þriðjudagur, 30. ágúst 2011

Neikvæður Össur

Ekki ætla ég að deila um það við félaga Össur Skarphéðinsson að neikvæðni hjálpar ekki og jákvæðni og bros á vör er betra veganesti ekki síst þegar á móti blæs. Hann er að fjargviðrast út í stjórnarandstöðuna núna fyrir bölmóð og neikvæðni sem hann telur sérstakan vanda.

Það er ekki tekið út með sitjandi sældinni að vera fastur í samstarfi við VG. Össur sem er einn alskemmtilegasti maður þingsins er augljóslega í verulegum vandræðum með að halda góða skapinu og jákvæðu hugarfari til þess samstarfs og getur ekki skilið að við hin sem þurfum að þola afleiðingar samstarfsins getum ekki komið auga á jákvæðar hliðar þess.

Össur telur það marka tímamót að AGS hefur útskrifað okkur með ágætiseinkunn þó þjóðin skilji hvorki upp né niður í þeirri útskrift. AGS gefur AGS fína einkun fyrir áætlun sem stofnunin gerði við fyrri ríkisstjórn. Þessu ber kannski að fagna....

En fagnaðarlætin ná ekki til þeirrar ríkisstjórnar sem tók við og hefur frá fyrsta degi verið ósamstíga og keyrt eftir gömlu módeli sem stýrt er af mönnum sem fundu lífssannleikann í austur Evrópu snemma á síðustu öld.

Lengi lét Össur þetta allt vera aukaatriði og hélt góða skapinu með því að hafa ekki opinberar skoðanir á því hvað ríkisstjórn Samfylkingar og VG var að bauka. Hann fékk að gera það sem honum var hugleikið að mestu á ferðalögum erlendis og þó þjóð og samstarfsflokkur hefðu ekki góðan hug til þeirra verka lét hann engan bilbug á sér finna.

Össur er búinn að tapa góða skapinu og ástæðan er ekki erfið stjórnarandstaða enda er það eiginlega út úr karakter hjá Össuri að væla undan ágjöf frá andstæðingum verandi svo veðraður sem hann sjálfur er í þeim bransanum.

Ástæðan er neikvæðnin og dellugangurinn á samstarfsflokknum í stóru sem smáu. VG ályktar eins og stjórnarandstöðuflokkur á verk Samfylkingar og vill stofna rannsóknarrétt, væntanlega undir landsdómsáhrifum, á verk Össurar og Katrínar í ríkisstjórn. Þannig er nú ástandið þar á bæ og vissulega ástæða til að hafa jákvæða sýn á þannig samstarf.....

Ríkisstjórnin er því miður ekki bara ósamstíga heldur fylgir hún stefnu sem eyðileggur og tefur fyrir bata þó vissulega sé augljóst að ekki var önnur leið en upp á við af botninum. Þrátt fyrir VG og samstarfið við Samfylkingu. Það má kannski með mikilli seiglu reyna að halda þvi fram að það sé jákvætt.

Neikvæðustu fréttir sem okkur berast eru því miður ekki bara frá stjórnarandstöðunni. Hver og einn einasti hagsmunaaðili á vinnumarkaði hefur gefið afrekum Össurar og félaga í efnahagsmálum falleinkunn. Tillögur um breytingar á fiskveiðikerfinu okkar eru aðhlátursefni sem ríkisstjórnin vonar svo heitt að komi ekki til afgreiðslu í þinginu.

Ráðherrar opna ekki svo munninn að ekki hrökkvi út úr þeim frumleg hugmynd að nýjum sköttum á deyjandi heimili og atvinnulíf. Seðlabankinn undir forystu Más Guðmundssonar höfundar peningamálastefnu bankans til áratuga rær svo af krafti gegn allri skynsemi með vaxtahækkunum.

Hún er ekki falleg myndin sem ég dreg upp og neikvæðnin lekur af hverju orði. En svona er nú staðan bara þó einhverkir geti látið framsetningu mína á staðreyndunum fara í taugar sínar. Ég er af grundvallarástæðum á móti þeirri stefnu skattahækkana og ríkisvæðingar sem þessi stjórn aðhyllist af sannfæringu.

Málflutningur þeirra sem eru andstæðingar þeirrar stefnu getur vissulega orðið neikvæður jafnvel þó vel væri að takast til. En þegar jafn hörmulega er að takast til og núna er ekki hægt að ætlast til þess að gleðirík jákvæðni heyrist úr horni stjórnarandstöðu.

Neikvæðustu viðbrögð sem heyrast þessa dagana kona innan úr ríkisstjórninni sjálfri og það er það sem er að plaga Össur Skarphéðinsson.

Röggi

Engin ummæli: