sunnudagur, 4. janúar 2009

Lambúshettulýðræði.

Er að hugsa um fólk sem hefur svo slæma málefnastöðu að það getur hvorki komið fram á bloggsíðum undir nafni eða fylgt skoðunum sínum eftir nema á bak við lambúshettur.

Það er ekkert að óttast?? Stjórnarskráin okkar verndar allar skoðanir, meira að segja þær sem eru þannig að fólk geti helst ekki sett andlitið sitt á bak við þær. Það sem stjórnarskráin verndar hins vegar ekki er ofbeldi. Að einn beiti annan ofbeldi í viðleitni sinni til að fá fylgi við sínar skoðanir.

Mér er reyndar sagt að það að hylja andliti sitt sé lögbrot. Kanski væri rétt að stoppa þá sem ætla að gerast svo brotlegir við lög að þeir hylji andlit sitt áður en þeir hefja ofbeldið.

Lýðræðislega hugsandi fólk á allt sameiginlega hagsmuni í því að stoppa svona vitleysu. Lýðræðið er ekki falið á bakvið lambúshettur. Það er bara ofbeldið sem þarf þannig fatnað.

Röggi.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já þetta er allt voða fallegt í orði en því miður ekki á borði.

Hér á landi hefur fólk í langan tíma þurft að líða fyrir skoðanir sínar (veit, þú hefur ekki tekið eftir því enda með "réttu" skoðanirnar). Ég þekki fólk sem hefur misst hluta af lífsviðurværi sínu vegna skoðana sinna og veit að það eru margar, margar sögur um slíkt.

Ég skrifa undir dulnefni á blogginu því andinn í þjóðfélaginu hefur verið þannig að það sé manni ekki til framdráttar að láta í ljós skoðanir sem eru aðrar en þær sem yfirvöldum þóknast.

Og þegar maður á stóra fjölskyldu sem þarf að metta tekur maður enga sénsa.

Nafnlaus sagði...

Manni dettur eitthvað svipað í hug þegar eigendur fyrirtækja þurfa að fela sig bak við leppa og alls kyns hlutafélagafléttur svo eignarhald er í raun bak við lambhúshettu. Einnig tregða stjórnmálaflokka við að opna bókhald sitt. Hvað þarf að fela?
Bestu kveðjur, Solveig

Finnur sagði...

Úr 15. gr. lögreglulaganna: 3. [Ef uggvænt þykir að óspektir verði á mótmælafundi, í kröfugöngu eða á annarri slíkri samkomu á opinberum stað er lögreglu heimilt að banna að maður breyti andliti sínu eða hylji það eða hluta þess með grímu, hettu, málningu eða öðru þess háttar sem er til þess fallið að koma í veg fyrir að kennsl verði borin á hann.]

Nafnlaus sagði...

"Lýðræðið er ekki falið á bakvið lambúshettur. Það er bara ofbeldið sem þarf þannig fatnað."

Lambhúshettur eru þjóðlegar skjólflíkur sem gerðu forfeðrum okkar kleift að lifa af risjótta tíð.

Nú er svo næðingssamt á þjóðarskútunni að lítið gagn er að hvítum flibbum, þá er gripið til lambhúshettunnar.

Nafnlaus sagði...

Þú þarft aldrei neina lambúshettu, Röggi; þú virðist lifa í bómullarheimi sérhagsmuna og þarft engu að mótmæla - nema þeim sem leyfa sér að mótmæla að sér sé nauðgað.

Um margra missera skeið hafa "íslensk stjórnvöld" "birtst" almenningi sveipuð blæjum lyganna. Þau eru enda í þeirri aðstöðu að geta falið sannleikann næstum eins og þau lystir.

Þeir mótmælendur sem kjósa að hylja andlit sín gera það til að tryggja að þeir missi hugsanlega ekki það litla sem þeir þó hafa; vinnu sína eða persónulegasta frelsi.

Enda er á öllu illu von: það þarf enga stökkbreytingu til að lygin "stjórnvöld" fari að beita samlanda sína annars konar ofbeldi ...
Eiginhagsmuna"stjórnvöldum" er treystandi til alls konar ofbeldis gagnvart almenningi, því miður. Vísast má telja að fámenni lögreglunnar og skortur á fangelsisrými komi í veg fyrir að mótmælendum hefur verið sýnt sæmilegt "umburðarlyndi" fram að þessu.

Og einhvern veginn virðist það blasa við að þeir sem reka upp ramakvein vegna EIGNAspjalla núna, meti einmitt eignir, völd og dauð verðmæti valdaklíkunnar alls en persónuleg réttindi og eignir almennings (sem "stjórnvöld" og mammonsdýrkendur rændu frá þjóðinni) einskis.

Svei bara, Röggi, þú ert svæsinn talsmaður sérhagsmuna.

- Ísak Harðarson.

Nafnlaus sagði...

Leiðrétting: Átti að vera: "Vísast má telja að fámenni lögreglunnar og skortur á fangelsisrými sé ástæða þess að mótmælendum hefur verið sýnt sæmilegt "umburðarlyndi" fram að þessu."

ÍH.

Nafnlaus sagði...

Hva röggi styður þú ekki nafnleysið hjá Staksteinum?

Nafnlaus sagði...

Halt þú bara áfram að hafa áhyggjur af lambhúshettum og öðrum fatnaði , við hin skulum tala um eitthvað sem skiptir einhverju máli.

Hvaða bölvaða smáatriða-blæti ætlar öllu að tröllríða hérna ? Má ég minna á að efnhagur landsins er í rúst , ef menn eru búnir að gleyma því. Ekki skal mig undra að þetta land er í rusli ef Stjórnmálamenn eyða jafn miklum tíma í hreinræktað aukaatriðabull eins og meirihluti bloggara.

Arnar H.

pjotr sagði...

"Hvaða bölvaða smáatriða-blæti ætlar öllu að tröllríða hérna ? Má ég minna á að efnhagur landsins er í rúst , ef menn eru búnir að gleyma því."

Þetta heitir SMJÖRKLÍPA sem hefur verið beitt um margra ára skeið af Sjálfstæðismönnum. Við þessa smjörklípu tvinna þeir hinar ýmsu möntru sem samdar eru í Valhöll af spunameisturum flokksins sem innmúraðir þylja við öll tækifæri. Hver man ekki möntrurna um stöðuleika og góðæri sem sífellt var klifað á.

Geirinn sagði...

Jamm við erum með dómsmálaráðherra núna sem hefur miklar mætur á föður sínum heitnum. Faðirinn var einmitt í ríkisstjórn ýmist sem dómsmálaráðherra eða forsætisráðherra á þeim árum sem símhleranir og eftirlit var með fólki á mjög umdeildan og jafnvel ólöglegan hátt. Þetta fólk hafði sjaldnast unnið sér annað til saka en að láta uppi stjórnmálaskoðanir sínar. Skoðanir sem ekki samræmdust skoðunum þáverandi ráðamanna.

Sumir ráðamenn hafa svarað gagnrýni undanfarið með því að spyrja fyrst "Hverjir segja það?" í stað þess að svara málefnanlega. Þannig að maður er farinn að efast um að fólk geti fullvissað sig um þessi réttindi sín. A.m.k. með núverandi ráðamenn sem setið hafa við völd allt of lengi og hannað kerfið utan um sig.

Spurning sem færð er fram með rökum og rökstuðningi breytist ekkert þó svo að þú vitir nafn spyrjandans eður ei.

Og ef hún er færð fram á fáránlegan og dónalegan hátt þá hunsarðu hana í báðum tilvikum hvort eð er.

Einar Jón sagði...

Hvað með rúðubrot í Nornabúðinni, þar sem skemmdarverk voru unnin á búð eins helsta mótmælandans tvær nætur í röð?

Er skrýtið að menn vilji ekki sýna andlit sín ef þetta er niðurstaðan? Og af hverju sýndu skemmdarvargarnir ekki andlit sín?

Nafnlaus sagði...

Fyrir mér skipta andlit eða nöfn bara nákvæmlega ENGU máli! Það er málstaðurinn sem skiptir máli. Hættið að velta ykkur upp úr smáatriðum. Fólki er frjálst að tjá sig nafnlaust eða með trefil fyrir andlitinu. Þið sem talið um að málefnin skipti máli og tengið það síðan við nöfn og lambhúshettur eruð á villigötum.

Haraldur