fimmtudagur, 4. ágúst 2011

Ólund fótboltaþjálfara

Það er ekki tekið út með sitjandi sældinni að vera fótboltaþjálfari. Meira að segja á hinu litla Íslandi er gríðarpressa og álag. Reyndar er pressa á öllum hvort sem um er að ræða stjórnarmenn, leikmenn eða dómara. Þetta er orðinn alvöru bransi og peningar skipta máli.

Umfjöllun um fótbolta eykst stöðugt og fyrir því eru góðar ástæður. Fótbolti er vinsælasta greinin og sú stærsta. Í fótbolta verða til stjörnur á innlendan mælikvarða sem verða svo fyrirmyndir íþróttaæskunnar hvort sem þeim líkar það betur eða verr.

Þetta gildir líka um þjálfarana. Mér sýnist að hér sé að verða til merkilegur kúltúr sem gengur út á það að þjálfarar mæta með ólund og útúrsnúninga að vopni í viðtöl eftir leiki. Reyndar þó helst leiki sem tapast....

Ég kaupi það alveg að eitthvað sé hægt að gera skemmtilegra eftir sára tapleiki en að fara í fimm viðtöl þar sem misgáfulegum spurningum er beint að þjálfurum. En er þetta ekki hluti af starfinu? Nú orðið er það að verða einn spennuþátturinn enn í kringum fótboltann hvernig sumir þjálfarar hegða sér í viðtölum eftir leiki.

Orðhengilsháttur, pirringur og allt að því dónaskapur er ekki góð auglýsing fyrir fótboltann. Og varla er það viðhorfið sem við viljum að íþróttamenn framtíðarinnar tileinki sér þegar á móti blæs.

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú hefur líklega ekki verið að hugsa um Heimi Hallgrímsson hjá ÍBV þegar þú varst að skrifa þetta.