr smáatriðum málsins í sjónvarpi.
Er ekki nóg komið? Við getum ef við viljum fjallað um þá sem brjóta af sér og tekið við þá viðtöl og sýnt myndir. Fórnarlömbin þurfa kannski ekki endilega á þannig meðferð að halda.
Meðferðin sem þau eiga að fá fer ekki fram í sjónvarpi.
Röggi.
ritaði Röggi kl 14:15 3 comments
þriðjudagur, 20. maí 2008
Hrefnuveiðar.
Þá eru bretar fúlir vegna fyrirhugaðra hrefnuveiða okkar. Sendiherrann hefur tekið að sér að vera fúll og tilkynnt það. Stórfínt hjá honum þó mér detti ekki í hug að veiðar okkar hafi nokkur áhrif á stofnstærð hrefnunnar. Ekki frekar en að fáránlegar snobbrefaveiðar breta skipti neinu máli. Þær eru bara ógeðfelldar.
Kannski dugar það til að vera mótfallinn. Tilfinningaleg afstaða. Við ættum að kannast við slíkt enda tökum við oftar þannig afstöðu en efnislega. Ég sjálfur hef enga sannfæringu fyrir nauðsyn þess að veiða hval.
Og raunar litla fyrir friðun líka. Við höfum mikið af fólki sem hefur stofnað með sér samtök sem mótmæla öllum sköpuðum hlutum sjálfvirkt. Og hefur af því beinan hag sjálft. Stór hluti þess fólks myndi mótmæla kókþambi ef það væri arðbært. Eða gerast sjónvarpspredikarar. Paul Watson er klassískt dæmi um slíka kóna.
Þetta fer í mínar taugar, öfgafólk og rétttrúnaður. Þá snýst ég stundum öndverður og það er verra því ég er viss um að alltaf af og til er þetta fólk að taka að sér mál sem þyrftu alvöru umfjöllun og skemma fyrir með vitleysishegðun og ofbeldi.
Og því er staðan þannig að hinn venjulega Jón á Íslandi fagnar nú þessum veiðum. Á kolröngum forsendum. Látum ekki einhverja útlendinga segja okkur hvað hér er best. Þjóðremba í stað skynsamlegarar umræðu.
Það er merkilegt að nú gerist þetta eins og síðast. Enginn undanfari, engin umræða. Geir sáttur en Ingibjörg ekki. Af hverju vissi enginn af þessu? Er þetta eitthvað sem við þurfum að skammast okkar fyrir?
Erum við kannski að fórna stærri hagsmunum fyrir minni? Hef ekki hugmynd og það er ekki nógu gott. Mig langar ekki að vera sjálfkrafa með eða á móti.
Veit því ekkert í minn haus.
Röggi.
ritaði Röggi kl 12:22 1 comments
föstudagur, 16. maí 2008
Grensás.
Þannig er mál með vexti að ég hef varið drjúgum tíma hjá veikum föður mínum undanfarna mánuði og nú síðast á grensás, sem er endurhæfingastöð hér í bæ.
Það er mögnuð lifsreynsla að koma þangað. Óska að sjálfsögðu engum að þurfa þess en ég get fullyrt fyrir mig að ég er ekki verri maður eftir. Þarna inni er mjög mikið veikt fólk á ýmsum aldri að berjast af lífs og sálarkröftum til heilsu aftur.
Með fulltingi frábærra starfsmanna sem sinna sínu starfi þannig að ekkert nema köllun til þess að hjúkra knýr það áfram. Prófgráður skila fólki þekkingu en hún hjúkrar engum.
Stórbrotið að fylgjast með því hvernig fólk sem sumt hefur litla eða jafnvel enga von um nokkurn bata viðheldur sinni reisn og býr sér til samfélag. Held að þetta fólk sé eitthvert það fallegasta sem ég hef umgengist um ævina.
Í gær var messa. Þær eru einhvernvegin öðruvísi messurnar á grensás. Enginn kór og enginn meðhjálpari. Enginn íburður og söfnuðurinn fullur athygli og líklega hvergi eins mótttækilegur. Einhver undarleg kyrrð. Og fegurð.
Hvergi hef ég fundið eins mikið fyrir því að ég er manneskja og á grensás. Líður alltaf betur þegar ég fer. Fullur bjartsyni og trú á mannkynið og morgundaginn.
Betra getur það ekki orðið.
Röggi.
ritaði Röggi kl 22:02 2 comments
Magnús Þór.
Kannski er það er bera í bakkafullann lækinn að ætla að nenna að hafa skoðun á Magnúsi Þór og hans framgöngu almennt, en læt það samt eftir mér.
Stjórnmálamenn hvorki eiga né þurfa að vera eftir einhverri fyrirfram gefinni forskrift. Þeir hljóta að vera eins misjafnir og þeir eru margir og ekki hafa þeir svindlað sér inn. Lýðræðislegar kosningar skola mönnum til þings.
Einhvernveginn gerðist það að Magnús komst á þing. það hlýtur að vera gott og blessað þó ég skilji hvorki upp né niður í því. Magnús virðist haldinn undarlegum félagslegum vanþroska. Hann bregst of oft við mótlæti með spörkum í stað þess að halda sig við málsstaðinn sinn sem hann hefur þó að jafnaði mjög sterkar tilfinningar fyrir.
Og gerist þá orðljótur mjög og heggur í báðar áttir. Hvernig hægt er að ætlast til þess að maður sem er þannig skapi farinn leiði stjórnmálaflokk er mér hulin ráðgáta.
Ég hef sagt það áður að umræðan um innflytjendur og þeirra málefni er þörf hér. Frjálslyndir hafa þorað að taka þá umræðu. Og gott ef ekki eignað sér málsstaðinn og það er afleitt. Magnús Þór getur ekki leitt þá umræðu eins og hann er skapi farinn.
Vel getur verið að einhverjir hafi samúð með því sem hann hefur að segja um málið sem sprengdi allt í loft upp á Akranesi. það fólk forðar sér á hlaupum undan fúkyrðaflaumnum sem nú gengur yfir.
Auðvelt er að sætta sig við að fulltrúar eiginlega hvaða skoðana sem er komist í þing eða í aðrar pólitískar stöður hafi þeir til þess umboð kjósenda. En til þess að endast og ná kjölfestu þá þurfa menn að hafa félagslegan þroska til þess að kunna að gera ágreining og að vera sammála um að vera ósammála.
Og ekki síður hitt, að kunna að tapa, verða undir. Styrkur manna er nefnilega ekki mældur á sigurstundum. Hann mælist best þegar vindurinn stendur bálhvass á andlitið
Samkvæmt mínum mælingum stendur Magnús nú nokkuð halloka og bætir í vindinn ef eitthvað er...
Röggi.
ritaði Röggi kl 09:54 3 comments
fimmtudagur, 15. maí 2008
Fúlt er að falla úr meirihluta.
Um hvað snúast stjórnmál eiginlega? Eitt og annað líklega en þau ættu að snúast um málefni. Fólk sem er á sömu blaðsíðunni tekur sig saman og fer í samstarf um góða hluti. Þetta er ekki flókið.
Svo koma inn í jöfnuna allskonar hlutir eins og persónulegur metnaður og græðgi af ýmsum toga sem fylgja dýrategundinni. það getur brenglað allt en er víst óhjákvæmilegur fylgifiskur.
Svo getur það gerst að samstarfið strandar. Stundum er það af persónulegum ástæðum og eða málefnalegum. Það hlýtur að vera óhjákvæmilegt á stundum.
Þó er mun algengara að fólk hangi saman á liðónýtu sambandi pólitískt og persónulega og oft algerlega án málefnalegs metnaðar. Þeir eru ylvolgir stólarnir og völdin sæt.
Nú hefur það gerst alloft frá síðustu sveitarstjórnarkosningum að meirihlutar hafa sprungið og nýjir myndast. Að jafnaði þykir þetta ekki stórfrétt gerist það í Trékyllisvík eða Hesteyri. Þá birtist lítil og stundum sæt mynd af brosmildum fulltrúum nýs meirihluta munda penna yfir nýjum málefnasamningi. Allt í góðu.
Hér á suðvestur horninu þykja svona hlutir vera mikil tíðindi. Stóryrði eins og svik og ólýðræðisleg vinnubrögð þá gjarnan hátt á lofti. Þá hafa þeir gjarnan orðið í fjölmiðlum sem setið hafa eftir. Sagan skrifuð af þeim.
Hver man ekki eftir því að núverandi borgarstjóri var í sömu setningunni sakaður um ólýðræðisleg og ómálefnaleg vinnubrögð og svo talað um að hann hafi fengið 70% af sínum málefnum fram í samningi nýs meirihluta!
Ég hef misskilið hlutina því ég hélt í einfeldni minni að menn hefðu fyrst og síðast skyldum að gegna gagnvart samvisku sinni og kjósendum sem merktu væntanlega við bókstafinn út á málefni að mestu. Hér á landi þykir engin dyggð meiri en að ríghalda í völdin óháð málefnum.
Á Akranesi sprakk meirihluti vegna máls sem þótti nógu stórt og mikið til að ekki yrði bakkað eða fundin lausn á. Ætla ekki að hafa neina skoðun á málefninu en íbúar á Akranesi hljóta að teljast ljónheppnir að uppúr slitnaði því svekktur fulltrúi þeirra sem tapar völdum upplýsir okkur um að fyrrum samstarfsaðilar séu fast að því illa innrættir og hæfileikalausir auk þess að vera ekki nógu sterkir á svellinu. Samstarf með þannig fólki getur varla verið mjög gott. Þetta finnast mér einkar málefnaleg ummæli sem minna mig á það hvernig fyrrum samstarfsaðilar hér í borginni fundu geðveiki í fari núverandi borgarstjóra um leið og hann færði sig um set.
Í mínum huga er þetta eðlilegt. Stjórnmálamenn eiga að geta látið það eftir sér ef ekki tekst að halda úti samstarfi sem byggist á málefnum að skipta um lið. Fyrir mig sem kjósanda er það flott. Því fleiri prinsippmenn því betra.
Nóg er af hinum eins og mörg nýleg dæmi eru til vitnis um...
Röggi.
ritaði Röggi kl 11:27 0 comments
þriðjudagur, 13. maí 2008
Júróvesenæði.
Nú brestur á júróvesen æði. Vorboðinn ljúfi, árvisst partýstand og að líkindum brostnar vonir bókaþjóðarnnar sem lætur eins og hér sé um heimsmeistarakeppni í eðlisfræði að ræða.
Eftir að hin fjölmörgu nýfrjálsu austur evrópsku lönd með dósadiskóið sitt tóku þessa keppni yfir höfum við átt erfitt uppdráttar. það höfum við kallað einu nafni mafíustarfsemi. Sérkennileg niðurstaða því við sjálf mokum stigum í hinar norðurlandaþjóðirnar óháð því hvað þar er á boðstólum. Einsýnt að við verðum að fjölga norðurlandaþjóðum snarlega.
Heyrði framlag okkar í útvarpinu í morgun og þá ryfjaðist upp fyrir mér hvað þessi keppni er handónýt tónlistarlega. Hún hefur verið það lengi en líklega bara á annan hátt en núna. Nú miðast allt við að heilla austur evrópsk ungmenni með gsm síma. Var þetta ekki allt miklu betra þegar við reyndum að heilla miðaldra fólk í dómnefndum?
Keppnin er samt flott sjónvarpsefni og það er tilgangurinn. Við hljótum að falla í kramið núna er það ekki? Erum orðin straumlínulöguð, skerum okkur alls ekki úr. Grútleiðinlegt lag sem gleymist áður en það er búið. Eins og þessi lög öll meira og minna. Líka sigurlögin.
Af einhverjum undarlegum ástæðum hefur mér ekki verið boðið í partý. Hvernig má það vera?
Röggi.
ritaði Röggi kl 13:28 0 comments
föstudagur, 9. maí 2008
Útúrsnúningar borgarstjóra.
Ég "sá" magnað augnablik í útvarpinu í bílnum mínum í gær. þar sat Ólafur borgarstjóri fyrir svörum hjá Sölva sjónvarpsstjórnu á stöð 2. Umræðuefnið ráðning stuðboltans Jakobs Frímanns. Sölvi og Ólafur virtust þarna vera frá sitthvorri plánetunni.
Virkuðu eins og þráhyggjusjúklingar í alvarlegu kasti. Sölvi með sannleikann og réttlætið að vopni spurði sömu spurningarinnar 36 sinnum og fékk jafn oft ef ekki oftar sama svarið, ef svar skyldi kalla. Framganga beggja í raun hlægileg.
Merkilegt að borgarstjóra finnst það vera smámál að formið á ráðningunni skipti máli. Hann einfaldlega veit að þetta er hagkvæmt og ódýrt fyrir borgina. Þetta er stórhættulegur þankagangur enda höfum við sett okkur gangsæjar reglur til þess einmitt að stjórnmálamenn sem "vita" allt betur en aðrir geti ekki komist upp með svona vinnubrögð.
Svo greip borgastjóri til gamla bragðsins að benda á að aðrir hafi nú pottþétt gert það sama og líklega jafnvel enn verra. Þetta er að verða plagsiður hér. Hér svindla menn á hlutafélagalögum og sprenglærðir menn gera skýrslur og benda á að það sé nú svindlað um allan bæ! Svona röksemdafærsla þótti góð og gild fyrir dómstólum hér og því er kannski bara eðlilegt að borgarstjóri telji þetta halda vatni. Fyrir mér er þetta brandari.
Ég fer ekki fram á að stjórnmálamenn hér geri aldrei nein mistök. Þeir eru fólk eins og ég. En ég fer fram á að þeir vinni eftir einföldum leikreglum sem allir standa jafnir fyrir. Þannig og bara þannig virkar systemið.
Stjórnmálamenn sem þurfa að verja heiður sinn og trúverðugleika verða í öllum tilfellum að leggja sig fram um að klára sig af þvi. Það tekst borgarstjóra ekki ef hann ætlar bara að benda á að aðrir séu hið minnsta jafn afleitir en hann.
Röggi.
ritaði Röggi kl 10:49 1 comments
fimmtudagur, 8. maí 2008
Hvað kostar að aka of hratt?
Minnir að ég hafi lesið það einn daginn haft eftir afbrotafræðingi að hertar refsingar hefðu ekki fælingaráhrif. Þá hlýtur það að vera rétt. Kannski er forhertum glæpamanninum í raun slétt sama hvort refsingin við glæpnum hljóðar uppá eitt ár eða tæp tvö. Atvinnumennskan er líklega öðruvísi hvað þetta varðar.
Ég er að hugsa um refsingarnar sem við sem ökum göturnar eigum yfir höfði okkar. Hef sem betur fer sloppið sæmilega frá laganna vörðum í gegnum tíðina og það ber að þakka. Fór þó að hugsa um hvort ekki væri sniðugt hjá lögreglunni að auglýsa og upplýsa vegfarendur um hvað það kostar að aka of hratt? Eða að fara yfir á rauðu.
Mér skilst að það geti hlaupið á tugum þúsunda hvort þú akir á 101 km eða 110 km. Ekki vissi ég það. Er nokkuð viss um svona upplýsingar hafi fælingaráhrif.
Sumt er skrýtið. Nú kostar 5 000 að tala í síma án búnaðar en það er einmitt sama upphæð og þú þarft að reiða fram ef þú gleymir skírteininu heima. Þó er ekki vitað til þess að það hafi valdið slysum að vera ekki með teinið í veskinu.
Legg eindregið til að lögreglan noti þessar upplýsingar til þess að halda mér í skefjum í umferðinni. Ég tími ekki að borga þetta. Þá er sigur unninn.
Röggi.
ritaði Röggi kl 09:44 3 comments
miðvikudagur, 7. maí 2008
Hvenær má segja fólki upp störfum?
Hvenær má segja fólki upp störfum? Og hvernig á þá að standa að því? HB grandi sagði upp fólki og sumum þykir það nánast eiga að vera ólöglegt en til vara að fullnægjandi skýringar skulu fylgja uppsögninni. Hvaða skýringar teljast svo fullnægjandi er látið liggja milli hluta.
Vinnuveitendur eru vont fólk. Fólk sem gerir sér það að leik að reka fólk. Nei, þannig er það varla. Hverjir er betur í stakk búnir til þess að ákveða hverjir starfa hjá fyrirtækjum en þeir sem eiga það og reka? Hver ber ábyrgð á rekstrinum gagnvart hluthöfum ef formið er þannig?
Ákvörðun um að láta fólk fara er örugglega ekki tekin nema af yfirvegun. Stundum þarf jafnvel að láta fólk fara þó það hafi langan starfsaldur. Og stundum bara vegna þess að viðkomandi stendur sig ekki. Allt getur þetta verið eðlilegt. Eru ekki til lög um hópuppsagnir? það hjálpar klárlega.
Mér finnst margir fastir í eldgamalli hugsun fastráðningakerfis ríkissins. Við höfum séð hvernig það kerfi virkar. Ekki er nokkur einasta leið að segja upp starfsmanni nema hann gerist brotlegur við hegningarlög. Engu skiptir hvort aðilinn stendur sína plikt eður ei. Þannig system þjónar að mínu viti hvorki hagsmunum vinnuveitenda né launþegans og er ekki hagkvæmt.
Við ættum kannski að snúa þessu á haus og skikka fyrirtæki til að ráða fólk. Held að flestir skilji að það er út í hött, af viðskiptalegum ástæðum og reyndar fleirum. Rökin gilda í báðar áttir.
Uppsagnir eru grafalvarlegur hlutur og engin ástæða til þess að gefa neitt eftir í því að menn standi löglega að þeim. Og aldrei verður eða má verða hægt að skylda menn til að hafa fólk í vinnu ef eigendur telja sig ekki geta það eða þurfa.
Röggi.
ritaði Röggi kl 16:05 2 comments
Meira fé til íþrótta.
Ég varð þess heiðurs njótandi að fara ásamt fríðum hópi á NM ungmenna í í körfubolta í svíþjóð um daginn. Fjórir dómarar og fjögur lið. Frábær ferð í alla staði og það verður seint logið upp á svía að þeir kunna að skipuleggja viðburði af þessu tagi.
Þeir sem vilja verðleggja árangur af svona ferðum eftir verðlaunapeningum hafa kannski orðið fyrir vonbrigðum en við sem þarna vorum vorum að rifna af stolti yfir okkar fólki. Mikill fjöldi foreldra horfi á íslensku liðin standa sig frábærlega.
Öll framganga íslenska hópsins til fyrirmyndar innan vallar sem utan. Og það er í þessu samhengi sem ég er að hugsa um það af hverju íþróttir eru hálfgert olnbogabarn þegar kemur að fjáveitingum ríkisins. Getur verið að það sé einhverjum hulið að íþróttir eru bráðhollar og þjóðhagslega hagkvæm fjárfesting?
Reyndar er það ekki nýtt að störf með manneskjur séu ekki talin sérlega mikilvæg sé tekið mið af launum. Heilbrigðis og ummönnunarstéttir allra landa kvarta sáran svo ekki sé minnst á fólkið sem tekur að sér uppeldi barna okkar að stórum hluta hvort heldur um er að ræða kennara eða leikskólafólk. Umsýsla með peninga fyrir framan tölvuskjái tekur þesu öllu fram.
Og vinna með börn og unglinga hjá íþróttafélögum. Litlu virðist skipta þó kannanir sýni að íþróttir eru líklegri en ekki til að forða unglingum frá óreglu eða að þeir sem leggja stund á íþróttir sýni betri námsárangur. Útgjöld ríkisins til málaflokksins eru hlægileg í raun.
Hef á tilfinningunni að sveitarfélögin séu að reyna að koma til móts við félögin í auknum mæli en betur má ef duga skal því eins og kröfurnar eru orðnar í dag þá rísa félögin varla lengur undir rekstri enda að stórum hluta byggð upp á vinnu sjálfboðaliða. Stundum held ég að þeir sem ekki þekkja vel til haldi að íþróttafélög séu stofnanir eins og háskólinn. Það sé lögmál að þau séu til staðar.
þannig er það ekki. Íþróttafélög eru ekki sterkari en þeir sem tilbúnir eru að fórna öllum sínum frítíma og meira til eru. Veit mætavel að í mörg horn er að líta hjá fjárveitingavaldinu þegar kemur að því að útdeila fé. Margir munnar að metta. Og ófá og oft misgáfuleg gæluverkefni flokksgæðinga úr öllum flokkum þurfa sitt.
Þá virðast málaflokar eins og íþróttir sitja hjá. Samt er það þannig að þau eru ekki mörg samtökin sem telja fleiri félagsmenn en samtök íþróttafólks. Hvernig stendur á því að ekki virðist hægt að setja nægan þrýsting á aukinn skilning fjárveitingavaldsins? Það fatta ég ekki.
En kannski er von. Þorgerður Katrín er bæði yfirmaður íþróttamála og á kafi sjálf í íþróttum. Ef einhver gæti og ætti að ná mælanlegum árangri þá er það hún. Mig rekur hreinlega ekki minni til þess að við höfum haft svona íþróttasinnaðan menntamálaráðherra áður.
Kannski væri ráð að bjóða Ingibjörgu og Geir á næsta NM að ári. það er nefnilega víðar unnið magnað starf en hjá bönkum sem bjóða í ferðir til tunglsins til að vera viðstaddur kokkteilstund með fyrirmennum. Á hvejum einasta degi eru að vinnast stórsigrar í starfi íþróttafélaga.
Getur verið að þetta fari framhjá fólkinu sem við höfum kosið til að stjórna landinu?
Röggi.
ritaði Röggi kl 08:49 5 comments
Heftandi útgangspunktar.
Það er eins og við manninn mælt. Nú spretta fram menn sem hafa kallað úlfur úlfur í hvert einasta skipti sem stjórnvöld hafa gert nokkurn skapaðann hlut síðustu tvo áratugina liggur mér við að segja. Ég vissi það hrópa menn í taumlausri gleði liggur mér við að segja yfir eigin visku.
Tækifærismennska oft segi ég. Það er bara þannig að flest orkar tvímælis sem gert er. Þeir sömu og garga núna vegna aðgerðaleysis garga líka þegar eitthvað er gert. VG hefur líka rétt fyrir sér af og til og yfirleitt þegar allt stefnir á versta veg enda sjá þeir glitta í ragnarrök í hvert einasta skipti sem skipt er um kúrs. Hvenær skyldi einhverjum detta í hug að gera úttekt á því sem þeir höfðu ekki rétt?
Guðmundur Gunnarsson bloggari með meiru er í stuði núna. Hann vissi alveg að allt færi til fjandans auðvitað. Það er vegna þess að vondir öfgamenn til hægri flæmdu hann úr sjálfstæðisflokknum og tóku hann gíslingu. Og hafa upp frá því unnið sleitulaust að því að eyðileggja íslenskt efnahagskerfi. Og það sem er verra.
Þeir hafa beitt blekkingum og líklega lygum til þess að árangur þeirra yrði sem mestur og bestur við meðvitaða niðurrifsstarfsemina. Ég verð nánast orðlaus við lestur svona greina. Hvernig dettur nokkrum manni annað eins í hug?
Getur verið að hér séu við völd menn og konur sem beinlínis hafi illan ásetning? Við höfum orðið vitni að því undanfarin ár að ýmsir hér halda svona löguðu fram. Baugsmenn riðu á vaðið og hófu að níða niður lögreglu og dómsvald og aðrir hafa svo tekið við því keflinu. Sá tími virðist liðin að fólk trúi á að ráðamenn geti gert heiðarleg mistök. Nú er allt mannvonska.
Frjálshyggja með stóru effi upphaf og endir alls sem nú hrjáir okkur. Barnalegt finnst mér. Kannski sakna Guðmundur og þeir gömlu tímanna þegar allt var gegnsósa í alvöru pólitískri spillingu. Liðónýtir stjórnmálamenn voru bókstaflega allsstaðar og allt í kring. Haftatímabilið í algleymi. Fólk grátbað senditíkur flokkanna sem plantað var í banka um lán en þeir voru þá uppteknir við henda peningum í flokksgæðinga hægri vinstri og skila bönkunum frá sér án hagnaðar. Það voru öðruvísi erfiðir tímar.
Þá var hægt að tefla fram fræðingum um allskyns hyggjur og isma eins og í dag. Allir eru og voru með töfralausnina. Nú sóttu menn atvinnumann frá skóa í chicago í því að spá fyrir um það sem búið er að gerast. Glænýr messias sem stjórnarandstæðingar taka fegins hendi. Hann segir það sem þeir sem borguðu farið fyrir hann vilja heyra. Reyndar röflar hann eitthvað um að evran sé ekki lausnin en enginn tekur sérstaklega eftir því. Hvernig stendur á því? Örugglega velviljaður maður og góður.
Nei, vel má vera að Guðmundur og hans fylgismenn hafi rétt fyrir sér. Kannski hafa þeir sem hafa valist til þess að stjórna einir manna ekkert vit á því hvernig á að gera það. Og hugsanlega hefði verið betra að halda hér í gamla systemið með slæmum stjórnmálamönnum og slæmum verkalýðsleiðtogum sem reyndu án afláts áratugum saman að tryggja verklalýðnum mannsæmandi kjör algerlega án árangurs.
það voru tímarnir þar sem þjóðin missti gersamlega trú í því góða fólki öllu saman. Ég engin undantekning en aldrei datt mér þó í hug að öll þau endalausu msitök sem þá voru gerð við samningaborð ítrekað væru neitt annað en heiðarleg mistök.
það er nefnilega svo heftandi fyrir hugann að trúa á hitt.
Röggi.
ritaði Röggi kl 00:15 0 comments