mánudagur, 29. september 2008

Upphafið að endinum?

Það hefur verið þannig hér að margir hafa trúað því að Jón Ásgeir væri ósigrandi. Fjármálaséní sem ekkert biti á. Reyndar hafa verið örfáir efasemdarmenn. Þeir hafa að jafnaði verið afgreiddir sem fávitar eða viljalaus verkfæri í höndum geðveiks manns sem heitir Davíð Oddsson.

Þeir eru nefnilega merkilega margir sem halda að allt snúist um stjórnmál. Menn næra þá hugsun með sér enda sjálfir pikkfastir í þeim forarpytti. það hefur ekkert með stjórnmál að gera hvernig þessir kappar hafa rekið sín viðskipti.

Kannski er komið að skuldadögunum núna þó ég efist ekki um kapparnir sjálfir muni eiga til hnífs og skeiðar. Frá mínum bæjardyrum séð erum við öll nú að súpa seiðið af ruglinu í þessum mönnum árum saman.

Héldu kannski einhverjir að peningarnir sem hurfu í Sterling þvælunni frægu kæmu af hinum ofan? Sjóðir banka og fyrirtækja í eigu þessara gaura eru ekki ótæmandi þó vasar þeirra sjálfra taki lengi við...

Vonandi hefur þetta ekki þau áhrif að fleiri fyrirtæki í eigu Jóns Ásgeirs fari til fjandans. 365 er varla í góðri stöðu fyrir. Ekki ólíklegt að nú verði drifið í að reyna að selja verðmætustu eignina, Fréttablaðið á meðan enn er hægt að finna einhver fyrirtæki til að auglýsa í því blaði.

Mér finnast aðgerðir seðlabankans góð tíðindi. Vörn snúið í sókn. Og það sem best er, við förum kannski að losna við ævintýramenn sem virðast hugsa fyrst og fremst um það hvernig megi nú ná sem mestu í eigin vasa og skilja svo eftir sviðna jörð.

Kannski finnst einhverjum að þetta séu allt hreinar tilviljanir allt saman. Alger óheppni bara. Alþjóðleg kreppa skipti þarna höfuðmáli. Enginn vafi á að hún hjálpar ekki til en það gerir eignarhaldið hér ekki heldur.

Og svo finnst örugglega mörgum að einhvern veginn hljóti þetta allt saman að vera Davíð að kenna.....

Röggi.

Engin ummæli: