laugardagur, 21. mars 2009

Össur fabúlerar um Sjálfstæðisflokkinn.

það er uppi á Össuri typpið eins og stundum áður og nú hefur klækjameistarinn sjálfur komið auga á plott hjá okkur Sjálfstæðismönnum. Hann trúir auðvitað á að allt sé hannað og plottað eins og gjarnan gerist í hans flokki. Karlgarmurinn nauðaþekkir slík vinnubrögð enda hefur ekkert gerst í leiðtogamálum Samfylkingar hvort heldur er í Reykjavík eða á landsvísu öðruvísi en að um það sé vélað í fjölskylduboðum rétthugsandi klíkumeðlima.

Svo fer spunadoktorinn að rýna í framtíð Sjálfstæðisflokksins og hvert hann ætli sér að leita eftir kosningar. Mælitækið sem hann notar á okkur er tækið sem hann beitir að jafnaði á sinn eigin flokk. Á þeirri mælistiku glidir eitt og aðeins eitt. Hvaða málefni þarf ég að setja á oddinn þennan daginn til að ég geti nú örugglega verið ráðherra.

Hann telur auðvitað að formannsefni Sjálfstæðisflokksins ætti að skoða málefnaskrár annarra til að komast að því hvað skoðun er heppileg. Það er aðferð sem passar bara ekki öllum. Bjarni Ben vaknar ekki kjarklaus alla daga heldur þorir að hafa skoðanir og afstöðu. Jafnvel þó þær henti ekki fullkomlega taktískt í augnablikinu. Slíkur þankagangur er félaga Össur ókunnur.

Þeir stjórnmálamenn sem ekki þora út fyrir rammann sem smíðaður er utan um ráðherrastóla og hvaðhentarbest stjórnmál eru léttvægir fundnir eins og kjósendur í prófkjöri Samfylkingar hafa nýverið hnykkt á í tilfelli Össurar sem sér þó ekki merkin sjálfur heldur hnýtir í menn eins og Bjarna Ben af engu tilefni.

Hvort Sjálfstæðisflokkurinn hentar félaga Össur eftir kosningar snýst auðvitað ekkert um málefni enda eru þau að jafnaði talsvert á reiki hjá Samfylkingunni. Össur mun koma blaðskellandi í fangið á hvaða þeim formanni sem Sjálfstæðisflokkurinn velur eftir kosningar ef hann telur það henta sér.

Við Sjálfstæðismenn erum að fara að takast á við stór mál og það verður varla þrautalaust með öllu. Á meðan félagi Össur og hans fólk bannar einkadans eru aðrir flokkar sumir að ræða alvöru stjórnmál. Þar verður vonandi svigrúm fyrir nýja vinkla og nýjar nálganir hvort sem það er herfræðilega sniðugt út frá ráðherrastólum dagsins eður ei.

Sorpritið DV hefur nú verið virkjað til þess að reyna að selja fólki að Bjarni sé vafasamur valkostur af því að hann tilheyrir fjölskyldu sinni. Össur kýs að ganga til liðs við svoleiðis aðferðafræði og það mun bara verða honum til minnkunar og minnir okkur á hversu mjög ríður á að losna við þessa tegund stjórnmálaumræðu hvaðan sem hún kemur.

það er eiginlega synd að maður með alla þá kosti sem félagi Össur er búinn geti með engu móti búið sér til almennilega trúverðuga ímynd eða sýnt stefnufestu. Seglum skal alltaf haga eftir vindi.

Núna blása vindarnir til vinstri og þá snýr Össur þangað. Hvert hann snýr eftir kosningar veit enginn eða hvaða málefni munu ráða afstöðu hans. Ef eitthvað er að marka grein hans í dag tekur hann helst afstöðu út frá því hvernig hægt er að smyrja saman ríkisstjórn og hæðist svo að þeim sem eru að láta málefni þvælast fyrir sér.

Röggi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þið eruð svo mikið drasl að þið verið bara til í sögubókum sem að líkindum verða læstar framtíðar kynslóðum í dimmustu kjöllurum helvítis.