föstudagur, 13. ágúst 2010

Gylfa verður fórnað

það er ekki tekið út með sitjandi sældinni að vera Gylfi Magnússon núna. Hann er ekki stjórnmálamaður í sinni tærustu mynd og nú þegar hann liggur vel við höggi hefur hann því ekkert bakland. Fátt mun því verða honum til bjargar enda ekkert kjördæmi í hættu þó honum sé fórnað.

Gylfi var auðvitað ekki í góðri aðstöðu til þess að básúna þetta lögfræðiálit á sínum tíma. Um málið ríkti réttaróvissa og allt hefði farið á hvolf hefði hann talað. Og hvað ef niðurstaða dómstóla hefði orðið á hinn veginn...?

Hann hefur hins vegar komið sér í afleita stöðu núna með þvi að reyna að bulla sig út úr málinu og hinir hefðbundnu stjórnmálamenn og flokkar munu ekki reyna að verja hann. Í því er bæði fegurð og ljótleiki.

Við sjáum alveg bráðónýta ráðherra njóta verndar langt umfram það sem nokkur maður skilur. Gylfi Magnússon verður því afar hentug fórn fyrir þessa afleitu ríkisstjórn að færa þjóðinni á þessum tímapunkti.

Röggi

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hann bullaði sig alls ekki út úr málinu. Hann sagði einfaldlega satt og rétt frá. Það eru kannski mistökin. Síðan þessi dómur er náttúrulega brandari.
Dómstólar búnir að segja að þessi lán séu í lagi í 9 ár, og síðan allt í einu þegar efnahagshrun hefur gengið yfir, þá eru þau í ólagi.
Síðan fólkið sem ber raunverulega ábyrgð á þessu klúðri er í vinnu í ráðuneytunum ennþá, og hvað með alla ráðherrana, sem bera raunverulega ábyrgð.
Hann sem var að gagnrýna ruglið í öllu hérna á sama tíma, er síðan núan kominn í þá stöðu að þurfa mögulega að segja af sér.
Þetta er einfaldlega súrrealískt mál.
Eina sem hann hefur mögulega gert vitlaust er að sýna ekki bara fingurinn, eins og venjulegum stjórnmálamönnum er tamt.
Ég trúi því ekki að honum verði fórnað.
Þetta er svo mikið algjört smáatriði, að það er ekki einu sinni fyndið.
Maður hugsar bara, að ef einhver stofnun eða ráðuneytið hefði birt álit, sem væri á hinn veginn. Það hefði allt orðið brjálað og sagt að ráðherra væri að vinna gegn fólkinu, og hafa áhrif á dómstóla og bla bla bla bla......
.........annars af hverju er maður á annað borð að tjá sig um svona fáránleg málefni ;-)

Nafnlaus sagði...

Slæmt að eini Sjálfstæðismaðurinn í ríkisstjórninni skuli þurfa að víkja, en það er svona þegar Sjálfstæðismaður opnar munninn, hann getur ekki sagt sannleikan.

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus 2,
Þannig að það væri ákjósanlegt, að þínu mati ,að hafa fólk í ríkisstjórn ,sem segði ósatt.
Ég hef vondar fréttir. Allavega einn í ríkisstjórninn fellur ekki undir þessa ósk þína, og það er viðskiptaráðherra.

Nafnlaus sagði...

Hins vegar eru mjög margir sem styðja þessa ríkisstjórn einmitt vegna Gylfa og Rögnu. Þannig að ætlr að reyna að auka vinsældir sínar með því að fórna Gylfa.......

Nafnlaus sagði...

Það er líklega með Gylfa eins og var með Runólf Ág. að valdamiklum aðilum í þjóðfélaginu er ekki þóknanlegt að hann sé í núverandi starfi. - Öllu fólki sem er í sæmilegu jafnvægi er ljóst, að Gylfi hefur sagt satt og rétt frá. Á þeim tíma, sem hann var að svara fyrirspurnunum á þingi, hefði verið afskaplega óvarlegt af honum að fullyrða að lánin væru ólögleg, hvað sem lögfræðiálitum viðvék, þvi dómur var einfaldlega ekki fallinn þá.