Þá eru bretar fúlir vegna fyrirhugaðra hrefnuveiða okkar. Sendiherrann hefur tekið að sér að vera fúll og tilkynnt það. Stórfínt hjá honum þó mér detti ekki í hug að veiðar okkar hafi nokkur áhrif á stofnstærð hrefnunnar. Ekki frekar en að fáránlegar snobbrefaveiðar breta skipti neinu máli. Þær eru bara ógeðfelldar.
Kannski dugar það til að vera mótfallinn. Tilfinningaleg afstaða. Við ættum að kannast við slíkt enda tökum við oftar þannig afstöðu en efnislega. Ég sjálfur hef enga sannfæringu fyrir nauðsyn þess að veiða hval.
Og raunar litla fyrir friðun líka. Við höfum mikið af fólki sem hefur stofnað með sér samtök sem mótmæla öllum sköpuðum hlutum sjálfvirkt. Og hefur af því beinan hag sjálft. Stór hluti þess fólks myndi mótmæla kókþambi ef það væri arðbært. Eða gerast sjónvarpspredikarar. Paul Watson er klassískt dæmi um slíka kóna.
Þetta fer í mínar taugar, öfgafólk og rétttrúnaður. Þá snýst ég stundum öndverður og það er verra því ég er viss um að alltaf af og til er þetta fólk að taka að sér mál sem þyrftu alvöru umfjöllun og skemma fyrir með vitleysishegðun og ofbeldi.
Og því er staðan þannig að hinn venjulega Jón á Íslandi fagnar nú þessum veiðum. Á kolröngum forsendum. Látum ekki einhverja útlendinga segja okkur hvað hér er best. Þjóðremba í stað skynsamlegarar umræðu.
Það er merkilegt að nú gerist þetta eins og síðast. Enginn undanfari, engin umræða. Geir sáttur en Ingibjörg ekki. Af hverju vissi enginn af þessu? Er þetta eitthvað sem við þurfum að skammast okkar fyrir?
Erum við kannski að fórna stærri hagsmunum fyrir minni? Hef ekki hugmynd og það er ekki nógu gott. Mig langar ekki að vera sjálfkrafa með eða á móti.
Veit því ekkert í minn haus.
Röggi.
þriðjudagur, 20. maí 2008
Hrefnuveiðar.
ritaði Röggi kl 12:22
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Óheppilegt að taka dæmi af breskum refaveiðum í þessu samhengi.
Því þessi sama breska ríkisstjórn og amast nú við hvalveiðum okkar, bannaði einmitt refaveiðar 2004 þrátt fyrir mikla óánægju landsbyggðafólks.
Ekki á þeim forsendum að refir væru í útrýmingarhættu - heldur einmitt með þeim rökum að veiðarnar væru viðbjóðslegar.
Þeir eru þó amk sjálfum sér samkvæmir í þessu efni Bretarnir...
Skrifa ummæli