þriðjudagur, 16. september 2008

Taktleysi.

Ég þyki fremur ferkanntaður maður. Fer ekkert sérstaklega mikið út fyrir kassann. Reglur eru reglur og undantekningar fáar. það er oftast best í opinberri stjórnsýslu því þá aukast líkurnar á gagnsæi og að allir séu jafnir.



Þess vegna hlýt ég að skilja vel að Árni fjármála hafi nú kært ljósmæður. Augljóst virðist að þær hafi brotið af sér. Tilgangurinn helgar ekki meðalið eins og ég hef oft sagt því ekki er nokkur leið að leggja eitthvert algilt mat á það hvenær tilgangurinn er nógu góður til að eðlilegt sé að fólk komist upp með að brjóta af sér.



það að hafa samúð með kjarabaráttu þeirra er eitt en að styðja ólöglegar aðferðir er annað. Allir verða að hafa leikreglur að leiðarljósi þó tekist sé á. Til þess eru þær enda engin efi að ljósmæður myndu leita réttar síns teldu þær á sér brotið.



Hitt er svo annað hvort þetta sé sérlega taktvisst hjá Árna. Hann er reyndar ekki sérlega taktviss almennt finnst mér og nýtur ekki mikillar hylli. Það getur stundum verið eðlilegt fyrir mann í hans stöðu sérlega í niðursveiflunni núna. Þarf stundum að vera boðberi vondra tíðinda.



Efast um að þessi tímasetning sé gáfuleg. Hefði ekki verið hægt að skoða þetta síðar í stað þess að hella olíu á eldinn sem logar orðið um allt samfélagið vegna þessarar deilu? Tímasetningar og taktur skiptir öllu í pólitík.



Hér hleypur Árni upp á skeiðinu...



Röggi.

Engin ummæli: