miðvikudagur, 7. maí 2008

Hvenær má segja fólki upp störfum?

Hvenær má segja fólki upp störfum? Og hvernig á þá að standa að því? HB grandi sagði upp fólki og sumum þykir það nánast eiga að vera ólöglegt en til vara að fullnægjandi skýringar skulu fylgja uppsögninni. Hvaða skýringar teljast svo fullnægjandi er látið liggja milli hluta.

Vinnuveitendur eru vont fólk. Fólk sem gerir sér það að leik að reka fólk. Nei, þannig er það varla. Hverjir er betur í stakk búnir til þess að ákveða hverjir starfa hjá fyrirtækjum en þeir sem eiga það og reka? Hver ber ábyrgð á rekstrinum gagnvart hluthöfum ef formið er þannig?

Ákvörðun um að láta fólk fara er örugglega ekki tekin nema af yfirvegun. Stundum þarf jafnvel að láta fólk fara þó það hafi langan starfsaldur. Og stundum bara vegna þess að viðkomandi stendur sig ekki. Allt getur þetta verið eðlilegt. Eru ekki til lög um hópuppsagnir? það hjálpar klárlega.

Mér finnst margir fastir í eldgamalli hugsun fastráðningakerfis ríkissins. Við höfum séð hvernig það kerfi virkar. Ekki er nokkur einasta leið að segja upp starfsmanni nema hann gerist brotlegur við hegningarlög. Engu skiptir hvort aðilinn stendur sína plikt eður ei. Þannig system þjónar að mínu viti hvorki hagsmunum vinnuveitenda né launþegans og er ekki hagkvæmt.

Við ættum kannski að snúa þessu á haus og skikka fyrirtæki til að ráða fólk. Held að flestir skilji að það er út í hött, af viðskiptalegum ástæðum og reyndar fleirum. Rökin gilda í báðar áttir.

Uppsagnir eru grafalvarlegur hlutur og engin ástæða til þess að gefa neitt eftir í því að menn standi löglega að þeim. Og aldrei verður eða má verða hægt að skylda menn til að hafa fólk í vinnu ef eigendur telja sig ekki geta það eða þurfa.

Röggi.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það þarf stundum að segja feitum og dýrum Íslendingum upp til að ráða duglegt fólk frá Víetnam og Póllandi.

Nafnlaus sagði...

Gagnrýnin á þær uppsagnir sem þú ert væntanlega að vísa til snýst um hvort kjarasamningar séu virtir.

Svo er hitt annað mál að afhverju er það eins og meitlað í stein að eina leið fyrirtækja til hagræðingar sé alltaf sú að segja upp fólki?