miðvikudagur, 5. desember 2007

Trúboð í skólum.

Ég hlustaði á afskaplega geðþekkann mann frá siðmennt reyna að ræða við hlustendur bylgjunnar að morgni um það hvort kirkjan eigi að vera í skólum. Hlustendur voru margir reiðir honum en mér fannst margt sem hann sagði auðskilið og vel fram sett og hóflega.

Biskupinn okkar er fremur stóryrtur í garð þessara samtaka finnst mér. Eðlilega segja margir en ég er ekki einn af þeim. Þjóðkirkjan hefur hér algera yfirburði yfir aðra og ætti helst ekki að fara í fýlu þó einhverjir kunni að vilja hafa skoðun á því að kirkjunnar menn komi ekki með beinum hætti að trúaruppfræðslu í skólum landsins.

Ef ég skil þetta rétt þá er alls ekki verið að leggja til að horfið verði frá þeirri námsskrá sem nú er heldur sjái fagmenn, kennarar, um uppfræðsluna en ekki kirkjunnar menn.

Svo er verið að tala um þá nemendur sem ekki tilheyra þjóðkirkjunni. Hvað verður um þá? Skipta þeir engu máli bara af því að þeir tilheyra minnihlutahópi? Hversu stór þarf minnihlutinn að vera til þess að hann skipti máli.

Hvað mælir gegn því að við hleypum þá fulltrúum múslima á Íslandi inní skólana til að sinna trúboði? Mér finnst þetta óþarfa áhyggjur hjá kirkjunni. Ég reikna með því að ákvarðanir um það hvert skal stefnt í trúmálun sé tekin á heimilum en ekki skólum.

Eins og vera ber. Trúboð á ekki heima í skólum að mínu viti sama hvert trúboðið er.

Röggi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

ég er sammála þér að trúboð á ekki heima í skólum, en ég er dálítið ragur við að láta heimilin einráð um trúarlegt uppeldi -
amk. ef það er þannig að heimili og foreldrar geti undanþegið börn sín frá trúarbragðafræðslu (og nú meina ég fræðslu, ekki trúboð).

Þá er stutt í fíflagang eins og tíðkast í miðríkjum USA, þar sem sértrúarfólk af hinu ólíklegasta tagi getur neitað að taka þátt í skólastarfi nema þróunarkenningunni sé hafnað, osfrv.

Þetta hljómar kannski eins og óþarfa áhyggjur, við íslendingar séum nú ekki eins vitlausir og kaninn, en ég er ekki viss um að við séum neitt skynsamari.
(Sjáið td. PISA könnunina, hverjir voru með nánast sama stigafjölda og USA.)