fimmtudagur, 22. maí 2008

Árni og innflutta grænmetið.

Dagurinn hófst á því að hlusta á Árna Johnsen. Hann var í útvarpinu. Þar upplýsti hann okkur um að hann vissi 100% um það að menn væru að flytja hér inn grænmeti frá svæðum sem við vildum ekki versla við og merkja sem íslenskt og selja.

Þetta veit Árni og hann veit líka að þetta er svindl og svínarí og þar er ég honum sammála. Þeir aðilar og stofnanir sem um málið eiga að fjalla hljóta að vera með allar þessar upplýsingar frá Árna. Allt annað væri óeðlilegt enda Árni hluti af löggjafasamkomu þessa lands og liggur væntanlega ekki á upplýsingum sem þessum.

Frá mínum bæjardyrum séð er fullkomlega óeðlilegt að Árni komi nú og fullyrði þetta án þess að upplýsa í leiðinni um það hverjir eiga hér í hlut. Hlýtur að vera óþolandi fyrir þá sem starfa á þessum markaði að vera settir undir svona grun allir sem einn.

Menn eiga ekki að þurfa að bera af sér sakir. Þeir sem fara um með ásakanir verða að gera svo vel að bakka þær upp eða þegja. Nú eða koma upplýsingum til þeirra sem um málið eiga að fjalla. Ekki gengur að brennimerkja heila stétt manna með hálfkveðnum vísum.

Röggi.

Engin ummæli: