föstudagur, 28. mars 2008

Ólund Árna.

Það er nú bara þannig að hér á landi höfum við búið okkur til þjóðfélag sem byggist upp á ákveðnum gildum og grundvallaratriðum. Löggjafinn setur okkur umferðarreglur og við undurgöngumst samkomulag um að fara að þeim reglum. Svo getum við reglulega skipt út löggjafanum. Þá höfum við framkvæmdavald sem sér um reksturinn. Þetta hefur virkað bærilega þó mjög megi auðvitað bæta systemið.

Mörgum finnst framkvæmdavaldið raunar fá að valsa hér um tiltölulega eftirlitslaust. Ekki mikið verið að fetta fingur eða tuða. Víða í kringum okkur eru allskyns nefndir og ráð sem hafa eftirlit með bæði löggjafanum og framkvæmdavaldi. Því var ákveðið að sýna lit í þessum efnum og stofnað var embætti umboðsmanns alþingis. Frábær hugmynd og þangað geta háir og eitthvað minna háir skotið málum.

Ekki verður séð að sá aðili sem sinnir þessu starfi sé eða eigi að vera einhverjum háður. Ekkert sérstakt sem bendir til neins annars en að viðkomandi hafi neina aðra hagsmuni að leiðarljósi en að standa sína plikt.

Nú bregður svo við að einn fulltrúi framkvæmdavaldsins, Árni fjármálaráðherra, þarf að standa reikningsskil gerða sinna gangvart þessu embætti. það gerir hann með eftirtektarverði ólund. það er í besta falli óþolandi ef ekki hreinlega siðlaust.

Árni lætur það fara í taugarnar á sér að spurningarnar liggja allar að því að eitthvað misjafnt kunni að hafa átt sér stað í hans embættisfærslu. Liggur það ekki í eðli málsins að umboðsmaður telur að eitthvað orki tvímælis þegar hann ákveður að taka mál til umfjöllunar?

Ég hirði ekki um það hér að hafa skoðun á röksemdafærslu Árna en er óánægður með hvernig hann talar embættið niður sér til hagsbóta. Stjórnmálamenn sem láta eftirlit með verkum sínum fara í taugarnar á sér með þessum hætti hljóta að skoða það alvarlega hvort þeir séu ekki á rangri hillu. Lýðræðið má aldrei fara í taugarnar á fólki.

Ekki er hægt að þola að menn vegi að stofunum eins og hér gert þegar þær eru einungis að sinna hlutverki sínu. Þetta er reyndar þekkt aðferð. Feðgarnir Jón Ásgeir og Jóhannes hafa að jafnaði beitt þessu. Jón Ásgeir sagðist ekki treysta hæstarétti til þess að komast að eðlilegri niðurstöðu á sínum tíma.

Ætli þetta virki?

Röggi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

"Lýðræðið má aldrei fara í taugarnar á fólki."

Hárrétt! Afbragðsgóður pistill.