fimmtudagur, 20. desember 2007

"ég dæmdi ekki víti"

Ég hef áður skrifað um málefni KSÍ í nútíð og þátíð. Þar hefur verið af nægu að taka. Allt frá því þegar fyrrverandi formaður lét það viðgangast að einn besti sonur íslenskrar knattspyrnu, Guðni Bergs, var gerður útlægur vegna skapgerðabresta þáverandi þjálfara til þeirra óleystu vandamála sem tengjast fyrirliða liðsins í dag. Þá eins og nú virðist dugleysi forystunnar og úrræðaleysi algert.

Gunnar Gylfason FÍFA aðstoðardómari finnur sig knúinn til þess með yfirlýsingu að sverja af sér þátt í ákvörðun Kristinns Jakobssonar félaga síns um að dæma ranglega vítaspyrnu í evrópuleik á dögunum. Kristinn hefur nokkuð áberandi gert Gunnari talsverðan þátt í þeirri ákvörðun.

það liggur í hlutarins eðli að ekki geta báðir haft algerlega rétt fyrir sér í málinu. Ætla ekki að hafa neina skoðun á því af hverju mönnum ætti að vera í mun að segja ekki satt.

En ég spyr. Hvernig getur það gerst að þetta mál fer í þennan farveg? Svona mál hlýtur að verða að leysa innandyra. Hversu mikið hefur gengið á áður en Gunnar ákveður að fara með þetta í blöðin. Var engin önnur útgönguleið?

Þetta er ótrúleg atburðarás og styrkir hvorugan aðila málsins eða KSÍ. Og varla get ég ímyndað mér að þetta verði þeim félögum til framdráttar hjá FÍFA.

Er þetta ekki enn eitt dæmið sem sannar að stjórn KSÍ, formaður og framkvæmdastjóri ráða ekki við sitt?

Röggi.

Engin ummæli: