laugardagur, 27. september 2008

Sýslumannsraunir.

Er ég eini maðurinn sem læt sleifarlag í opinberum rekstri fara í taugarnar á mér? Embættismenn virðast sumir halda að skattarnir okkar standi þeim til boða eins og þeim sjálfum kann að henta hverju sinni.

Aftur og aftur, ár eftir ár lufsast menn áfram og láta eins og fjárveitingar og rekstrarrammi sé eitthvað ofan á brauð. Og til vara, að það eigi bara við um alla hina. Skýringar sem gefnar eru iðulega; ég er að gera svo góða hluti!

Nýjasta dæmið er sýslumaðurinn suður með sjó, Jóhann Benediktsson. Hann er eins og lénsherra. Rekur bara sitt embætti alveg óháð því hvað eitthvert ráðuneyti segir. Fjárhagsáætlanir léttvægar fundnar enda verið að vinna svo gott starf.

Getur verið að starfsmenn þar hafi betri laun en aðrir sambærilegir hjá öðrum embættum sömu tegundar hér á landi? Ef svo er þá skil ég vel ánægju fólks með sinn sýslumann. Efast reyndar í engu um mannkosti Jóhanns en þetta mál getur alls ekki snúist um það.

Hvernig væri hér umhorfs ef allir sýslumenn og ráðsmenn ríkis og bæja hefðu hlutina bara svona? Þeir sem hæst hafa látið virðast einnig telja að ráðuneyti Björns Bjarnasonar lúti ekki heldur neinum eðlilegum lögmálum eins og fjárlögum. Þar á bæ geti menn bara gengið í botnlausa sjóði til að rétta af rekstur sem engan veginn rímar við áætlanir. Hver maðurinn ofan í annan rýkur til og talar um einelti og mannvonsku í þessu samhengi. Fullkomlega fáránlegt og óábyrgt og lyktar á stundum af skítugri pólitík.

Jóhann hefur rekið sitt mál í fjölmiðlum. það er lýðskrum ef ég er spurður. Björn liggur að vanda vel við höggi enda virðist hann haldinn þeirri ótrúlegu barnalegu trú að efnisatriði og prinsipp skipti máli. Að málið skýri sig sjálft ef fólk kynnir sér staðreyndir. Ef ég réði þar á bæ myndi ég í það minnsta reyna að bera hönd fyrir höfuð mér...

Að gera faglegan ágreining getur verið eðlilegt og hollt. Áherslur og aðferðir. Geti Jóhann ekki unnið með ráðuneytinu af þeim ástæðum þá er það bara þannig og þá hverfur hann til annarra starfa. Ekkert er eðlilegra.

Ef málið snýst um endurtekna tilhneigingu Jóhanns til að hundsa tilmæli um að halda sig við þann ramma sem honum er ætlaður eins og aðrir gera þá finn ég ekki til með honum.

Röggi.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Come on Röggi... Þú sérð auðvitað enga tengingu í þessu öllu við Baugsfeðga? Og því að sýslumaðurinn hlýddi ekki þegar hann var beðinn um að bera ljúgvitni fyrir Dómsmálaráðherra og Ríkislögreglustjóra? Get a life.

Þú er með algjört blindspot á þetta dæmi og/eða vilt ekki sjá hlutina nema út frá fyrirfram ákveðnu sjónarhorni og tjáir þig síða um þá.
Röggi, boy, það er Lýðskrum af verstu tegund. (Fyndið að sjá hvernig þú og fleiri varðhundar Davíðsarmsins notið núorðið "lýðsskrum" í örðu hverju orði eftir að foringinn lét það út úr sér um daginn.)

Ást og virðing, S

Nafnlaus sagði...

Einnig finnst mér athyglisvert að embættið á Suðurnesjum skuli eitt vera gagnrýnt fyrir framúrkeyrslu að hálfu ráðuneytisins og að embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum skuli vera það eina sem að Dómsmálaráðuneytið tók ákvörðun um að auglýsa laust til umsóknar.

/Jón

Nafnlaus sagði...

Þú hittir naglann svo sannarlega á höfuðið. Forstuðumenn ríkisstofnanna eiga að fara eftir þeim ramma sem þeim er settur, eiga t.d. ekki að vera gera eigin kjarasamninga við sitt fólk líkt og Jóhann var að gera. ÁStæðan fyrir hallanum á embættinu var hreinlega sá að hann var að yfirborga ríkisstarfsmenn sem hefðu annars verið á lægri launum hjá öðrum embættum.
Að reyna blanda Baugsmálinu inn í þetta er alveg síðasta sort og sýnir hversu ömurlegur snepill DV er.

Nafnlaus sagði...

Þú efast semsagt í engu um mannkosti Jóhanns en finnst hann samt haga sér eins og lénsherra og vera lýðskrumari?
Viltu ákveða þig? Eða finnst þér þú kannski ekki þurfa að ákveða þig frekar en BB?
VIlt þá e.t.v. bara hafa hlutina eins og ráðherra dómsmála sem veitti heimild til ráðningar lögreglumanna en "gleymdi" að láta fjármálaráðuneytið vita. Eða skipti hann kannski bara um skoðun og fannst óþarfi að ráða fleiri löggur?
Er það þá máske ekki sleifarlag af því að það átti sér stað í ráðuneytinu sem hafið virðist yfir gagnrýni?
Tjahh, venjulegt fólk hlýtur að spyrja í hvaða helli fólk eins og þú dvelur. Það hlýtur a.m.k. að þurfa algera veruleikafyrringu til að verja hvernig dómsmálaráðuneytið hefur skorið löggæslu á Íslandi niður við trog á undanförnum árum. Jóhann hefur þvælst fyrir þessum hræringi í Birni og geldur þess.

kv.
Pétur Maack

Nafnlaus sagði...

Ég er aldrei þessu vant nokkuð sammála þér.

Það er ekki hlutverk stjórenda ríkisstofnana að skammta sér fjárveitingu, þeir verða að halda sér innan þeirra fjárveitinga sem þeim er skammtað.

Stjórnandi sem ekki er innan fjárveitinga er ekki að rækja sínar skildur - svo einfallt er það.

Hitt er síðan allt annað mál hvort auka eigi fjárvetingar - það er pólitískt mál og að öðrum toga. Slík umræða þarf einnig að snúast um hvar slíkar fjárveitingar eigi að auka. Er t.d. betra að auka fjárveitingar í RVK en á Suðurnesum og sv. fr.

Það er alveg kostulegt í þessari umræðu að horft hefur verið framhjá framúrkeyrslum stjórnenda stofna eins og það sé ekkert mál. Þannig er t.d. heilbryggðiskerfið undir sömu sök selt.

Nafnlaus sagði...

Ofboðslega kemur á óvart að þú verjir málstað Björns Bjarnasonar...
Þetta mál snýst um togstreitu innan lögreglunnar. Það er búið að setja upp embætti fyrir eitt mesta scum Íslands, Harald J. Það embætti sogar til sín fé hraðar en Framsóknarmaður með opið tékkhefti frá ríkinu. Björn Bjarnason er búinn að ná að slátra meira og minna grunn löggæslu í landinu. Það er stórmerkilegur árangur í ljósi þess að grunnlöggæsla á Íslandi er líklegast auðveldasta löggæsluverkefni í heiminum. Hversu ömurlegt er að ná að klúðra því...
Björn og þetta pakk sem hann er búinn að safna í kringum sig er ein mesta sóun á almannafé sem til er á Íslandi og það án þess að þeir nái árangri í nokkru sem þeir taka sér fyrir hendur. Lögreglan á Suðurnesjum hefur náð miklum og góðum árangri. Það er ekki sóun á almannafé.

Nafnlaus sagði...

Röggi. Núna eru prinsippin að þvælast fyrir þér og málflutningur þinn missir marks. BB er búinn að vera, hann á að vera þurrkuntulegur embættismaður í einhverju bakherbergi en alls ekki stjórnmálamaður og stjórnandi. Ég efast reyndar ekki um einbeittan vilja BB til að efla lögregluna, en hann verður að vilja starfa með sínum bestu sonum.

Vertu úti!