sunnudagur, 11. júlí 2010

HM, frábær Howard Webb

Betra liðið vann úrslitaleik HM í fótbolta. Úrslitaleikurinn var ótrúlegur en öðruvísi en margir áttu von á. Hollendingar komu feikna ruddalegir til leiks og tókst næstum því að brjóta Spánverja niður í bókstaflegri merkingu. Ég hélt með Hollandi en þó mest með Howard Webb fyrir þennan leik og hann fékk trúlega erfiðasta verkefni sitt til þessa.

Mér fannst hann frábær en hann gerði sín mistök eins og við má búast í hverjum einasta leik þó auðveldari séu en þessi. Bókstafstrúarmenn á reglur geta klárlega fundið eitt og annað og kannski sluppu Hollendingar vel með ruddaskap sinn í fyrri hálfleik.

Webb sýndi mikinn leikskilning þegar hann fann leikinn vera að byrja of sterkt og þá sáum við skapfestu hans og styrk en hann féll þó ekki í þá gryfju að reka menn út af í bunum heldur beitti öðrum aðferðum til að koma mönnum á rétt ról. Það gerði mikið fyrir leikinn.

Sumir munu tala um að Holland hafi átt að fá hornspyrnu í sókninni áður en Spánn skoraði og það með réttu. En menn fá ekki á sig mörk vegna þess að dæmd er markspyrna í stað hornspyrnu hinu megin á vellinum....

Mistök dómara eru hluti leiksins og ég er handviss um að Webb fær toppeinkunn fyrir þennan leik enda besti dómari heims núna.

Röggi

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já.....Svei mér þá! Bara nokkuð rétt hjá þér!! :)