mánudagur, 3. desember 2007

Guð bjó til skýin.

Sonur minn sjö vetra, Máni Freyr, er mikill snillingur. Fallegasta og besta barn veraldar auðvitað. Eins og öll önnur börn. Hverjum þykir sinn fugl fagur.

Börn eru heimspekingar. Vorum í einum af fjölmörgum bíltúrum okkar í gær þegar hann upplýsir mig um það að Guð hafi búið skýin til. Þá fórum við að ræða Guð. Það er hættulegt við umræðuefni við hvern sem er og ekki síst hann Mána minn.

Ég segi honum að Guð sé allstaðar. Þá spyr minn, "hvernig veistu?". Stóra spurningin sjálf hvorki meira né minna. Ég segi honum að ég bara trúi því og þá kemur yfirlýsingin, "ekki ég!"

Þetta stefnir í óefni fyrir mig og Guð. Svo spyr Máni mig hvort hann sé inní ljósastaurnum. Og steypuklumpinum sem við ökum framhjá. Hvernig svarar maður svona?

Held að við trúum báðir þannig séð. Og kannski kemur að því að flestir þurfi einhversskonar staðfestingu. Er ekki handviss um að svör mín við spurningum Mána hafi styrkt hann verulega í trúnni.

Ég hins vegar horfi á hann á hverjum degi og veit þá að Guð er til.

Röggi.

Engin ummæli: