þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Landssöfnun KR stendur sem hæst.

Nú stendur sem hæst árleg landssöfnun KRinga á leikmönnum í fótbolta. Merkilegt fyrirbrigði sem brestur á á hausti hverju og þá venjulega eftir dapurt gengi sumarið á undan.

Þó er það ekki algilt því þessi söfnunarárátta getur líka orðið all heiftarleg þó vel hafi gengið. Hver kannast ekki við myndir af forráðamönnum KR glaðbeittum á mynd með nýjum liðsmanni sem heldur því fram að nú sé hann kominn heim?

Aðstaðan sé svo góð og þjálfararnir líka. það stendur svosem heima en auðvitað snýst þetta um aura og fátt annað, oftast. það væri að æra óstöðugan að telja upp alla þá afburðaleikmenn sem KR hefur keypt undanfarin ár og breytt í meðalmenn á svipstundu.

Vandi KR virðist alls ekki liggja í þunnum og slökum leikmannahóp. Þar er hver stórstjarnan á fætur annarri. Ég hef ekki lausnina frekar en aðrir en vonandi hressist Eyjólfur því fremur er dapurt að horfa uppá stórveldið lufsast þetta í neðri helmingnum með hvern milljóna drenginn á fætur öðrum í sínum röðum.

Röggi.

Engin ummæli: