miðvikudagur, 31. ágúst 2011

Jón Bjarnason þekkir ekki Kínverjann

Einþáttungur gærdagsins í boði leikhúss fáránleikans.

Jón Bjarnason er spurður út í fjárfestingar og landakaup Kínverjans Huang Nubo sem er að valda óskiljanlegum titringi. Jón setur þarna upp ógleymanlegt bros og mælir þessi orð;

"Ég þekki nú þennan "Kínverja" ekkert. Menn tala um hann eins og hann sé eini Kínverjinn. Ég held að þeir séu nú allmargir til!!...."

Jón Bjarnason er áhrifamesti ráðherrann í ríkisstjórn VG og Samfylkingar

Röggi




þriðjudagur, 30. ágúst 2011

Neikvæður Össur

Ekki ætla ég að deila um það við félaga Össur Skarphéðinsson að neikvæðni hjálpar ekki og jákvæðni og bros á vör er betra veganesti ekki síst þegar á móti blæs. Hann er að fjargviðrast út í stjórnarandstöðuna núna fyrir bölmóð og neikvæðni sem hann telur sérstakan vanda.

Það er ekki tekið út með sitjandi sældinni að vera fastur í samstarfi við VG. Össur sem er einn alskemmtilegasti maður þingsins er augljóslega í verulegum vandræðum með að halda góða skapinu og jákvæðu hugarfari til þess samstarfs og getur ekki skilið að við hin sem þurfum að þola afleiðingar samstarfsins getum ekki komið auga á jákvæðar hliðar þess.

Össur telur það marka tímamót að AGS hefur útskrifað okkur með ágætiseinkunn þó þjóðin skilji hvorki upp né niður í þeirri útskrift. AGS gefur AGS fína einkun fyrir áætlun sem stofnunin gerði við fyrri ríkisstjórn. Þessu ber kannski að fagna....

En fagnaðarlætin ná ekki til þeirrar ríkisstjórnar sem tók við og hefur frá fyrsta degi verið ósamstíga og keyrt eftir gömlu módeli sem stýrt er af mönnum sem fundu lífssannleikann í austur Evrópu snemma á síðustu öld.

Lengi lét Össur þetta allt vera aukaatriði og hélt góða skapinu með því að hafa ekki opinberar skoðanir á því hvað ríkisstjórn Samfylkingar og VG var að bauka. Hann fékk að gera það sem honum var hugleikið að mestu á ferðalögum erlendis og þó þjóð og samstarfsflokkur hefðu ekki góðan hug til þeirra verka lét hann engan bilbug á sér finna.

Össur er búinn að tapa góða skapinu og ástæðan er ekki erfið stjórnarandstaða enda er það eiginlega út úr karakter hjá Össuri að væla undan ágjöf frá andstæðingum verandi svo veðraður sem hann sjálfur er í þeim bransanum.

Ástæðan er neikvæðnin og dellugangurinn á samstarfsflokknum í stóru sem smáu. VG ályktar eins og stjórnarandstöðuflokkur á verk Samfylkingar og vill stofna rannsóknarrétt, væntanlega undir landsdómsáhrifum, á verk Össurar og Katrínar í ríkisstjórn. Þannig er nú ástandið þar á bæ og vissulega ástæða til að hafa jákvæða sýn á þannig samstarf.....

Ríkisstjórnin er því miður ekki bara ósamstíga heldur fylgir hún stefnu sem eyðileggur og tefur fyrir bata þó vissulega sé augljóst að ekki var önnur leið en upp á við af botninum. Þrátt fyrir VG og samstarfið við Samfylkingu. Það má kannski með mikilli seiglu reyna að halda þvi fram að það sé jákvætt.

Neikvæðustu fréttir sem okkur berast eru því miður ekki bara frá stjórnarandstöðunni. Hver og einn einasti hagsmunaaðili á vinnumarkaði hefur gefið afrekum Össurar og félaga í efnahagsmálum falleinkunn. Tillögur um breytingar á fiskveiðikerfinu okkar eru aðhlátursefni sem ríkisstjórnin vonar svo heitt að komi ekki til afgreiðslu í þinginu.

Ráðherrar opna ekki svo munninn að ekki hrökkvi út úr þeim frumleg hugmynd að nýjum sköttum á deyjandi heimili og atvinnulíf. Seðlabankinn undir forystu Más Guðmundssonar höfundar peningamálastefnu bankans til áratuga rær svo af krafti gegn allri skynsemi með vaxtahækkunum.

Hún er ekki falleg myndin sem ég dreg upp og neikvæðnin lekur af hverju orði. En svona er nú staðan bara þó einhverkir geti látið framsetningu mína á staðreyndunum fara í taugar sínar. Ég er af grundvallarástæðum á móti þeirri stefnu skattahækkana og ríkisvæðingar sem þessi stjórn aðhyllist af sannfæringu.

Málflutningur þeirra sem eru andstæðingar þeirrar stefnu getur vissulega orðið neikvæður jafnvel þó vel væri að takast til. En þegar jafn hörmulega er að takast til og núna er ekki hægt að ætlast til þess að gleðirík jákvæðni heyrist úr horni stjórnarandstöðu.

Neikvæðustu viðbrögð sem heyrast þessa dagana kona innan úr ríkisstjórninni sjálfri og það er það sem er að plaga Össur Skarphéðinsson.

Röggi

mánudagur, 29. ágúst 2011

Girðingar og frelsi

Ögmundur Jónasson er mesta afturhald og íhald sögunnar ef frá er talinn Jón Bjarnason en hann lítur sér lögmálum. Um Ögmund geta menn mögulega deilt en það gerir enginn sem vill láta taka sig alvarlega að deila um eðliseinkenni stjórnmálmannsins Jóns Bjarnasonar.

Þeir eru sömu náttúru og á þeim er ekki eðlismunur heldur stigs. Þessi menn hafa sértakt óþol gagnvart frelsi og einkaframtaki. Ef þeir réðu, og þeir eru býsna nálægt því, þá værum við öll og launin okkar líka þinglýst ríkiseign og til ráðstöfunar sem slík.

Við myndum loka landamærunum fyrir öllu sem erlent er nema þegar við þurfum erlend lán. Þau eru góð en erlend fjárfesting er vond. Hver vill leyfa útlendingum að græða hér og skila tekjum og sköttum inn í hagkerfið á meðan við getum eytt skatttekjum okkar í greiðslur af erlendum lánum? Útflutningur er svo æði en innflutningur bölvaður kapitalismi.

Þessi menn hafa eftir bankahrun heimsins fundið sér stuðningsmenn sem telja að við getum fundið farveginn með höftum og bönnum í stað einstaklingsfrelsis og frumkvæðis. Til reyndist fólk sem trúir því að frelsi sé vandamál og okkar mál séu best meðhöndluð af misvitrum stjórnmálamönnum eða æviráðnum embættismönnum.

Kannski er það mátuleg refsing fyrir okkur að fá fjögur ár af þessum mönnum við stjórn og vonandi finnum við eftir það jafnvægið milli óhefts frelsis og öfga vinstriríkisrekstrar. Einhversstaðar þar á milli er leiðin en eitt er víst að þeir kumpánar Ögmundur og Jón munu aldrei þekkja þá leið.

Ég geng ekki gruflandi að því að í kringum frelsið þarf girðingar. En þeir sem nú ráða ríkjum í stjórnarráðinu vilja bara girðingar og ekkert frelsi.

Röggi


laugardagur, 27. ágúst 2011

Skyldulesning; Jón Steinsson í fréttablaðinu í dag

Ég legg það til við ritstjórn eyjunnar að benda fólki á að lesa grein Jóns Steinssonar hagfræðings í Fréttablaðinu í dag sem fjallar um þá ákvörðun Geirs Haarde að setja neyðarlög og láta bankana fara á hausinn fremur en að reyna að bjarga þeim.

Í þessari grein lýsir Jón því mjög vel við hvaða kjör Geir Haarde bjó þegar hann tók þessu stóru og hugrökku ákvörðun þvert á ráðleggingar alltof margra., ákvörðun sem hefur í raun gert okkur kleift að halda áfram. Jón setur hlutina í nauðsynlegt samhengi sem hvorki huglausum né skammthugsandi stjórnmálamönnum og fjölmiðlafólki sumu hefur tekist að gera vegna pólitískrar fötlunar.

Kannski má reikna með því að nú verði tekið til við að níða niður fræðimennsku og jafnvel persónu Jóns slíkt hefur ofstækið verið á löngum köflum þegar hrunið er rætt. Slíkar æfingar munu þó ekki koma í veg fyrir að sannleikurinn í þessu máli sem og öðrum leitar alltaf upp á yfirborðið.

Þess má svo geta að Geir Haarde situr og bíður þess að landsdómur taki mál sem Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Sigfússon höfða gegn honum. Sú ákvörðun er lægsti punktur í okkar pólitísku sögu og sú ákvörðun var ekki tekin undir neinum öðrum formerkjum en pólitík stundarhagsmuna.

Sem betur fer höfðum við ekki slíkan mann í forsætisráðuneytinu dagana örlagaríku. Geir Haarde er ekki fullkomnari en aðrir menn og ríkisstjórn hans gékk ekki minna grunlaus að því en aðrar að bankarnir voru í vandræðum. Heimurinn var að hrynja framan í öll heimsins fjármálaeftirlit og ríkisstjórnir en hér á landi telja pólitískir andstæðingar að einn maður hefði bæði getað og átt að sjá þetta og redda svo málinu. Þessi skoðun verður æ fáránlegri eftir því sem lærum meira.

Um þetta fjallar grein Jóns meðal annars og margt fleira sem mjög margir hefðu gott af því að lesa. Ég set reyndar ekki allan lífeyrsissparnaðinn minn á að ritstjórn eyjunnar telji þessa grein merkilega....

Röggi

fimmtudagur, 25. ágúst 2011

Órökstutt tal um jonas.is

jonas.is skrifar enn einn tímamóta pistilinn á síðuna sína í dag. Þar hefur hann uppi skoðun á málflutningi formanns félags sauðfjárbænda. jonas.is telur þann mann tala án rökstuðnings en hefur svo ekkert fyrir því að rökstyðja þá fullyrðingu frekar sjálfur.

jonas.is tekur nefnilega þátt í opinberri umræðu og beitir þá gjarnan fyrir sig stóryrðum og fullyrðingum sem eru stundum algerlega órökstuddar en ná eyrum fólks sem þarf ekki á rökstuðningi að halda.

jonas.is telur sig undanþeginn þeirri reglu að þurfa að rökstyðja neitt sjálfur og þolir engum að hafa athugasemdir við skrif sin.

Það er hans þátttaka í upplýstri rökstuddri opinberri umræðu.

Röggi

miðvikudagur, 24. ágúst 2011

Hroki Ólínu

Ólína Þorvarðardóttir veit allt best. Hún er varaformaður sjávarútvegsnefndar og hún ætlar að keyra kvótafumvarpið í gegn sama hvað tautar og raular. Hún er að leiðrétta og lagfæra segir hún og tekur ekki mark á gagnrýni.

Enda öflugir aðilar sem halda úti andófi, nefnilega þeir sem græddu mest og sitja á gróðanum á meðan við hin töpum. Ólína höfðar til tilfinninga sem lifa góðu lífi með þjóðinni núna. Hún spilar á reiðina og helsærða réttlætiskenndina.

Ég geri ekki athugasemdir við upphaflega hugsun varaformannsins og skil hvað rak hana af stað. Nýlegt mat Landsbankans á því tjóni sem frumvarpið mun valda truflar Ólínu ekkert. Hún tekur ekki mark á slíku smotteríi.

Bankinn kemst að þeirri niðurstöðu að ekki einungis muni lánastofnunin sjálf verða fyrir alvarlegum búsyfjum heldur og ríkissjóður og þjóðin öll með skertum lífskjörum til langframa. Arðsemi greinarinnar muni minnka og endurnýjun útilokuð.

Nú er það þannig að þetta álit bankans er eiginlega alveg samhljóma allra annarra hagsmunaaðila sem um málið hafa fjallað. Allt í kringum borðið. Sjómenn og útgerðarmenn. Verkalýðshreyfing og atvinnulíf. En nei....

Ólína veit betur og lætur ekki þessi vondu öfl í þjóðfélaginu trufla sig. Réttlætiskennd margra er aum vegna kvótakerfissins. það er staðreynd sem ekki er hægt að horfa framhjá. Þess vegna sest löggjafinn niður og býr til nefndir til að fara ofan í málið.

Ef lagfæringarnar gera illt verra og eyðileggja frekar en lagfæra er verra af stað farið en heima setið. Er gott að berja höfðinu við steininn? Af hverju geta atvinnustjórnmálamenn eins og Ólína leyft sér að tala niður til þeirra fjölmörgu sem hafa með málefnalegum hætti haft skoðun í málinu?

Hún heimtar leiðréttingu og réttlæti og það hljómar svo vel og er skiljanlegt. En ef frumvarpið nær ekki tilgangi sínum Ólína af hverju er því þá haldið til streitu? Þetta er barnaskólavinna. Skilgreinum verkefnið og finnum leiðir til að leiðrétta. Vandann þykjast menn hafa séð en leiðina til að leiðrétta og lagfæra alls ekki.

Um það eru allar aðilar málsins sammála og mun fleiri reyndar. En stjórnmál lúta undarlegum lögmálum. Stjórnmálamenn viðurkenna aldrei mistök og ef málið lítur vel út á yfirborðinu og er líklegt til skyndivinsælda þá er það það eina sem skiptir máli.

Þess vegna leyfir Ólína sér að tala af hroka og lítilsvirðingu til þeirra sem hafa málefnalega talað til hennar.

Röggi

þriðjudagur, 23. ágúst 2011

Úrsögnin

Ég hef varla skilið hvað rekur Guðmund Steingrímsson í pólitík. Kannski hefur honum fundist hann þurfa að feta þann veg verandi sonur pabba síns. Guðmundur sem er skemmtilegur og áheyrilegur oft hefur ýtt undir þessar pælingar með flakki á milli flokka hægri vinstri.

Í gær skrifaði hann svo nýjan kafla þegar hann ákvað að vera ekki Framsóknarmaður lengur. Það er vissulega engin höfuðsynd en trúverðugleiki Guðmundar þolir bara svo illa fleiri stórtíðindi af þessum toga.

Við lifum skrýtna tíma í póitísku tilliti. Stjórnmálaflokkarnir sjálfir eiga fullt í fangi með að finna sér stöðu í heimi þar sem fátt er eins og það var. Stór grundvallarmál standa óútkljáð og skoðanir liggja þvers og kruss á milli flokka sem eru að reyna að koma sér upp afstöðu sem hentar öllum innanborðs með erfiðismunum oft. Í því ljósi er kannski ekki undarlegt að einhverjir falli fyrir borð og finni sig ekki....

Guðmundur er með skoðanir og sannfæringu fyrir þeim sem hann lætur ráða eins og síðast þegar hann færði sig til, og þar áður einnig. Mér finnst eins og ég hafi heyrt eitthvað svipað áður. Flokkarnir yfirgáfu Guðmund og hann er því á berangri með skoðanir sínar sem hann segir eiga hljómgrunn allsstaðar.

Guðmundur vonast til þess að geta leitt saman fólk úr öllum áttum sem hafa sömu sýn á pólitíkina og hann. Guðmundur virkar allt að því rómantískur þegar hann talar um væntanlegan flokk utan um þessar skoðanir. Og þessi flokkur verður öðruvísi en fjórflokkurinn auðvitað. Það hafa þeir allir verið...

Ekki vitlaus hugmynd kannski en spurning hvort ímynd Guðmundar sem hins ístöðulausa stjórnmálamanns mun draga að fólk og fylgi.

Þetta er þá kannski enn ein atlagan að fjórflokknum sem hingað til hefur staðið slíkt af sér.

Af hverju ætli það sé?

Röggi






















mánudagur, 22. ágúst 2011

Harpa, Bubbi og vip partýið.

Og allt ætlar um koll aða keyra vegna Hörpu. Ljósin eru ekki eins svakalega stórkostlega geggjuð og einhver vonaði. Bubbi kóngur pirrar sig á því að leigður hafi verið skemmtibátur fyrir útvalda og þar drukkið kampavín yfir dýrðinni. Bubbi má svo dylgja um fólk þegar honum hentar en skammar svo aðra fyrir það sama....

Þetta er svo skemmtilegt. Kverúlantarnir eru í stuði og vilja ýmist meiri íburð eða minni nú eða allt öðruvísi íburð. Við höfum líklega aldrei haft efni á að byggja nokkurn skapaðan hlut og hvað þá að fagna því með kampavíni og kruðeríi.

Hvar er allt fólkið sem vildi blæða 30 eða 40 þúsund milljónum í húsið? Nú er þetta allt í einu sálarlaus og ljót bygging sem stjórnað er af fólki sem hugsar um fátt annað en veislur og kann ekki að gleðja þjóð sem vill miklu meira ljósashow.

Hvaða máli skiptir það þó stjórnendur hafi gert sér og útvöldum dagamun? Af hverju er mér ekki boðið í allar fínu veislurnar sem Bubba er boðið í til að geta stillt mér fallega upp fyrir séð og heyrt? Allt í einu vill enginn kofann og mér finnst ég hafa upplifað þetta í hvert skipti sem við höfum gert eitthvað. Perlan, ráðhúsið, borgarfjarðabrúin, síminn, litasjónvarpið, keflavíkuflugvöllur, 200 ára afmæli Reykjavíkur........

Eftiráspekingar með nölduráráttu hafa alltaf verið til og verða áfram. Harpa er bruðl og það vissum við og við vissum líka að ekki myndu allir verða ánægðir með allt. Við hefðum líka geta látið okkur detta í hug að sumir yrðu meira aðal en aðrir á tyllidögum. Stjórnendur Hörpu eru ekki að finna það upp og það er enginn glæpur.

Harpa er flott og dýrt partý sem okkur var öllum boðið í.

Röggi




Magnús Orri og markmiðin

Magnús Ori Schram skrifar pistil á eyjuna í dag af því tilefni að formaður Sjálfstæðisflokksins veldur honum vonbrigðum með afstöðu sinni til viðræðnanna við ESB. Allt gott um þau vonbrigði að segja og ég skil þau svo mætavel og mikilvægt fyrir Samfylkinguna að reyna að finna einhversstaðar einhverja viðspyrnu í linnulausum mótbyrnum sem flokkurinn gengur í gegnum.

Það sem vekur furðu við lestur pistilsins er upptalning Magnúsar á þeim atriðum sem hann telur að Samfylking eigi að standa að þjóðinni til heilla. Þar kennir margra grasa og eitt og annað skynsamlegt sem þingmaðurinn telur fram;

"Mikilvægt er að ríkisstjórnin undir forsæti Samfylkingar leggi nú megináherslu á verðmætasköpun og markvissa atvinnusókn. Um leið og gætt er að þeim sem verst standa í samfélaginu á að stefna að nauðsynlegu aðhaldi í ríkisútgjöldum, hófsemi í skattlagningu, ábyrgri sókn í orkumálum í anda verndaráætlunar, réttlátri skiptingu arðs af auðlindum og endurskoðun landbúnaðarkerfisins svo auka megi nýsköpun og arðsemi til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. "

Svo mörg voru þau orð og þingmaðurinn hefur verið undrafljótur að læra að setja saman bragðmikinn texta sem hæfir atvinnustjórnmálamanni sem vill leiða umræðuna frá því sem hann er að gera til þess sem hann ætti að vera að gera en gerir þó alls ekki.

Auðvitað geta allmargir tekið undir þessi orð þingmannsins, nema þeir sem styðja þá ríkisstjórn sem Magnús Orri Schram styður. Það fólk hefur ekki leyfi til að halda þessum skoðunum uppi á meðan unnið er gegn þessum ágætu markmiðum af jafn mikilli einbeitingu og einurð og ríkisstjórn VG og Samfylkingar gerir.

Samfylkingin getur ekki látið eins og hún sé ekki í þessari ríkisstjórn. Hvorki Magnús Orri né neinn annar þingmaður í meirihlutanum getur skrifað á sig fjarvistarsönnun þegar kemur að því að gera upp þetta hörmungarkjörtímabil í næstu kosningum.

Enda er það rétt hjá þingmanninum að þetta gerist allt undir forsæti Samfylkingarinnar og við skulum öll muna það. Samfylkingin er akkúrat sá flokkur sem hann er í dag og ekki nokkurt mark takandi á mönnum sem reyna að halda öðru fram.

Röggi

miðvikudagur, 17. ágúst 2011

Er Illugi traustsins verður?

Illugi Jökulsson sem sat í stjórnlagaráði ræðir í dag áhugaverðan punkt þegar hann bloggar um það hvort eðlilegt sé að þingmenn sem ekki njóta mælanlegs trausts séu að véla um tillögur ráðsins sem Illugi sat í.

Nú má vissulega velta því fyrir sér hvort vægi þings eigi almennt að minnka í hlutfalli við niðurstöður skoðanakannana og hvort ekki eigi hreinlega að aftengja löggjafarsamkomuna ef capacent mælir ekki traust yfir ákveðinni prósentutölu.

Við getum tekið þetta lengra og íhugað það hvort hæstirétt eigi ekki að svipta rétti til að dæma í málum mælist traust til hans minnkandi. Hvort fjölmiðill sem selst lítið eigi að fá að hafa skoðun. Þessi listi er endalaus....

Sumir myndu jafnvel velta því fyrir sér hvort stjórnlagaráðið sem Illugi sat í naut nægjanlegs trausts yfirleitt. Illugi fékk reyndar sæti í þessu ráði þegar meirihluti þingsins sem hann bendir nú á að nýtur ekki trausts sniðgékk lög og rétt með eftirminnilegum hætti.

Löggjafar og dómsvald er ekki til skraust eða notkunar eftir smekk eða pólitískum hentugleika þó núverandi ríkisstjórn hafi reyndar stundað þann leik.

Við búum við ákveðið stjórnarfar og til þess að það virki er best að halda sig við prinsippin svo ekki sé hætta á að ríkjandi valdhafar (framkvæmdavald) hverju sinni geti leikið sér með fjöreggið sem lýðræðið er allt eftir hentugleika.

Ætli Illugi hefði sérstakar áhyggjur af trausti þings ef hann hefði fulla sannfæringu fyrir því að þingið gerði eins og honum finnst rétt að gera?

Ó nei....

Röggi


Hvar er Hörður Torfa núna?

Þeir eru margir sem hafa virkan áhuga á seðlabanka Íslands. Hörður Torfason er einn þeirra og Bubbi bloggari líka. Þessi kappar fóru mikinn fyrir hrun í "faglegri" gagnrýni sinni á bankann og stóðu fyrir allskyns uppákomum og mótmælum við bankann. Þeir voru umboðsmenn sannleikans og þjóðarinnar...

Nú hlýtur Hörður Torfason og hans fólk að fara að róta í búsáhaldaskápum sínum og strunsa að bankanum og mótmæla dellunni sem núverandi bankastjóri stendur fyrir. Már Guðmundsson fann upp peningamálstefnu þá sem fylgt hefur verið frá því löngu fyrir hrun. Það er bara þannig...

Og hann framfylgir henni enn í fullkomnum friði. Hann var munstraður í djobbið og bullið í kringum launin hans í upphafi alger farsi. Klassíska pólitíska skítalykt lagði af málinu hátt til himins.

Már Guðmundsson var að hækka vexti á stórskuldug heimili og lamað efnahags og atvinnulíf.

Hvar er Hörður núna?

Röggi

þriðjudagur, 16. ágúst 2011

Aðildarviðræðurnar

Ég veit ekki alveg hvað ég á að halda um þá hugmynd að draga okkur út úr aðildarviðræðum við ESB. Ég hef verið þeirrar skoðunar að best sé að fá samninginn og klára þetta stóra mál eins og menn og una niðurstöðunni. Hinn kosturinn er að þrasa um málið um ókomin ár þar sem trúarleiðtogar beggja megin víglína halda sínu fram.

Og það þras snýst nefnilega einmitt um efni hugsanlegs samnings við þetta heimsmet í miðstýringu sem ESB er. Ég veit að á málinu eru ýmsar hliðar og til eru ágæt rök með og á móti þvi að hætta á þessum tímapunkti.

Samningsstaða okkur er veik og sundurlaus ríkisstjórn með málið á sinni könnu og hvorki þjóð né þing með nokkra sannfæringu fyrir aðild og jafnvel ekki viðræðunum sjálfum.

Kannski má halda því fram að það þjóni hagsmunum þeirra sem vilja inn að draga sig út núna því alls ekkert bendir til þess að hægt verði, í fyrirsjáanlegri framtíð, að koma með nokkurn þann samning sem fengi brautargengi þjóðarinnar.

Á sama hátt væri mögulega hægt að halda því fram að andstæðingar aðildar gætu séð hagsmuni í því að drífa óvinsælt málið í gegn og kolfella það með hraði.

Það er margt í mörgu....

Röggi

fimmtudagur, 4. ágúst 2011

Ólund fótboltaþjálfara

Það er ekki tekið út með sitjandi sældinni að vera fótboltaþjálfari. Meira að segja á hinu litla Íslandi er gríðarpressa og álag. Reyndar er pressa á öllum hvort sem um er að ræða stjórnarmenn, leikmenn eða dómara. Þetta er orðinn alvöru bransi og peningar skipta máli.

Umfjöllun um fótbolta eykst stöðugt og fyrir því eru góðar ástæður. Fótbolti er vinsælasta greinin og sú stærsta. Í fótbolta verða til stjörnur á innlendan mælikvarða sem verða svo fyrirmyndir íþróttaæskunnar hvort sem þeim líkar það betur eða verr.

Þetta gildir líka um þjálfarana. Mér sýnist að hér sé að verða til merkilegur kúltúr sem gengur út á það að þjálfarar mæta með ólund og útúrsnúninga að vopni í viðtöl eftir leiki. Reyndar þó helst leiki sem tapast....

Ég kaupi það alveg að eitthvað sé hægt að gera skemmtilegra eftir sára tapleiki en að fara í fimm viðtöl þar sem misgáfulegum spurningum er beint að þjálfurum. En er þetta ekki hluti af starfinu? Nú orðið er það að verða einn spennuþátturinn enn í kringum fótboltann hvernig sumir þjálfarar hegða sér í viðtölum eftir leiki.

Orðhengilsháttur, pirringur og allt að því dónaskapur er ekki góð auglýsing fyrir fótboltann. Og varla er það viðhorfið sem við viljum að íþróttamenn framtíðarinnar tileinki sér þegar á móti blæs.

Röggi