fimmtudagur, 13. mars 2008

Djöfullinn danskur...

Ég er oft spurður um það af hverju ég virðist ekki þola helstu útrásarhetjur Íslands. Þreytist helst ekki á að tala um að þessir stórlaxar flestir hafa nú komið efnahag fyrirtækja sinna og reyndar hagkerfinu okkar á kaldan klaka með fulltingi bankanna. Og flestir þegja þunnu hljóði.

Hannes Smárason var einn af hinum ósnertanlegu. Ósigrandi snillingur og það var ekki fyrr en hann var bannfærður af sínum eigin mönnum að fjölmiðlar tóku til við að hafa skoðanir á honum. Fram að því höfðu flestir staðið og setið opinmynntir yfir snilldinni.

Hér á landi stundum við það að geta illa unað því að útlendingar hafi neikvæðar skoðanir á okkar mönnum. þetta sést vel á því hvernig fullkomlega hlutlausir fjölmiðlar í eigu sumra af þessum víkingum útrásar taka á því að danir hafa nú alllengi reynt að benda okkur á hætturnar

þetta er almennt afgreitt sem öfund og illgirni. Jafnvel í dag þegar margir verstu spádómar danskra hafa gengið eftir látum við ekki segjast. Danir eru fífl. Öfundsjúk fífl sem hafa ekkert betra að gera en að atast í vinnandi mönnum ofan af Íslandi.

Hvað ætli þurfi að gerast svo augun opnist? Pínulítill hópur manna á hér allt þvers og kruss. Menn selja og kaupa af hvor öðrum seint og snemma og við sauðirnir borgum brúsann. Fákeppni er regla. Ógagnsæjið algert. Fyrirtækjum skipt upp og þau seld aftur og aftur áður en þau eru bútuð niður og þá seld á nýjan leik. Milljarður í vasann hér og þar í hvert skipti. Og enginn veit fullkomlega hver seldi og þaðan af síður hver keypti.

Glöggt er gests augað. Af hverju fáumst við ekki til þess að gefa þessum röddum erlendis frá möguleika? Hafa menn þar kannski eitthvað til síns máls? Eða var kannski kappnóg að fórna einu peði til þess að friða okkur? Sameinumst bara um að Hannes Smárason hafi verið vondi kallinn og hann hafi verið vondur án þess að allir hinir hafi vitað af því.

það dugar ekki á mig. Enda mundi ég skyndilega að ég er danskur. Meira og minna. Amma mín var dönsk. Danska blóðið er að rugla mig í ríminu greinilega. Ég ræð þess vegna ekkert við þetta. Við danirnir höfum efasemdir um þessa menn og mig rennur í grun að fyrr en síðar muni Íslenski helmingurinn líka vakna...

Röggi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bara alveg sammála þér, eins og talað út úr mínu hjarta og er Ellismellurinn þó ekki af dönskum ættum það vitað sé! Það var ansi skemmtilegt þegar danskur blaðamaður benti á að íslenskir kollegar hans væru svo hræddir að þeir þyrðu ekki að segja sannleikann. Enginn þorir að minnast á að "útrásarvíkingarnir" hvað svo sem þeir heita, hafi t.d. fengið allan þann mikla kvóta, sem var í eignasafni Burðaráss á sínum tíma, fyrir lítið, selt okkur hann svo aftur og látið okkur skuldsetja okkur fyrir honum - hjá sér auðvitað! Nú og svo hafi þeir náð mestöllu fé lífeyrissjóðanna með því að gabba fávísa stjórnendur þeirra til að kaupa hlutabréf í pappírfyrirtækjum sínum - nú er það fé allt glatað að eilífu og þeira sitja í höllunum sínum í London, Luxembourg og Kýpur og hlæja að þessum fávitum á Íslandi.