föstudagur, 9. maí 2008

Útúrsnúningar borgarstjóra.

Ég "sá" magnað augnablik í útvarpinu í bílnum mínum í gær. þar sat Ólafur borgarstjóri fyrir svörum hjá Sölva sjónvarpsstjórnu á stöð 2. Umræðuefnið ráðning stuðboltans Jakobs Frímanns. Sölvi og Ólafur virtust þarna vera frá sitthvorri plánetunni.

Virkuðu eins og þráhyggjusjúklingar í alvarlegu kasti. Sölvi með sannleikann og réttlætið að vopni spurði sömu spurningarinnar 36 sinnum og fékk jafn oft ef ekki oftar sama svarið, ef svar skyldi kalla. Framganga beggja í raun hlægileg.

Merkilegt að borgarstjóra finnst það vera smámál að formið á ráðningunni skipti máli. Hann einfaldlega veit að þetta er hagkvæmt og ódýrt fyrir borgina. Þetta er stórhættulegur þankagangur enda höfum við sett okkur gangsæjar reglur til þess einmitt að stjórnmálamenn sem "vita" allt betur en aðrir geti ekki komist upp með svona vinnubrögð.

Svo greip borgastjóri til gamla bragðsins að benda á að aðrir hafi nú pottþétt gert það sama og líklega jafnvel enn verra. Þetta er að verða plagsiður hér. Hér svindla menn á hlutafélagalögum og sprenglærðir menn gera skýrslur og benda á að það sé nú svindlað um allan bæ! Svona röksemdafærsla þótti góð og gild fyrir dómstólum hér og því er kannski bara eðlilegt að borgarstjóri telji þetta halda vatni. Fyrir mér er þetta brandari.

Ég fer ekki fram á að stjórnmálamenn hér geri aldrei nein mistök. Þeir eru fólk eins og ég. En ég fer fram á að þeir vinni eftir einföldum leikreglum sem allir standa jafnir fyrir. Þannig og bara þannig virkar systemið.

Stjórnmálamenn sem þurfa að verja heiður sinn og trúverðugleika verða í öllum tilfellum að leggja sig fram um að klára sig af þvi. Það tekst borgarstjóra ekki ef hann ætlar bara að benda á að aðrir séu hið minnsta jafn afleitir en hann.

Röggi.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er nú ekki oft sammála þér Röggi en þarna hittir þú naglann á höfuðið.