miðvikudagur, 24. ágúst 2011

Hroki Ólínu

Ólína Þorvarðardóttir veit allt best. Hún er varaformaður sjávarútvegsnefndar og hún ætlar að keyra kvótafumvarpið í gegn sama hvað tautar og raular. Hún er að leiðrétta og lagfæra segir hún og tekur ekki mark á gagnrýni.

Enda öflugir aðilar sem halda úti andófi, nefnilega þeir sem græddu mest og sitja á gróðanum á meðan við hin töpum. Ólína höfðar til tilfinninga sem lifa góðu lífi með þjóðinni núna. Hún spilar á reiðina og helsærða réttlætiskenndina.

Ég geri ekki athugasemdir við upphaflega hugsun varaformannsins og skil hvað rak hana af stað. Nýlegt mat Landsbankans á því tjóni sem frumvarpið mun valda truflar Ólínu ekkert. Hún tekur ekki mark á slíku smotteríi.

Bankinn kemst að þeirri niðurstöðu að ekki einungis muni lánastofnunin sjálf verða fyrir alvarlegum búsyfjum heldur og ríkissjóður og þjóðin öll með skertum lífskjörum til langframa. Arðsemi greinarinnar muni minnka og endurnýjun útilokuð.

Nú er það þannig að þetta álit bankans er eiginlega alveg samhljóma allra annarra hagsmunaaðila sem um málið hafa fjallað. Allt í kringum borðið. Sjómenn og útgerðarmenn. Verkalýðshreyfing og atvinnulíf. En nei....

Ólína veit betur og lætur ekki þessi vondu öfl í þjóðfélaginu trufla sig. Réttlætiskennd margra er aum vegna kvótakerfissins. það er staðreynd sem ekki er hægt að horfa framhjá. Þess vegna sest löggjafinn niður og býr til nefndir til að fara ofan í málið.

Ef lagfæringarnar gera illt verra og eyðileggja frekar en lagfæra er verra af stað farið en heima setið. Er gott að berja höfðinu við steininn? Af hverju geta atvinnustjórnmálamenn eins og Ólína leyft sér að tala niður til þeirra fjölmörgu sem hafa með málefnalegum hætti haft skoðun í málinu?

Hún heimtar leiðréttingu og réttlæti og það hljómar svo vel og er skiljanlegt. En ef frumvarpið nær ekki tilgangi sínum Ólína af hverju er því þá haldið til streitu? Þetta er barnaskólavinna. Skilgreinum verkefnið og finnum leiðir til að leiðrétta. Vandann þykjast menn hafa séð en leiðina til að leiðrétta og lagfæra alls ekki.

Um það eru allar aðilar málsins sammála og mun fleiri reyndar. En stjórnmál lúta undarlegum lögmálum. Stjórnmálamenn viðurkenna aldrei mistök og ef málið lítur vel út á yfirborðinu og er líklegt til skyndivinsælda þá er það það eina sem skiptir máli.

Þess vegna leyfir Ólína sér að tala af hroka og lítilsvirðingu til þeirra sem hafa málefnalega talað til hennar.

Röggi

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ólína hefur enda aldrei verið mikil rekstrarmanneskja. Hún gerir ekki greinarmun á plús eða mínus. Hún hefur fyrst og fremst gert út á atkvæði óánægðra vestfirðinga sem hafa í mörgum tilfellum selt frá sér kvótana, stundum oftar en einu sinni, og vilja nú að stokkað sé í spilabunkanum einu sinni enn, svo viðkomandi stuðningsmenn Ólínu geti farið að fá úthlutað aftur.

Gat samfylking virkilega ekki sent neinn með meiri þekkingu á svæðið í þessa mikilvægu nefnd? Ef ekki er til fólk innan flokksins sem hefur meira vit á sjávarútvegi, þá eru miklar líkur á að sóun og bruðl innan mikilvægustu atvinnugreinar landsins eigi sér stað.

Nafnlaus sagði...

Segði mér Röggi af hverju mundi þorskurinn og aðrar tegundir fisks lækka í verði á erlendum mörkuðum þó einhverjir aðrir veiði fiskinn.
forvitinn

Nafnlaus sagði...

Til hvers á ríkið að gefa kvótann, svo þeir sem taka við honum leigja hann frá sér og hirða gróðann.

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus 2, þú átt mikið eftir ólært ef þú heldur að gæði skipti engu þegar fiskur er annars vegar.

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus 3, ríkið gefur ekki það sem það á ekki.