fimmtudagur, 8. maí 2008

Hvað kostar að aka of hratt?

Minnir að ég hafi lesið það einn daginn haft eftir afbrotafræðingi að hertar refsingar hefðu ekki fælingaráhrif. Þá hlýtur það að vera rétt. Kannski er forhertum glæpamanninum í raun slétt sama hvort refsingin við glæpnum hljóðar uppá eitt ár eða tæp tvö. Atvinnumennskan er líklega öðruvísi hvað þetta varðar.

Ég er að hugsa um refsingarnar sem við sem ökum göturnar eigum yfir höfði okkar. Hef sem betur fer sloppið sæmilega frá laganna vörðum í gegnum tíðina og það ber að þakka. Fór þó að hugsa um hvort ekki væri sniðugt hjá lögreglunni að auglýsa og upplýsa vegfarendur um hvað það kostar að aka of hratt? Eða að fara yfir á rauðu.

Mér skilst að það geti hlaupið á tugum þúsunda hvort þú akir á 101 km eða 110 km. Ekki vissi ég það. Er nokkuð viss um svona upplýsingar hafi fælingaráhrif.

Sumt er skrýtið. Nú kostar 5 000 að tala í síma án búnaðar en það er einmitt sama upphæð og þú þarft að reiða fram ef þú gleymir skírteininu heima. Þó er ekki vitað til þess að það hafi valdið slysum að vera ekki með teinið í veskinu.

Legg eindregið til að lögreglan noti þessar upplýsingar til þess að halda mér í skefjum í umferðinni. Ég tími ekki að borga þetta. Þá er sigur unninn.

Röggi.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Einhverra hluta vegna get ég ómögulega séð fyrir mér að þú brjótir reglur um hámarkshraða...amk ekki alvarlega! En hvað veit ég svo sem....kannski ertu algjör ökuníðingur Rögnvaldur!?
Kv. H

Nafnlaus sagði...

Þeir sem til þekkja, og hafa orðið vitna að fumlausum akstri Rögga, vita að það er ekki séns að gamli maðurinn brjóti reglur um hámarkshraða...

...til þess ekur hann of hægt


Guðni

Nafnlaus sagði...

Þetta grunaði mig. Sé hann einhvern veginn ekki brunandi um með vindinn í hárinu:)