sunnudagur, 14. september 2008

Enn um Ögmund.

Ég hef auðvitað aldrei skilið Ögmund Jónasson til fullnustu. Geri mér þó grein fyrir því að hann er ekki illa innrættur og eldhugi er hann klárlega. Hann er núna að þrasa við Sigurð Kára í silfri Egils um þá ákvörðun Ögmundar að misnota sjóði BSRB í pólitískum tilgangi.

Ögmundur skilur alls ekki þessa umræðu. Ekki bara vegna þess að það hentar honum heldur vegna þess að hann bara fattar ekki um hvað málið snýst. Segir bara að hér séu frábærir vísindamenn á ferð sem færa okkur sannleikann eina.

Gæti verið að til séu afburðavísindamenn sem hafa skoðun sem er algerlega á skjön við afstöðu VG? Á sá málflutningur ekki erindi við félagsmenn BSBR?

Tilgangurinn helgar hér algerlega meðalið. Allt er riddara sannleikans heimilt í eilífðar baráttunni fyrir því að berjast gegn öllu sem heitir einka. Hann vill að menn eins og hann sjálfur taki allar ákvarðanir fyrir mig og þig.

Svo eru það menn eins og ég sem vilja hreint endilega að gaurar eins og Ögmundur komi sem minnst að því að taka ákvarðanir fyrir mig.

Röggi.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert undarlega þögull um málefni Eimskipafélagsins...Guðni

Torfi Stefán sagði...

Ég sé ekki hvernig Ögmundur er að misnota sjóði BSRB. Það hefur komið fram oftar en tvisvar að það er fulltrúastjórn BSRB í öllum deildum sem samþykkti að flytja inn þessa sérfræðinga. Í stjórn BSRB sitja menn úr öllum flokkum.
Síðan er það merkilegt að menn eins og Guðlaugur og Geir hafa helst afgreitt umræðuna um sjúkratrygginguna með því að vísa í myndvinnslur Ömma en ekki málefnin sjálf. Það væri nú gaman ef ríkið tæki þann slag.

Annars virðist þú vera undir sömu sök seldur og margir sem kunna ekki að hlusta. Ögmundur hefur aldrei verið talsmaður ráðstjórnarríkjanna sálugu eða alræðisstefnu. Meðal annars flutti hann fréttir frá Afganistan þegar Sovétin réðust þar inn.
Hann hefur aftur á móti verið talsmaður þess að túlka frelsishugtakið ekki of þröngt. Ekki einungis á markaðslegum forsendum heldur frekar hugsa um frelsi einstaklingsins til að lifa, tala og njóta. Þessu getur þú bara náð með því að mæta í t.d. áfangann Heimssaga II- í HÍ, en þar kennir Ögmundur í eina viku. Tekur fyrir pólitíska spekinga á 19.öld.