mánudagur, 2. mars 2009

Gamla góða Samfylkingin.

Á meðan Sjálfstæðismenn ætla að reyna að horfa og hugsa inn á við í kjölfar náttúruhamfara okkar situr gamla Samfylkingin hnarreyst í fílabeinsturni sínum og plottar og planar. Allt snýst um að hanna atburðarás og niðurstöður. Klækjapólitíkin er þar fædd og uppalin og dafnar sem aldrei fyrr.

Nú er hreinlega leitun að Samfylkingarfólki sem skilur hvað Ingibjörg Sólrún er að fara. Mér fannst hún standa sig vel eftir bankahrunið. Fárveik kom hún heim og stóð sterk við hlið Geirs. Létthugsandi samflokksmenn hennar og ráðherrar vildu helst flýja af vettfangi en hún stóð fast á sínu og kom áætluninni sem nú er unnið eftir á koppinn nánast ein síns liðs, með okkur Sjálfstæðismönnum. Engir aðrir stjórnmálamenn hafa síðar komið með betri áætlanir. En nú er heldur betur tekið að halla undan fæti hjá Ingibjörgu.

Núna þegar eina baráttumál flokksins er í höfn situr ekkert eftir. Nýinnfluttur norskur seðlabankastjóri byrjar á því að tilkynna að gjaldeyrishöft verði hér áfram. Við þurftum ekkert að flytja þá visku inn frá Noregi. Framsóknarflokkurinn þumbast við að koma með hugmyndir sem vinstri flokkarnir nenna ekki einu sinni að sinna. Þeir eru bara á sjálfstýringunni sem Geir smíðaði með gjaldeyrissjóðnum. Þessi ríkisstjórn er bókstaflega ekki að gera neitt. Og ef Steingrími tekst ekki að eigna sér vaxtalækkunina sem áætlunin gerði ráð fyrir núna verður heldur fátt um fína drætti.

Þjóðin bíður furðu þolinmóð eins og fjölmiðlarnir sem eru greinilega stútfullir af fólki sem ekki getur gagnrýnt neitt nema það sem kemur frá hægri. Doðinn er alger og loftið úr mótmælum sem voru auðvitað ekkert annað en flokkspólitísk eins og hverjum manni ætti nú að vera fullljóst. Af hverju er fullkomnu aðgerðarleysinu ekki mótmælt? Hvar er Hörður?

Það verður spennandi að sjá hvort þetta splúnkunýja forystuplott plott gengur upp. Hvort grasrótin í Samfylkingunni ætlar að láta aðalinn komast upp með að þennan snúning. Hvar er lýðræðisástin og samræðupólitíkin? Hvenær ætla ráðherra flokksins að bretta upp ermarnar nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn er ekki fyrir? Hvað stendur í veginum spyr ég?

Sennilegast er að sjónhverfingameistarar flokksins muni reyna að þreyja þorrann fram yfir kosningar með þvaðri um að vonda fólkið í Sjálfstæðisflokknum hafi skilið svo illa við að ekki sé hægt að gera neitt. Fyrr en eftir kosningar auðvitað...

Þá mun Samfylkingin bjóða okkur upp á sama fólkið og fyrr. Í nýjum hlutverkum að hluta og búið að velja sér erfðaprinsa og prinsessur eftir hentugleika sem allur miðast við að halda völdum hvort heldur sem er innan flokks eða í stjórnarráðinu.

Hvað sem tautar og raular.

Röggi.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hárrétt hjá þér, Röggi.

Við fáum að heyra það frá Samfylkingarfólki að hrunið sé Sjálfstæðsflokknum og stefnu hans að kenna.
Þetta verður sú Mantra sem allt Samfylkingarfólk og leigupennar Samfó munu kyrja fram að kosningum.

Þetta er gamalkunn áróðursaðgerð hjá Samfó. Að kyrja eitthvað í sífellu þangað að það verður að "sannleika".
Þetta gerðu (einelti) þau fyrir kosningar 2007 gegn Framsóknarflokknum.
Þetta gerður þau gegn Davíð Oddssyni til að koma honum úr Seðlabankanum.
...og þetta ætla þau að gera gegn Sjálfstæðisflokkunum fyrir næstu kosningar.
Í það sinn mun þetta ekki takast hjá þeim. Sjálfstæðisflokkurinn er einfaldlega of stór munbiti fyrir Samfól.
Maður heggur ekki í sama knérunn oftar en tvisar.

Nafnlaus sagði...

Samfylkingin ber höfuðábyrgð á hruninu. Kom ekki Bankamálaráðherrann úr þeirra röðum?