laugardagur, 6. september 2008

Stigið varið.

það hlaut að koma að því. Ólafur landsliðsþjálfari er búinn að taka sóttina. Finnur þrýstinginn og pressuna og verður einhvern veginn hálf vanmáttugur. Hann er smátt og smátt að tapa sínum áður sjarmerandi einkennum og hljómar nú nánast eins og langþreyttur landsliðsþjálfari.

Nú skal stigið varið. það er að segja stigið sem hann telur að við höfum í hendi áður en flautað er til leiks. Þessi málflutningur hefur aldrei heillað mig. Svona tala þeir sem ekki ætla að ná árangri, þeir sem eru hræddir og í vörn.

Við höfum að sjálfsögðu ekkert stig þegar flautað er til leiks til að verja. Stigið sem Óli girnist er stig sem við þurfum að sækja. Á þessu tvennu er reginmunur.

Við tölum okkur stundum niður fyrir leiki. Tölum mikið um að verjast og gera ekki mistök og ekki fá á okkur mörk og sérstaklega ekki snemma. Við erum allt að því komin í nauðvörn áður en til leiks kemur.

Hvenær fáum við þjálfara sem þorir að nefna það að hann vilji skora mörk og jafnvel sigra. Okkar menn eru orðnir svo lafhræddir við að fá á sig mark að stundum þegar það gerist, og það gerist yfirleitt, þá hrynur planið í heilu lagi.

Legg til að við sækjum að lágmarki eitt stig í leiknum í dag.

Röggi.

Engin ummæli: